Fimmtudagur 15. desember 2005

349. tbl. 9. árg.

M

orgunblaðið var heldur óheppið með dæmi sem það tók í Staksteinum í gær þegar það ræddi hugmyndir heilbrigðisráðherra um að banna með öllu reykingar á veitingahúsum. Í Staksteinum sagði: „Gleymum því í smástund að við séum að tala um reykingar. Ímyndum okkur að komin sé Þorláksmessa og að vestfirzkur skötuunnandi hætti við að elda skötu í bílskúrnum heima hjá sér og ákveði að gera það þess í stað á prímus á miðju veitingatorginu í Kringlunni. Ætli Securitas-menn yrðu ekki fljótir að henda honum út? Samt er skata lögleg vara og ekki til nein lög, sem banna mönnum að elda hana í Kringlunni á Þorláksmessu. Þau eru óþörf. Það dettur það einfaldlega engum í hug, sem á annað borð er með öllum mjalla. En það er til nóg af fólki, sem finnst sjálfsagt að setjast inn á veitingahús og spúa eitruðum og daunillum reyk yfir viðstadda.“

Nú vill svo til að það er bannað að reykja á göngum Kringlunnar, þannig að dæmið er þegar út í hött af þeim sökum. Á Kringlukránni er hins vegar heimilt að reykja á afmörkuðum svæðum og sá reykur er með vitund og vilja veitingamannsins og honum er ekki þröngvað upp á neinn enda enginn neyddur inn á Kringlukrána, hvað þá inn á reyksvæðið. En það sem meira er, á Kringlukránni er einmitt boðið upp á skötu á Þorláksmessu. Skatan er eins og allir vita, meira að segja höfundur Staksteina, daunill í meira lagi. Það breytir því þó ekki að á veitingastað er ekkert að því að bjóða upp á skötuna enda alsiða á veitingastöðum á Þorláksmessu. „Það dettur það einfaldlega engum í hug, sem á annað borð er með öllum mjalla,“ svo vitnað sé í Staksteina, að banna veitingamanninum á Kringlukránni að bjóða upp á daunilla skötu á Þorláksmessu. Og það dettur ekki heldur neinum í hug, „sem á annað borð er með öllum mjalla“, að banna veitingamanninum á Kringlukránni að leyfa reykingar á staðnum sínum. Það vita allir, sem eru með öllum mjalla, að enginn verður neyddur til að fara inn á Kringlukrána til að anda að sér tóbaksreyk eða skötulykt. Þess vegna dettur engum í hug, sem á annað borð er með öllum mjalla, að skerða frelsi reykingamanna og eignarrétt veitingamanna til þess eins að þjóna eigin duttlungum og fanatík.