Föstudagur 23. desember 2005

357. tbl. 9. árg.
Of lengi
hafði hann alið manninn
þar sem bókvitið
er í kjaftaskana látið
og vissi því ekki
hve mennt er máttlaus

En hitt vissi hann
að samkvæmt samningum
eru próf og titlar
eins og strikamerki
undir augliti skanna
eða debetkort
sem stungið er
í hraðbanka

Það kom honum því verulega á óvart
að lífið sjálft er daglegt
en aldrei faglegt.

– Þórarinn Eldjárn, „Daglegt líf“.

Meðal þeirra bóka sem út koma nú fyrir jólin er ljóðabók Þórarins Eldjárns, Hættir og mörk. Í bókinni eru ríflega fimmtíu ljóð, ýmist háttbundin eða í frjálsu formi, og flest eru þau líkleg til að hitta í mark hjá dyggum lesendum Þórarins, enda geyma þau það samband af skarpri hugsun, hæfilegum orðaleikjum og tungutaki skálds, sem ótal aðrar bækur höfundarins hafa gert hann þekktan fyrir. Og það ljóð sem tekið var herskildi úr bókinni og birt hér að ofan, er það ekki ágætis lýsing á fagmennsku nútímans, þar sem allt – einkanlega þó hjá hinu opinbera – gengur út á gagnslitla fagmennsku sem ekki athugar annað en það sem mæla má á kvarða? Ef verið er að ráða í opinbert starf, svo dæmi sé tekið, er þá ekki í raun bannað að horfa á persónulega eiginleika fólks? Er ekki bara byrjað að telja? Hver er með hvaða próf? Hefur einhver setið námskeið? Hvað hefur þessi skrifað margar greinar? Nú hefur hún verið í stjórnunarnámi, það er bara þannig! Einmitt. Þessi er hæfastur, nefndin er sammála um það.

En gallinn er að prófgráðurnar, starfsreynslan, greinaskrifin og allar þessar pappírsmedalíur, þær segja ekki endilega svo mikla sögu um raunverulega hæfni fólks. Eða svo notuð séu einföld orð Þórarins, þá er lífið sjálft daglegt en aldrei faglegt. Það er í raun ekki svo mikið vit í því að reyna að reikna út hæfni manna og halda að það verði sýnt fram á það opinberlega að þessi sé hæfari en hinn. Í flestum tilfellum verður sá sem velur í starf að byggja valið á innsæi sínu og, auk eðlilegs mats á áþreifanlegum atriðum svo sem reynslu, menntun og slíku, á mati á persónuleika umsækjenda og þá ekki síst á atriðum sem aldrei verða sett í opinberan rökstuðning. Rétt eins og raunverulegar umsagnir, sem koma að gagni, verða aldrei gefnar skriflega. Þó auðvitað geti sprenglærður maður verið ákaflega hæfur í starf, þá er það ekkert víst. Bókvitið ratar núorðið í kjaftaskana.

Í bók Þórarins eru margar litlar myndir af nútímanum. „Bundið slitlag“ er ein:

Menn ortu nýjan veg
undir bundnu slitlagi
eftir dalbotninum
það er stórhreinleg sjón.

Hlaðvarpar sem áður bjuggu
feimnir að sínu
gapa nú við vegfarendum.

Gamli vegurinn er að hverfa í gras
enn má þó sjá hann
delerandi upp um allar hlíðar.

Eftir því sem leiðir verða greiðari
fjölgar torfærubílum
og sjóflutningar
eru nú allir á landi.

Um þetta má hugsa
þegar þeyst er um sveitir
ýmist í einskisnýtri sprettu
eða tilgangslausum þurrki.

Hér þarf engu við að bæta, hvorki skýringum né útlistunum. Við sumt í bók sinni hefur Þórarinn þó bætt skýringum og skipta þær sumar talsverðu máli. Svo er um „Eðlisfræði“ en þar fylgir til skýringar tilvitnun í kennslubók frá sjötta áratugnum, Eðlisfræði handa unglinga- og gagnfræðaskólum, eftir Jón Á. Bjarnason, þar sem gefin hafði verið þessi sennilega skýring á gangi: „Gangur er í því fólginn að vér lútum fram á við, en forðumst fall með því að flytja fæturna á víxl hvorn fram fyrir annan“. Og Þórarinn segir:

Afstæðiskenningu Einsteins
trúi ég ekki
læt mér hana í réttu rúmi liggja
enda fráleitt
að við hinir vantrúuðu
þurfum að axla sönnunarbyrðina.

Af skammtakenningunni
þoldi ég ekki einu sinni
minnsta skammtinn
tregðulögmálið sá til þess.

Með árunum aðhyllist ég
hins vegar æ meir
gangteoríu Jóns Á. Bjarnasonar
og nýt þess
að mega sanna hana
sem oftast
við mismunandi aðstæður.

Ínóvember tilkynnti meirihluti Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi að hann hygðist lækka bæði útsvar og fasteignagjöld á bæjarbúa. Útsvarslækkunin á Seltjarnarnesi, úr 12,46 í 12,35%, hefur raunar þau merkilegu áhrif að meðaltalstekjuskattshlutafallið á landinu öllu á næsta ári lækkar um 1,01% í stað 1,00%. Ríkið lækkar sitt hlutfall um 1,00% og meðaltalsútsvarið lækkar einnig vegna lækkunarinnar á Seltjarnarnesi. Er þetta í fyrsta sinn um árabil sem útsvar sveitarfélaga hefur jákvæð áhrif á meðtaltekjuskattshlutfallið í landinu, þökk sé Seltjarnarnesi. Útsvarið á litla Seltjarnarnesi verður mun lægra en í stærstu sveitarfélögum landsins, Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, sem leggja á hámarksútsvarið 13,03%. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem vilja sameina sveitarfélög til að ná fram stærðarhagkvæmni að lítið sveitarfélag eins og Seltjarnarnes skuli vera rekið með svo áberandi betri hætti en stóru sveitarfélögin í nágrenni þess.

Vefþjóðviljinn sagði að þessu tilefni að vonandi yrði þessi ákvörðun meirihlutans á Seltjarnarnesi um skattalækkanir öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni. Og nú hafa Reykjavík, Garðabær og fleiri sveitarfélög fylgt þessu góða fordæmi og lækkað fasteignagjöld sín. Þetta sýnir hve mikilvægt það er að sveitarfélögin hafi samanburð og aðhald hvert af öðru.