Miðvikudagur 28. desember 2005

362. tbl. 9. árg.

Ífréttum í gær var greint frá því að lyfjafyrirtæki hafði samið um það við líkamsræktarstöð eina að sjúklingar sem taka tiltekið lyf fái afslátt af æfingaverði í stöðinni. Þetta eru ýmsir ósáttir við og þar á meðal Félag íslenskra heimilislækna. Elínborg Bárðardóttir, formaður þess merka félags, sagði að með þessu væri brotið á einkalífsvernd sjúklinganna vegna þess að þeir fá ekki afsláttinn nema sýna kassakvittun fyrir kaupum á lyfinu og þar með veit einhver starfsmaður á stöðinni að þeir taka þetta tiltekna lyf.

Einmitt það. En hver neyðir sjúklinginn til þess að biðja um afsláttinn? Er ekki alveg skiljanlegt að með því að biðja um afsláttinn þá hefur maðurinn einfaldlega afsalað sér einkalífsverndinni, eins og margir menn gera um sjúkdóma sína og án þess að fá frítt í leikfimi. Segjum nú að maður skrifi bók og lýsi þar sjúkdómum sem hann hefur glímt við. Einhver álíka rökvís maður og formaður félags heimilislækna myndi þá líklega telja það brot á persónuvernd að maðurinn verði að skrifa bókina til þess að fá höfundarlaunin greidd.

ÍÍgær var sagt frá því að kona ein hafði fundist látin í íbúð sinni í Reykjavík og verið þar lengi látin. „Lögreglumenn segja dapurlegt að slíkt geti gerst í allsnægtaþjóðfélagi okkar“ sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins og án þess að ástæða sé til að dvelja of mikið við þetta mál þá má spyrja af hverju verið er að hafa slíka skoðun eftir ónafngreindum lögreglumönnum. Lögregla getur vitað eitt og annað um málsatvik en skoðanir eins og þessar getur hver maður myndað sér eða myndað sér ekki.

Skrípaleikurinn í tengslum við niðurstöðu kjaradóms heldur áfram og má til skiptis fylgjast með pópúlisma stjórnarandstöðunnar og taugaveiklun ráðamanna. Halldór Ásgrímsson hefur nú beðið kjaradóm um að kveða upp nýjan úrskurð og það án þess að nokkuð hafi breyst svo vitað sé. Og bætir svo við með því að taka fram að ný ákvörðun eigi ekki að taka til launa dómara – af því að „framkvæmdavaldið“ eigi ekki að ákveða laun dómenda. Fyrir nú utan allt annað, þá er meira að segja sú undantekning misskilningur. Þegar talað er um að framkvæmdavaldið eigi ekki að skipta sér af launum dómara þá er átt við það að ekki verði reynt að hafa áhrif á einstakar dómsúrlausnir með því að skipta sér af launum dómara málsins. Almennar breytingar eins og hér er verið að fara fram á, eru allt annar hlutur. Það sést kannski betur ef menn hugsa sér að þær aðstæður skapist í ríkisfjármálum að stjórnvöld telji nauðsynlegt að lækka með lögum laun allra ríkisstarfsmanna um 5 %. Ætli mönnum dytti í hug að undanskilja dómara – vegna „sjálfstæðis dómsvaldsins“? Nei sennilega ekki. Menn eru einfaldlega búnir að gleyma sér í hátíðleika. Ef það er á annað borð rétt og ástæða til þess að endurskoða niðurstöðu kjaradóms þá er ekkert að því að sú endurskoðun taki jafnt til dómara sem annarra embættismanna sem dómurinn fjallar um.