Föstudagur 30. desember 2005

364. tbl. 9. árg.
Því er þó ekki að leyna að það hefur verið mér sárt sem stofnfélaga í Samfylkingunni að þurfa að viðurkenna fyrir sjálfri mér og öðrum að flokkurinn er ekki og verður seint sá frjálslyndi og framsækni jafnaðarmannaflokkur sem við kratar reiknuðum með í upphafi.
– Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri í viðtali við Morgunblaðið 29. desember 2005.

Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri hefur gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Það stóð ekki á fréttamönnum að spyrja hana hvort hún væri ekki þar með að svíkja kjósendur sína og sannfæringu sína. Þegar Gunnar Örlygsson alþingismaður sagði skilið við frjálslynda og gekk í Sjálfstæðisflokkinn, linnti ekki látum fjölmiðlamanna sem spurðu að því hvort það væru ekki svik við kjósendur að hann sæti áfram á Alþingi í umboði kjósenda Frjálslynda flokksins. Straumur álitsgjafa lá í fréttir og spjallþætti þar sem það var endurtekið hvað eftir annað að þetta væru svik við kjósendur og misnotkun á lýðræðinu. Gunnari bæri að segja af sér og láta varaþingmann taka sætið, gott ef áframhaldandi þingseta væri ekki níðingsskapur gagnvart kjósendum og heyrnarlausum varaþingmanni Gunnars.

Oktavía og Gunnar fengu ekki alveg sömu meðhöndlun og  Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi þegar hann gekk úr sínum flokki eftir að hafa orðið undir í venjulegri atkvæðagreiðslu á landsfundi flokksins. Þá var ekki spurt um svik við fyrrum félaga og sannfæringu. Nei, nei Ólafur var hafinn upp til skýjanna og jafnvel kosinn maður ársins á einhverri útvarpsstöðinni. En á það ber að líta að Ólafur var að ganga úr Sjálfstæðisflokknum en ekki í hann eins og Oktavía og Gunnar.

Dagur B. Eggertsson var valinn sem fulltrúi „óháðra“ til setu á framboðslista R-listans fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Á dögunum gekk Dagur hins vegar til liðs við Samfylkinguna og ætlar sér líklega að verða borgarstjóraefni flokksins. Fjölmiðlamenn hafa eiginlega alveg gleymt að spyrja um svik Dags við óháða kjósendur og óháða samviskuna. Samfylkingarmennirnir sem krefjast þess nú að Oktavía víki sem bæjarfulltrúi á Akureyri hafa heldur ekkert sagt um að Dagur eigi að víkja sem borgarfulltrúi.

Nú halda menn kannski að Vefþjóðviljinn ætli að leggja út af þessu mikið samsæri fjölmiðlamanna gegn Sjálfstæðisflokknum. Þvert á móti. Eru það ekki eindregin meðmæli fjölmiðlamanna með Sjálfstæðisflokknum að þeir geri svo ríkar kröfur til þeirra sem ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn um að þeir hafi allt á hreinu gagnvart kjósendum og samvisku sinni? Menn sem ganga til við Samfylkinguna eða Frjálslynda flokkinn virðast hins vegar hvorki þurfa að standa skil gagnvart kjósendum sínum né samvisku sinni.