Fimmtudagur 29. desember 2005

363. tbl. 9. árg.

B ókin Völundarhús valdsins eftir sagnfræðinginn Guðna Th. Jóhannesson kom út skömmu fyrir jól og er óhætt að segja að þar fari bók sem öllum áhugamönnum um sögu Íslands á tuttugustu öldinni ætti að þykja fengur að. Bókin fjallar um embættistíð Kristjáns Eldjárns forseta og þá sér í lagi stjórnarmyndanir þær sem áttu sér stað í hans tíð, á árunum 1968 til 1980, og hugmyndir Kristjáns og annarra um stöðu forsetans, áhrif hans og völd. Bókin styðst auk áður birtra heimilda við dagbækur og hljóðsnældur og ljóst er að Kristján hélt býsna nákvæmt bókhald um samskipti sín og samtöl. Raunar mun nákvæmara en flestum sem við hann ræddu virðist hafa verið ljóst og er margt af þessu bæði forvitnilegt og fróðlegt. Þá leitar höfundur til ýmissa þeirra manna sem tóku þátt í þeim viðburðum sem um er fjallað og fær þannig fyllri mynd af atburðum. Að öllu saman lögðu er bókin þess vegna stórfróðleg, en auki skemmtileg aflestrar, sem er kostur – nema að vísu þegar komið er langt fram yfir æskilegan háttatíma.

Greinilegt er að höfundur leggur sig fram um að birta sanngjarna mynd bæði af mönnum og málefnum þótt lesendum geti vitaskuld sýnst sitt hverjum. Þannig bendir Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra til dæmis á, í bókadómi í nýútkomnum Þjóðmálum, að ekki sé endilega rétt að meta úrslit í valdatogstreitu þannig að sá sem verði ofan á hafi haft vinninginn. Þar er Þorsteinn, sem reyndar gefur bókinni afar góð meðmæli, að benda á að þótt Gunnar Thoroddsen hafi haft betur en Geir Hallgrímsson í átökum um stjórnarmyndun um áramótin 1979 til 1980, þá hafi árangurinn af stjórn Gunnars í efnahagsmálum ekki orðið góður en hugmyndir Geirs hafi hins vegar orðið ofan á þótt nokkur ár hafi liðið þar til þeim hafi verið hrint í framkvæmd.

Stór hluti bókarinnar fjallar um þessa atburði, sem kemur ekki á óvart í ljósi þess hve mikið hitamál þeir urðu og hve óvenjulegar aðstæður það voru að varaformaður Sjálfstæðisflokksins skyldi í trássi við formann, flesta þingmenn og flokksráð flokksins mynda vinstri stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi auk þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins – eða fjögurra, eftir því hvernig talið er. Þó má segja að það sé nokkur galli á bókinni að ekki komi fram hversu illa þessi ríkisstjórn fór með efnahag landsins, en verðbólga hefur til að mynda aldrei farið í ámóta hæðir hér á landi og í tíð þessarar ríkisstjórnar. Vera má að höfundur sé að geyma sér þá umfjöllun til síðari tíma og þyki hún eiga betur heima í öðru verki en þessu.

Hugmyndir Kristjáns Eldjárns um stöðu forsetans koma skýrt fram í bókinni. Kristján lagði alla áherslu á þingræðið og að völdin væru í höndum þingsins. Fram kemur að Kristján hafi verið beðinn að skrifa undir lög sem honum þótti slæmt að þurfa að staðfesta, en að honum hafi aldrei komið „til hugar að rökræða um setningu laganna við ríkisstjórn og ráðherra … Vilji framkvæmdarvaldsins var lög,“ eins og Guðni orðar það. Þetta er fróðlegt í ljósi ákvörðunar sem Ólafur Ragnar Grímsson tók í fyrra um að undirrita ekki fjölmiðlalög sem samþykkt höfðu verið á Alþingi. Miðað við afstöðu Kristjáns má fullyrða að  hann hefði aldrei látið sér koma til hugar að til greina kæmi að hann undirritaði ekki þau lög, hversu andsnúinn þeim sem hann hefði hugsanlega verið.

Guðni vitnar einnig til orða Kristjáns við embættistöku árið 1976, en þá sagði Kristján: „Öllum er kunnugt, sem lesið hafa stjórnarskrána, að í fljótu bragði mætti svo virðast sem vald forseta væri talsvert en í ljós kemur að það er meira í orði en verki þar sem forseti felur ráðherrum að fara með vald sitt og stjórnarathafnir hans eru á þeirra ábyrgð.“ Kristján hafði engan áhuga á að sölsa undir sig meiri völd en honum voru ætluð samkvæmt stjórnarskránni. Hann gegndi embættinu af skynsamlegri hógværð og af virðingu fyrir þingræðinu og lögunum, sem og þeim venjum sem skapast höfðu um embættið.