Þriðjudagur 27. desember 2005

361. tbl. 9. árg.

Stjórnarandstaðan er söm við sig. Nú hefur hún óskað eftir því að Alþingi verði strax kallað saman og gefur nýjan úrskurð kjaradóms upp sem ástæðu. Og hvað vill hún að þingið geri? Setji lög? Álykti? Nei, stjórnarandstaðan vill að þingið komi saman og „ræði“ niðurstöðu kjaradóms. Hugmyndin er semsagt að vera með þingfundi í nokkra daga og láta þar fara fram stóryrðakeppni. Þetta er dæmigerð vitleysa. Ef það er ástæða til þess að kalla þing saman í ofboði, þá hlýtur það að vera vegna þess að það þarf að setja lög um eitthvert áríðandi málefni og menn vilja hvorki bíða né setja bráðabirgðalög. En þegar engar tillögur liggja fyrir, af hverju þarf þá að halda skyndifundi?

Annars er umræðan um hinn nýfallna úrskurð alveg í föstum liðum. Þeir sem búast mátti við eru búnir að segja það sem búast mátti við. Hækkanir sem mælt er fyrir um til nokkurra embættismanna eru vissulega nokkru hærri en nýjustu almennu hækkanir á vinnumarkaði en á móti bendir kjaradómur á að þegar horft sé til lengri tíma þá hækki kjaradómsmenn minna en gerist og gengur. Ekki hefur Vefþjóðviljinn reiknað það út, en hefur ekki heldur séð þá útreikninga hrakta. Þó hlýtur það eiginlega að hafa verið gert, því annars hefði formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, sá orðvari maður, ekki kallað úrskurðinn „óréttlæti“ í fréttum í gærkvöldi. Hann færði svo þau góðu rök fyrir máli sínu að eftir úrskurð kjaradóms hefðu þingmenn bara farið heim til sín um jólin í „hamborgarhrygg og ís“ og jafnvel eitthvað fleira góðgæti.

Það er auðvitað hálfgerður höfuðverkur að ákveða laun þeirra sem kjaradómur tekur til. Einkum hefur þetta reynst snúið með alþingismenn, en væntanlega muna flestir eftir því að það þótti nú aldeilis óeðlilegt þegar Alþingi ákvað sjálft þingfararkaupið. Þá var nú mikið talað um að koma yrði á fót einhverjum aðila sem gæti tekið þetta hlutverk frá þingmönnum. Þegar sá aðili kveður svo upp úrskurð til hækkunar, þá vakna upp raddir um að það sé auðvitað miklu hreinlegra að þingmenn geri þetta sjálfir.

Eitt atriði varðandi kjaradóm mætti hins vel endurskoða og er það að Hæstiréttur tilnefnir tvo menn í dóminn sem svo ákvarðar laun dómara. Þó auðvitað sé erfitt að finna skynsamlega leið í þessu, og erfitt að komast hjá því að einhverjir þeir sem undir dóminn eru settir hafi eitthvað með það að gera hverjir veljast í dóminn, þá er þess tenging kannski í það mesta. Svipað mætti auðvitað segja um þá skipan að Alþingi velji í dóminn eins og einnig er nú.

En það er vandi að ákveða laun þessa fólks – nema auðvitað menn bara sættist á að það sé ómögulegt að gera hér svo mörgum líki.

Og líkurnar á að menn sættist á það? Ja ætli þær séu ekki svona svipaðar og að Leeds verði næsti meistari. Það lítur auðvitað ekki vel út núna, en það getur allt gerst í rugby-inu.