Föstudagur 16. desember 2005

350. tbl. 9. árg.

Ef marka má opinbera umræðu eru æ fleiri að átta sig á því að grundvallarbreyting hefur átt sér stað á Bessastöðum í tíð núverandi forseta. Látleysinu virðist hafa verið fórnað fyrir glys og tildur. Menn fá raunar oft slíka hluti á tilfinninguna án þess að hafa eitthvað áþreifanlegt fyrir sér. Það er því áhugavert að skoða hvernig kostnaður við rekstur embættisins hefur breyst á þeim tíma sem núverandi forseti hefur gegnt embættinu.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti árið 1996 var í fjárlögum gert ráð fyrir að embættið hefði rúmar 53 milljónir króna til ráðstöfunar. Í fjárlögum ársins 2006 er gert ráð fyrir að útgjöld embættisins verði 177 milljónir króna, sem þýðir að útgjöld þess hafa í tíð Ólafs Ragnars aukist um ríflega 230%, sem þýðir með öðrum orðum að þau hafa meira en þrefaldast. Á sama tíma hefur launavísitala hækkað um meira en 80% og vísitala neysluverðs um rúm 40%, þannig að því fer fjarri að skýringanna sé að leita í almennum hækkunum. Það er heldur ekki um það að ræða að þessi samanburðarár séu sérstök og gefi villandi mynd af þróuninni. Nær látlaust hefur sigið á ógæfuhliðina fyrir skattgreiðendur í embættistíð núverandi forseta eins og grafið hér til hliðar gefur til kynna. Staðreyndin er einfaldlega sú að forsetinn hefur eytt sífellt meiru í umgjörð embættisins, meðal annars með því að fjölga starfsfólki sínu og fara í fleiri og dýrari utanlandsferðir en áður tíðkaðist.