Miðvikudagur 14. desember 2005

348. tbl. 9. árg.

Hún er í hvimleið sú umræða um störf Alþingis sem grípur um sig í fjölmiðlum með reglulegu millibili og snýst um afköst þingmanna, ráðherra og starfstíma þingsins. Ætla mætti að fréttamenn og aðrir sem taka þátt í þessari undarlegu umræðu telji að magn og gæði löggjafarstarfs fari ævinlega saman þannig að landsmönnum farnist þeim mun betur sem fleiri lög eru samþykkt á Alþingi. Það má svo sem segja fréttamönnum til vorkunnar að það er mun auðveldara að segja fréttir af fjölda þingmála og þingdaga en að fjalla um innihald málanna og reyna að útskýra fyrir áhorfendum kosti þeirra og galla.

Ýmis frumvörp fóru í gegn nú á nýliðnu haustþingi sem hefðu dagað uppi og sama má segja um öll þing síðustu ára og áratuga. Sem dæmi má nefna frumvarp um hækkun sjómannaafsláttarins svokallaða, en því var haldið fram þegar mælt var fyrir frumvarpinu að eðlilegt væri að hækka sjómannaafsláttinn fyrst persónuafslátturinn hefði hækkað. Sjómannaafslátturinn er sérstakur skattaafsláttur eða styrkur fyrir tiltekna stétt manna eða öllu heldur má segja að Alþingi hafi samþykkt að allir aðrir greiði hærri skatta en þessi tiltekna stétt. Ef að einhver er andvígur því að afnema þessi fríðindi einnar stéttar má fara þá  leið að breyta þessum sérstöku skattfríðindum í almenna skattalækkun er nái til allra landsmanna. Varla hefur nokkur á móti því.

Gæði löggjafar hefur ekkert með fjölda settra laga á hverju þingi að gera og almenningur er engu bættari þótt þingmenn og ráðherrar sitji sveittir við að samþykkja lög. Það fer algerlega eftir innihaldi laganna hvort þau hafa jákvæð áhrif eða ekki. Þess vegna hefði til dæmis verið betra að haustþingið hefði verið styttra ef það hefði mátt forða landsmönnum frá þessari breytingu. Fullyrða má að styttri þing og færri samþykkt lög væru farsælli en lengri þing því að almennt talað hlýst frekar illt en gott af þeim lögum sem samþykkt eru.