Fimmtudagur 22. desember 2005

356. tbl. 9. árg.

Fyrir utan hefðbundin asnastrik sem stjórnmálamenn eru auðvitað sífellt að draga: skattahækkanir, aukin útgjöld og annað slíkt, hvað ætli sé þá það vitlausasta sem íslenskum sveitarstjórnarmönnum hefur bæði dottið í hug og framkvæmt? Lengi var Íslandsmetið yfirlýsing sveitarstjórnar Mosfellssveitar um að Mosfellssveit yrði þaðan í frá, hvað sem hver segði, kjarnorkuvopnalaust svæði. Reykjavíkurborg gekk svo á eftir með samskonar yfirlýsingu.

En nú er þetta met víst fallið. Borgarstjórn Reykjavíkur sló nágranna sína út á síðasta fundi sínum með því að samþykkja sérstaka ályktun gegn dauðarefsingum. Nú eru dauðarefsingar sérstaklega bannaðar í íslensku stjórnarskránni og ekki er vitað um nokkurn mann sem hefur lagt til að því verði breytt, þó að slíkir menn hljóti auðvitað að vera einhvers staðar til, því ekki er til sú tillaga sem er svo vitlaus að hún eigi engan stuðningsmann. En þá og raunar fyrr vaknar spurningin, hvers vegna í ósköpunum er sveitarstjórn að lýsa yfir skoðun á slíku máli? Hvernig getur það verið hlutverk sveitarstjórnar að hafa skoðun á dauðarefsingum í fjarlægum löndum? Slíka skoðun geta menn haft sem einstaklingar, en hvernig er hægt að taka svona ályktun fyrir á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur? Hver eru eiginlega hlutverk sveitarstjórnar? Var þetta virkilega eina málið sem R-listinn gat sameinast um? Og af hverju þurfti svokallaður minnihluti að greiða atkvæði með vitleysunni? Þorði hann ekki einu sinni að leggja til að málinu yrði vísað frá?

Og fyrst minnst er á sérfræðingana sem sitja í borgarstjórn Reykjavíkur. Einn þeirra er Dagur B. Eggertsson. Í gærkvöldi ræddu fréttamenn við hann í tilefni af því að kjaradómur var að hækka laun embættismanna. Svar Dags? Jú það var þetta:

Ég held að þetta hljóti að snúast um meginreglurnar. Það sem að þarf hins vegar að gera í þessari stöðu er í raun að Alþingi ætti að afturkalla þessa ákvörðun með dómi. Það hefur verið gert áður og ég held að tilefnið hafi oft verið minna heldur en akkúrat nú.

Einmitt. Alþingi ætti að afturkalla þessa ákvörðun með dómi. Það hefur líka oft verið gert, að sögn Dags.

Jamm. Í lögréttu.