Þriðjudagur 13. desember 2005

347. tbl. 9. árg.

Sagt er að hamingja fáist ekki keypt, fáist ekki fyrir peninga. Þetta er vafalaust rétt að mestu leyti. Í grein í The Wall Street Journal í síðustu viku er sagt frá því að þrátt fyrir að ríkidæmi hafi almennt aukist síðustu áratugi sagðist jafn stór hluti Bandaríkjamanna vera „mjög hamingjusamur“ árið 2002 og 1972 eða 30,3%. Hins vegar munu þeir sem eru í ríkasta fimmtungi þjóðarinnar vera 50% líklegri til að segjast „mjög hamingjusamir“ en þeir sem tilheyra fátækasta fimmtungnum.

En það er ekki aðeins hægt að öðlast hamingju með því að safna fé því þeir sem gefa fé eða vinnu til góðra mála eru 40% líklegri en hinir til að segjast mjög hamingjusamir. Sálfræðingar hafa jafnvel kannað þetta með samanburðarrannsóknum; annar hópurinn gefur og hinn þiggur. Gefendur bæta líðan sína, bæði andlega og líkamlega, meira en þiggjendur. Sælla er að gefa en þiggja.

Margir hafa þessi gömlu sannindi einmitt í huga um þetta leyti árs. Þau eru óteljandi málefnin sem hægt er að leggja lið. Velferðarríkið má ekki leysa einstaklinginn undan ábyrgð á náunganum. Hið opinbera má ekki taka svo stóran hlut af tekjum manna í nafni velferðarmála að það verði um einskonar ríkiseinokun í velferðarmálum að ræða. Ríkið má ekki sitja eitt að þeirri sælu sem felst í því að gefa.