Helgarsprokið 25. desember 2005

359. tbl. 9. árg.

Kirkjusókn var mikil í gær og raunar alla aðventuna, og fer vaxandi frá ári til árs. Kannski er það til marks um vaxandi trú landsmanna en svo eru eflaust ýmsir sem fremur fara til þess að njóta stemmningar og hátíðleika án þess að vera að gefa því undir fótinn að einhver æðri máttarvöld séu við málið riðin á nokkurn hátt. En, alveg án tillits til þess hvaða afstöðu hver og einn tekur persónulega til slíkrar spurningar, þá er áhugavert að velta því fyrir sér hvílíkt gap er í raun, að minnsta kosti að ákveðnu leyti, á milli lífssýnar þeirra sem til dæmis trúa á Guð og svo hinna sem telja engan slíkan aðila vera í spilinu og aldrei hafa verið. Tveir menn, kannski líkir að flestu leyti, með svipuð áhugamál og sjónarmið um flesta hluti, kannski að auki nánir vinir og félagar, geta verið ólíkir í þeim punkti að annar er sannfærður um það, að veröldin öll, bæði jörð og stjörnur, sólir og hann sjálfur, eigi sér höfund, skapara, sem ekki aðeins fylgist með öllu sem fram fer, heldur muni einnig að lyktum krefja hvern mann reikningsskila fyrir líf hans allt. Hinn er svo aftur þeirrar skoðunar að enginn slíkur aðili sé til, tilveran eigi sér náttúrulegar skýringar og einn daginn sé öllu lokið fyrir hverjum og einum og ekkert taki við.

Þarna er talsverður munur á tvennum lífsviðhorfum. En af hverju er þjóðmálavefrit að velta honum fyrir sér? Bara af því að það eru jól? Nei kannski ekki aðeins þess vegna, þó auðvitað megi segja að slíkar vangaveltur séu nærtækari þá en endranær. En stundum er eins og fólk taki þennan mun á lífssýn ekki með í reikninginn þegar það deilir um mál er þessu tengjast og verður deilan þá fljótlega báðum aðilum til ama og hvorugur fær minnsta færi á að nálgast hinn. Það má taka dæmi úr báðum áttum.

„En hvað um kristna frjálshyggjumenn, verða þeir ekki að samþykkja þetta, talaði ekki Kristur fyrir samhjálp? Já var það? Kristur svaraði auðuga manninum því til, þegar sá spurði hvað hann ætti að gera til þess að verða hólpinn, að hann skyldi selja eigur sínar og skipta meðal fátækra. Hann sagði minna um að aðrir ættu að gera þetta fyrir hann, að taka af honum eigur hans og skipta á milli sín.“

Öðru hverju eru settar fram kröfur á hendur kristinni kirkju að hún segi eitthvað eða hætti að segja eitthvað eða þá að hún geri eitthvað, og það rökstutt með „breyttum þjóðfélagsháttum“ eða álíka veraldlegum röksemdum. Ef mál eru hins vegar svo vaxin, að hinn trúaði álítur að skapari himins og jarðar hafi mælt fyrir um að eitthvað tiltekið skuli boðað eða framkvæmt, eða þá að eitthvað skuli hvorki boðað né framkvæmt, þá þýðir akkúrat ekki neitt að reyna að hagga því með veraldlegum sjónarmiðum. Það er hægt að beita hótunum, þrýstingi og fortölum, skrifa sig máttlausan gegn „fordómum“ og „kjarkleysi“, en það getur engu breytt í augum hins trúaða. Hafi Skaparinn á annað borð lýst skoðun um málið þá gildir hún skilmálalaust svo lengi sem honum sjálfum þóknast ekki að breyta henni. Einu röksemdirnar sem hinn trúaði gæti tekið gildar væru að ritningin hefði verið mistúlkuð og Guð hafi í raun aðra skoðun. En veraldlegu sjónarmiðin, þessi um að skoðanir Mannanna hafi breyst og séu orðnar svona eða hinsegin, þau eru eins og vindur einn fyrir hinum trúaða.

Og að sama skapi. Það hefur ekkert upp á sig fyrir trúaðan mann að reyna að sannfæra trúlausan um eitthvert almennt baráttumál sitt, með þeim rökstuðningi einum að nú sé um vilja Guðs að tefla. Trúlaus maður skiptir ekki um skoðun þó vitnað sé í orð Jesú frá Nasaret eða Páls postula hans. Fyrir honum eru þetta aðeins menn sem voru uppi fyrir tvöþúsund árum eða svo, hafa að vísu haft gríðarleg áhrif á mannkynið síðan með orðum sínum, en engu að síður aðeins menn með mennskan boðskap. Boðskap sem auðvitað megi fara eftir þar sem það eigi við, en nútíminn með alla sína kunnáttu og tækni hljóti auðvitað að vita betur um svo ótalmargt. Og umfram allt; þar sem að Jesús hafi aðeins verið maður þá styðjist orð hans aðeins við eigið hyggjuvit og engum skylt að fara eftir þeim frekar en hann sjálfur kýs. Í þeim tilvikum þar sem maður sjálfur veit betur en Jesús, nú þá fer maður auðvitað eftir því sem maður sjálfur veit.

Er þetta ekki dálítið forvitnilegt umhugsunarefni, að minnsta kosti á jólum? Hver kannast ekki við það að í fjölskyldunni, vinahópnum, vinnunni eða annars staðar innan seilingar og sprottinn úr sama jarðvegi, sé einhver með gerólík lífsviðhorf að þessu leyti. En annars að flestu eins og einn úr hópnum. Auðvitað veldur slík staða af og til litlum árekstrum, einkum eftir því sem menn eru harðari á sinni skoðun. Menn geta til dæmis haft sömu meginskoðanir í stjórnmálum og verið eindregnir baráttufélagar þar. En svo berst baráttan að einhverju sviði þar sem einn í hópnum telur að Skapari sinn hafi tekið af skarið og fyrir slíkum manni hljóðna þá önnur sjónarmið og verða aldrei tekin til greina, hversu fast og fimlega þau eru studd veraldlegum rökum. Auðvitað veldur það ama, þeim sem þarna telja sig þurfa að glíma við hindurvitni og kerlingabækur. Trúlausir menn segja þá gjarnan, að ekki eigi að blanda saman trúmálum og stjórnmálum. Sú krafa er mjög skiljanleg frá þeirra bæjardyrum. Skyndilega skiptir nefnilega ekki lengur máli hvað virðist vera hagkvæmt, skynsamlegt, fallið til þess að hámarka ánægju sem flestra og svo framvegis, heldur fer að snúast um ritningarstaði. En frá sjónarhóli hins trúaða hljómar krafan einhvern veginn svona: Gott og vel: Skapari minn og heimsins alls, honum hefur þóknast að láta í ljós þessa tilteknu skoðun, en við ætlum ekki að taka hana til greina af því að Við, ja Við ætlum sjálfir að ákveða hvað er rétt. – Auðvitað er slík krafa nokkuð hörð frá sjónarhóli þess sem einlæglega er sannfærður um að það sé skapari himins og jarðar sem sé annars vegar – og að gerð sé krafa um að á hann sé ekki hlustað.

Ætli bæði trúaðir og trúlausir gætu ekki sparað sér nokkurn pirring með því að reyna að setja sig í hinna spor, hvað þetta varðar? Þó hvorugur muni auðvitað gefa sannfæringu sína eftir, þá gæti verið hollt að átta sig á að það eru einfaldlega mörk fyrir því hvaða röksemdir hinn aðilinn getur tekið gildar. Þeir sem sífellt virðast verða reiðari og óþolinmóðari yfir því til dæmis að kirkjan taki ekki upp þá afstöðu sem þeir vilja, þeir gætu sennilega sparað sér reiðina með því að átta sig á því að skoðanir kirkjunnar byggjast kannski ekki á neinu mati á þeim persónulega og þeirra sjónarmiðum.

En hvernig er nú með til dæmis frjálshyggjumenn og kristna trú? Eru þau ekki alveg ósamrýmanleg? Er ekki frjálshyggjan stjórnmálastefna eigingirninnar og gengur út á að hver safni „auð með augun rauð, er aðra brauðið vantar“? Er frjálshyggjan ekki hugmyndafræði nískunnar þar sem hver skarar eld að eigin köku en gefur dauðann í það hvernig öðrum reiðir af? Nei aldeilis ekki. Frjálshyggjan snýst hreint ekki um að fólk aðstoði ekki náunga sinn. Frjálshyggjan snýst um að hver og einn sé sem mest látinn sjálfráða um eigið líf. Frjálshyggjumenn eru kannski ekki mikið fyrir opinbera samhjálp, nauðungarsamhjálp, en það er ekkert sem segir að þeir hafi minni áhuga en aðrir á því að hjálpa náunganum. Ef maður vill gefa fátækum allt sitt fé, og hefur eignast það heiðarlega, þá dytti engum frjálshyggjumanni í hug að meina honum þess. Frjálshyggjumenn vilja einfaldlega virða hvern einstakling þess, að hann fái sem mest að ráða lífi sínu sjálfur, að einstaklingarnir séu í raun svo jafnir að Pétur sé ekki sviptur eignum sínum til þess að borga áhugamál Páls. Og hvernig er það, þeir sem aðhyllast ýmsar aðrar stjórnmálastefnur og gera stundum hróp að frjálshyggjumönnum fyrir nísku þeirra og harðneskju; hver eru þeirra sjónarmið? Í hverju felst fórnarhugur þeirra? Í sífelldum kröfum um hækkaða skatta á aðra? Þessir sem saka hina um nísku, eru það ekki þeir sem vilja láta aðra geyma fyrir sig börnin á daginn á meðan þeir eru í vinnu eða verkfalli, vilja svo fá niðurgreidda menningu, íþróttir og aðra afþreyingu, þeir vilja skóla og spítala án þess að borga fyrir þá, þeir vilja vegi um alla firði og gegnum fjöll, þeir vilja háhraðafjarskipti til ystu annesja, þeir vilja eyða biðlistum eftir öllu, þeir vilja hærri vaxtabætur, hærri barnabætur og lengra fæðingarorlof. Skattatillögur sem að þeim sjálfum snúa eru um hærri persónuafslátt. Jú og þeim þykja aðrir vera nískir.

En hvað um kristna frjálshyggjumenn, verða þeir ekki að samþykkja þetta, talaði ekki Kristur fyrir samhjálp? Já var það? Kristur svaraði auðuga manninum því til, þegar sá spurði hvað hann ætti að gera til þess að verða hólpinn, að hann skyldi selja eigur sínar og skipta meðal fátækra. Hann sagði minna um að aðrir ættu að gera þetta fyrir hann, að taka af honum eigur hans og skipta á milli sín. Það er enginn vafi á því, að Kristur hvatti menn til ríkulegrar aðstoðar við þá sem minna mega sín; fátæka, heimilislausa, sjúka og svo framvegis. Hann vildi að menn gæfu svo að þeir fyndu fyrir því en ekki til þess að uppskera hrós hjá öðrum mönnum. Hann mat framlag ekkjunnar sem þegjandi og hljóðalaust gaf eyri af fátækt sinni meira en stærri og lofsungin framlög hinna auðugri. Kristinn frjálshyggjumaður hlýtur eins og aðrir kristnir að reyna að hlýða kalli þess sem sagði, að hvar sem menn mættu fátækum þar væri einnig Honum sjálfum að mæta, og eins og þeim færist við hinn fátæka færist þeim við Hann sjálfan. En það er hreint ekki þar með sagt að frjálshyggjumaðurinn sjái ástæðu til þess að blanda hinu opinbera í þau málefni, þó hann muni fylgja lögum og greiða keisaranum það sem keisarinn krefst.

Það er alger óþarfi að halda, að af frjálshyggju leiði andlegt tóm eða að enginn láti sig annan varða. Frjálshyggjumenn eru eins og aðrir menn hvað það varðar, þeir geta talið sig kristna, trúlausa eða þá til ýmissa annarra trúarbragða. Frjálshyggjan gengur einfaldlega út á jafnrétti einstaklinganna og er raunar heilli í því en margar stefnur sem eru langorðari um jafnréttismál. Og hún gengur út á að sem flestir hafi sem mest frelsi til þess að lifa sínu lífi eftir eigin gildismati en ekki annarra.