Helgarsprokið 1. janúar 2006

1. tbl. 10. árg.

F ormaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, ritar grein í Morgunblaðið í tilefni áramótanna og kemur víða við. Hann fjallar meðal annars um þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á síðustu misserum og minnir á að tekjuskattur lækkar um 1% nú um áramótin og að hátekjuskattur fellur niður, en hann hefur farið lækkandi á síðustu árum. Þá nefnir hann að einnig hafi verið lögfest að um næstu áramót verði tekjuskattur lækkaður um 2% og verði þá kominn niður í 21,75%. Samanlagt álagningarhlutfall ríkis og sveitarfélaga, staðgreiðslan svo kallaða, verði þá komið niður í 34,75% og verði þá í fyrsta sinn lægra en þegar staðgreiðslan var tekin upp árið 1988, þegar hlutfallið var 35,2%. Vegna þessara breytinga hækki skattleysismörk á árunum 2004 til 2007 úr rúmlega 71.000 krónum í tæplega 85.500 krónur eða um 20%. Þá nefnir Geir afnám eignarskatta sem komi sér vel fyrir alla en þó sérstaklega eldri borgara. Hann segir einnig að góður árangur í ríkisfjármálum muni gera kleift „að ganga enn lengra í umbótum á skattkerfinu á næstu árum.“ Þetta er jákvætt, enda verða þessi orð ekki skilin á annan veg en þann að formaður Sjálfstæðisflokksins sjái fyrir sér frekari lækkun skatta á næstu árum, en það verður að teljast meðal brýnustu verkefna stjórnmálanna.

Geir telur svigrúm til frekari einkavæðingar og nefnir í því sambandi „Landsvirkjun og ef til vill flugstöð Leifs Eiríkssonar ef tryggt er eðlilegt tillit til samkeppnissjónarmiða“. Vissulega eru þetta ágæt dæmi um fyrirtæki sem ríkið ætti að losa sig við og nefna mætti fleiri fyrirtæki og stofnanir sem full ástæða er til að selja eða leggja niður, svo sem Íbúðalánasjóð og Byggðastofnun.

Geir víkur einnig talinu að endurskoðun stjórnarskrárinnar og stjórnarráðsins og nefnir í því sambandi að sér finnist til greina koma að binda fjölda ráðherra við 9 eða 10 sem yrði vafalaust til bóta. Þá fjallar hann í þessu samhengi um völd og ábyrgð forseta Íslands og bendir á að hann sé ábyrgðarlaus og þar með valdalaus samkvæmt stjórnarskránni þótt hann taki þátt í ýmsum athöfnum stjórnvalda formsins vegna. Þetta hefur mörgum, þar með talið þeim sem nú gegnir embætti forseta Íslands, reynst erfitt að skilja, en er þó augljóst gefi menn sér tíma til að lesa stjórnarskrána og velta henni fyrir sér.

Loks fjallar Geir um utanríkismál, meðal annars öryggismál og utanríkisverslun. Hann segist ekki hafa áhuga á að gera Ísland að tilraunastofu með því að hér séu engar varnir, eins og einhverjir hér virðist telja að hægt sé að taka áhættuna af. Um utanríkisverslun fjallar hann með líkum hætti og á dögunum vegna fundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og fjallað var um hér.

Í áramótagrein Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins var farið yfir sviðið en seint verður þó sagt að lesandinn sé margs vísari að lestri loknum. En þótt greinin sé ekki efnismikil er hún ekki alvond því að Halldór vitnar í kafla um fjölskyldumál úr áramótagrein sinni frá því fyrir ári. Geta menn því rifjað upp sér til skemmtunar áherslur hans í málefnum fjölskyldunnar, sem felast að því er virðist einkum í nefndarstarfi hins opinbera. Þá má geta þess að Halldór nefnir að Lánasjóður landbúnaðarins hafi verið seldur og söluandvirðið runnið inn í lífeyrissjóð bænda, sem vissulega var jákvætt skref.

Guðjón Arnar Kristjánsson formaður stjórnlynda Frjálslynda flokksins vék öllum að óvörum að sjávarútvegsmálum í áramótagrein sinni og hélt því fram að gera þyrfti breytingar á sjávarútvegsstefnunni. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar hóf áramótagrein sína á sigri sínum í baráttunni um formannsstólinn í Samfylkingunni og sagði að haldinn hefði verið „glæsilegur og fjölsóttur landsfundur“ flokksins á árinu, en láðist að geta þess að deilur urðu um kjör varaformanns flokksins og að enn hefur ekki verið útskýrt hvernig á því stendur að um 900 manns kusu varaformann á um 500 manna fundi. Þetta er án nokkurs vafa met og að því leyti má að minnsta kosti segja að landsfundurinn hafi verið sögulegur, þó að fundurinn sé óneitanlega heldur minna glæsilegur fyrir vikið.

Ingibjörg Sólrún viðurkennir að vísu að góðæri hafi ríkt hér á landi á árinu, en þó er eiginlega allt að. Já, það ríkir eiginlega algert svartnætti í þessu góðæri og meðal þess sem kemur fram í þulunni um hörmungar góðærisins er að „heilbrigðiskerfið þróast einhvern veginn“ og að „Evrópusambandið er bannorð“. Eins og Björn Bjarnason bendir á í dagbók sinni í gær er Evrópusambandið ekki meira bannorð en svo að hann situr til dæmis í nefnd um Evrópusambandið með fulltrúum allra flokka. Nefnd af því tagi ætti að vera dæmi um „samræðustjórnmál“ og þess vegna Ingibjörgu Sólrúnu að skapi, en þess í stað telur hún Evrópusambandið af einhverjum ástæðum vera bannorð.

„Útrás stórfyrirtækja og velgengni smáfyrirtækja á heimamarkaði byggist ekki síst á menntun,“ segir formaður Samfylkingarinnar. Svo fullyrðir hún í beinu framhaldi að menntunarstigið hér á landi sé eitt það lægsta í Evrópu. Hvernig gengur þetta nú upp? Fer það þá saman að atvinnulífinu hér hefur vegnað vel á síðustu árum, að menntun landsmanna er léleg og að menntun er forsenda fyrir velgengni atvinnulífsins? Hver skilur svona lagað, nema þá ef til vill í ljósi þeirrar kröfu sem Ingibjörg Sólrún setur fram í greininni að hið opinbera auki enn frekar útgjöld sín til menntamála? Eðlileg rökhugsun verður auðvitað að víkja þegar þráin um aukin ríkisútgjöld er annars vegar.

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs segir flokkinn skýran valkost til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Hann segir flokkinn berjast gegn „nýfrjálshyggjunni“, sem er reyndar það sama og Ingibjörg Sólrún sagði um flokk sinn. Sem fyrr vill Steingrímur „velferðarstjórn“, sem nú heitir reyndar „græn velferðarstjórn“, og er nýyrði yfir vinstri stjórn. Þessa stjórn vill Steingrímur stofna með Samfylkingunni og Frjálslynda flokknum og ef marka má Steingrím yrðu verk velferðarstjórnarinnar nákvæmlega þau sömu og landsmenn hafa nokkrum sinnum kynnst af hálfu vinstri stjórna. Þar standa upp úr skattahækkanir, aukin ríkisútgjöld, aukin afskipti af atvinnulífinu og fleira sem yrði til þess eins að draga úr velferð í landinu.

Eins og endranær er fróðlegt að renna yfir áramótagreinar formanna stjórnmálaflokkanna því að þótt sumar þeirra séu rýrar í roðinu þá segja þær á heildina litið býsna mikið um þann mun sem er á áherslum stjórnmálaflokkanna. Og jafnvel innihaldsrýrar greinar segja líka sína sögu. En stærsta áminningin við þennan lestur er að stjórnarandstaðan er á nákvæmlega sömu villigötum og fyrr. Þótt Vefþjóðviljinn gagnrýni jafnan margt sem ríkisstjórnarflokkarnir standa fyrir, þá er samanburður á stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðuflokkunum augljóslega þeim fyrrnefndu í vil.