Mánudagur 26. desember 2005

360. tbl. 9. árg.

N ú hefur sú huggulega hugmynd að leggja á sérstakan Evrópusambandsskatt skotið upp kollinum á ný og er ástæðan vandræðagangur Evrópusambandsins vegna fjárlaga. Jose Barroso forseti framkvæmdastjórnarinnar hefur að sögn Euobserver látið hafa eftir sér að hann vilji ekki að fjárlög Evrópusambandsins tengist fjárlögum aðildarríkjanna. Ýmsir forkólfar í aðildarríkjum Evrópusambandsins hafa einnig lýst þeirri skoðun sinni að æskilegt sé að leggja á sérstakan Evrópusambandsskatt. Tekjur Evrópusambandsins verða samkvæmt nýlegu samkomulagi leiðtoga aðildarríkjanna að vera innan við 1,045% af landsframleiðslu ríkjanna, sem þýðir væntanlega að nýr Evrópusambandsskattur, yrði hann lagður á, yrði rúmlega eitt prósent af landsframleiðslu ríkja Evrópusambandsins. Svo geta menn velt tvennu fyrir sér: Yrði skattheimta ríkjanna sjálfra lægri sem þessu næmi og yrði Evrópusambandsskatturinn rúmlega 1% um alla framtíð?

Reynslan af skattheimtu gefur skýra vísbendingu um að svarið við báðum þessum spurningum er neitandi. Þegar skattheimtu er breytt er sterkur hvati fyrir hið opinbera að nota tækifærið til að krækja í nokkrar krónur aukalega fyrir sjálft sig í trausti þess að við breytingar verði skattgreiðendur minna varir við skattahækkunina. Þess vegna fela skattkerfisbreytingar í sér hættu fyrir skattgreiðendur, þó að með því sé ekki sagt að allar skattkerfisbreytingar séu af hinu illa eða að öllum skattkerfisbreytingum fylgi þessi ógn. Eitt dæmi um skattkerfisbreytingu sem var misnotuð er breytingin á söluskatti í virðisaukaskatt, sem gerð var hér á landi árið 1990. Við þá breytingu ákvað ríkisstjórn vinstri flokkanna, undir forsæti Steingríms Hermannssonar, með fjármálaráðherrann Ólaf Ragnar Grímsson í broddi fylkingar og undir leiðsögn nýjustu bjargvætta Samfylkingarinnar, ráðherranna Jóns Baldvins Hannibalssonar og Jóns Sigurðssonar, að hafa skatthlutfallið hærra en það hefði þurft að vera til að innheimta óbreyttar tekjur. Sú niðurfelling sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir á eignarsköttum hér á landi er hins vegar dæmi um skattkerfisbreytingu sem felur ekki í sér slíka ógn og er hreinn ávinningur fyrir skattgreiðendur, en slík dæmi eru því miður fá og eiga vitaskuld ekki við þegar lagðir eru á nýir skattar.

Þá er það síðari spurningin, yrði Evrópusambandsskatturinn rúmlega 1% um alla framtíð? Líkurnar á því eru svo að segja engar. Reynslan sýnir að skattar sem komið hefur verið á hafa meiri tilhneigingu til að hækka en lækka, þó svo að dæmi séu einnig til um hið gagnstæða. Aftur má taka dæmi af söluskattinum, en hann var lagður á tímabundið fyrir fáeinum áratugum og var þá 2%. Nú er þessi skattur ótímabundinn virðisaukaskattur upp á 24,5%. Að vísu má finna dæmi um lækkun skatta eða niðurfellingu tímabundinna skatta. Hátekjuskattur var til að mynda lagður á tímabundið og nú hefur hann verið lagður af og núverandi ríkisstjórn hefur einnig lækkað almenna tekjuskattshlutfallið um nokkur prósentustig. Eins hefur Seltjarnarnesbær ákveðið að lækka útsvarið hjá sér. Allt eru þetta þó undantekningar frá þeirri meginreglu að skattar hafa tilhneigingu til að festast í sessi og hækka með árunum. Hið sama verður upp á teningnum með Evrópusambandsskatt komist hann einu sinni á. Þá verður hann hækkaður í hvert sinn sem Evrópusambandinu gengur illa að ljúka fjárlögum, enda miklu auðveldara að hækka skatta í Brussel en á þjóðþingum viðkomandi landa. Aðhaldið sem Brussel-valdið hefur er miklu minna en það aðhald sem lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnir búa við. Ábyrgðin er óljós í Brussel og almenningur fylgist verr með því sem gerist þar en í ríkjunum sjálfum. Þess vegna væri tiltölulega auðvelt fyrir ráðamenn að hækka sameiginlegan evrópskan skatt svo lítið bæri á og benda um leið á aðra og segja ábyrgðina liggja hjá þeim.