Laugardagur 24. desember 2005

358. tbl. 9. árg.

Ríkisútvarpið kemur oft á óvart. Í gær sagði það ítrekað frá því í fréttum að ef „þau hjón“ Jósef og María þyrftu að nýju halda sína frægu leið til Betlehem þá yrðu þau sennilega lengur að því en þegar þau fóru hana fyrir tvöþúsund árum. Þessum fróðleik fylgdu þær skýringar að nú væru á þessari leið svo og svo margir vegatálmar á vegum Ísraelsstjórnar og svo framvegis. Þessar hugleiðingar fréttamannsins, endurteknar auðvitað, voru all nokkuð einkennilegar innan um aðrar fréttir, svo ekki sé meira sagt, þar sem að hvorki vegatálmar né ófriður á þessum slóðum eru nýmæli í eyrum íslenskra fréttahlustenda. En af því að Ríkisútvarpið hefur þungar áhyggjur af því hvernig þeim Maríu og Jósef reiddi af ef þeim yrði gert að endurtaka þá skrásetningarferð sem frægust hefur orðið og viðburðaríkust allra slíkra ferða, þá vill Vefþjóðviljinn upplýsa útvarpið um að þær áhyggjur eru ástæðulausar. Ef svo ákaflega ólíklega vill til, að slíks ferðalags verður að nýju krafist af þessu fólki, þá er alveg öruggt að litið verður til með þeim af þeim aðila sem hefur séð það svartara en vegatálma Ariels Sharons. Þau kæmust alveg ábyggilega leiðar sinnar á nákvæmlega þeim hraða sem til stæði.

Hvað er viðeigandi og hvað ekki? Með jólakveðjum í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi var lesin kveðja frá náttúruverndarsamtökum, sem luku kveðju sinni á því að skora nú á tilheyrendur að „bjarga miðhálendinu“ á næsta ári. Nú er auðvitað ekki ástæða til þess að amast við því að þeir, sem telja land sitt eða hluta þess í bráðri hættu, heiti á aðra menn því til bjargar, en á nú að bera upp slík erindi í jólakveðjum Ríkisútvarpsins? Hvað á ekki heima þar? Gleðilega hátíð. Lækkum tekjuskatt um þriðjung úr prósenti á næsta ári, Heimdallur. Fylkjum okkur um Ólaf, Andríki. Ekki að þetta sé neitt stórmál, meira að segja minna en þegar einhverjir fuglar klifruðu upp á stjórnarráðið, fjarlægðu íslenska fánan sem þar blakti í hálfa stöng og settu í staðinn borða með heldur leiðinlegri áletrun. Jú og auðvitað ræður Ríkisútvarpið hvaða texta það samþykkir í jólakveðjum sínum, en þetta er einfaldlega óþarfi af þessum samtökum.

Hvað um það, það er líka alger óþarfi að vera að velta svona atriðum fyrir sér á aðfangadag.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum öllum gleðilegra jóla.

Altaristafla Viðvíkurkirkju í Skagafjarðarprófastdæmi sýnir Jesúm upprisinn. Taflan er eftir Magnús Jónsson og var afhent kirkjunni á jóladag árið 1938. Mynd tekin úr 6. bindi Kirkna Íslands, ritraðar Þjóðminjasafnsins, húsafriðunarnefndar, fornleifanefndar og biskupsstofu.