Mánudagur 12. desember 2005

346. tbl. 9. árg.
Nobody pretends that the United States came through the Cold War with clean hands. But to pretend that its crimes were equivalent to those of its Communist opponents – and that they have been wilfully hushed up – is fatally to blur the distinction between truth and falsehood. That may be permissible on stage. I am afraid it is quite routine in diplomacy. But it is unaccepteble in serious discussions.

So stick to plays, Harold, and stop torturing history.

– Niall Ferguson, í grein í Sunday Telegraph, 11. desember 2005.

Eins og Vefþjóðviljinn og hugsanlega fleiri hafa upplýst, þá var þetta árið ákveðið að láta Nóbelsverðlaunin í bókmenntum til leikritahöfundarins Harolds Pinters. Sá sendi frá sér mikla ræðu í tilefni af verðlaununum og snerist hún ekki síst um Bandaríkin og illsku þeirra, sem er málefni sem Harold Pinter hefur lengi getað gerst langorður um. Og auðvitað hafa róttæklingar víða um Vesturlönd tekið honum fagnandi eins og öðrum sem þannig tala.

Hinn verðlaunaði Pinter telur Bandaríkin varla hafa verið hótinu skárri en til dæmis Sovétríkin. Slíkum ræðuhöldum er auðvitað fagnað víða og kannski álitamál hvort elta eigi ólar við þau. En Niall Fergusson, sem er prófessor í sögu við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, telur greinilega ástæðu til þess, og hefur hugsanlega rétt fyrir sér. Það er með hreinum ólíkindum hversu menn endast til þess að tala um Bandaríkin eins og þau séu gerð út af skrattanum til þess að efna til ófriðar og helst valda heimsendi ef hægt sé. Endalaus upptalning er í boði á því hvernig Bandaríkjamenn eiga að hafa svikið, logið, falsað og hver veit ekki hvað, allt til þess að skara eld að eigin köku en arðræna og kúga alþýðu fátækra landa. Aldrei orð hins vegar um að vera kunni að Bandaríkin hafi og það kannski oftar en einu sinni lagt talsvert á sig við að bjarga lýðræðisríkjum Evrópu undan öxulveldum þess tíma, eða þá að hugsanlegt sé að það hafi verið staðfesta Bandaríkjanna sem forðaði Evrópubúum undan því að verða annarri ógn og rauðari að bráð. Aldrei nefnt heldur auðvitað, að einhver meðul sem Bandaríkin hafa stundum talið sig þurfa að nota, hafi verið löguð í þessum sama tilgangi, að hindra útbreiðslu kommúnismans um heiminn.

Eins og Ferguson nefnir í grein sinni þá er því ekki haldið fram að Bandaríkjamenn séu englar, að þeir hafi ekkert gert sem ekki megi gagnrýna eða fordæma. Sú staðreynd breytir ekki því að sá einhliða áróður sem ýmsir hafa uppi gegn Bandaríkjunum er með ólíkindum og ekki virðingarverður. Þegar menn taka að telja, fyrst sjálfum sér og svo öðrum, trú um að framganga Bandaríkjamanna og Sovétstjórnarinnar hafi verið sambærileg, þá er umræðan komin á undarlegt stig. Að slíkur málflutningur sé notaður til þess að þakka fyrir Nóbelsverðlaun í bókmenntum er svo sérstakur handleggur.

Annars staðar í grein sinni segir Ferguson: „But it’s not Pinter’s solipsism I really object to. It’s the way he uses his award to pour verbal kerosene on the crackling flames of anti-Americanism.“ Eins og menn vita þá er solipsisti sá maður sem trúir því að hann einn sé til. Eða eins og þeim er lýst í bókinni Talking Philosophy eftir A. W. Sparkes: „Solus is Latin for ‘alone’, ‘Ipse’ is Latin for ‘himself’. A solipsist is someone who belives that he alone exists. Solipsists are rather rare creatures and, if solipsism is true, they are very rare indeed.“