![]() |
Er Dennis Rodman hluti af offituvanda Bandaríkjanna? |
Fyrir fáeinum árum eða áratugum var umtalsverð hætta á því að sósíalisminn tæki yfir hér á landi í kjölfar innrásar Sovétríkjanna. Eftir að Sovétríkin hrundu er ekki lengur hætta á að sósíalisminn komi þessa leiðina eða með jafn afgerandi hætti inn í landið. Það breytir því þó ekki að hættan á því að hann hreiðri um sig er enn umtalsverð. Helsta ógnin sem frelsi einstaklingsins er búin nú á tímum er ekki opin og grímulaus barátta fyrir sósíalisma, heldur það sem kalla mætti bakdyrasósíalisma. Ein helsta tegund bakdyrasósíalismans eru öfgar og forsjárhyggja á grundvelli heilsu og heilbrigðis. Íslendingar þekkja mýmörg dæmi um þennan sósíalisma og nægir í því sambandi að nefna nýjasta dæmið, sem eru hugmyndir Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra um að banna með öllu reykingar á stöðum sem opnir eru almenningi. Skiptir þá engu þótt að bæði eigandi staðarins, starfsmenn hans og viðskiptavinir hans reyki og vilji að reykt sé á staðnum, heilbrigðisráðherra vill að þeir verði neyddir til að reykja ekki. Til að rökstyðja þetta ber hann fyrir sig heilsuverndarsjónarmið um óbeinar reykingar, sem þó byggja á afar hæpnum forsendum, en hefur að engu frelsi og réttindi einstaklinga til að ráðstafa sjálfum sér og eignum sínum eins og þeim sýnist best. Fólk á ekki lengur að fá að velja sjálft hvort það vill reyk eða ekki reyk, fái heilbrigðisráðherra vilja sínum framgengt verður ekkert val.
Bakdyrasósíalismi af þessu tagi er til umfjöllunar í grein sem Radley Balko skrifaði fyrir desemberhefti Freeman, tímarits Foundation for Economic Education. Balko segir frá því að í ársbyrjun hafi verið sagðar fréttir af því í Bandaríkjunum að krabbamein hefði farið fram úr hjartasjúkdómum sem helsta dánarorsökin þar í landi. Þetta hljómar illa, en Balko segir að þegar kafað hafi verið á bak við ógnvekjandi fyrirsagnirnar hafi komið í ljós að dánartíðni bæði vegna krabbameins og hjartasjúkdóma hafi farið lækkandi frá því í byrjun síðasta áratugar, en að dauðsföll vegna hjartasjúkdóma hafi minnkað enn hraðar en dauðsföll vegna krabbameins, eða um fjórðung frá 1990.
„Í allar opinberar stofnanir er innbyggður hvati til að viðhalda þessum stofnunum og auka við starfsemi þeirra og þær munu aldrei finna út að þær séu óþarfar. Sem dæmi um þetta má nefna að á vef CDC kemur fram að stofnunin hafi verið sett á fót árið 1946 til að berjast við malaríu. Þótt malaría sé ekki lengur vandamál í Bandaríkjunum lifir CDC góðu lífi og hefur sífellt fundið sér ný viðfangsefni að fást við.“ |
Þá segir Balko frá því að snemma á árinu hafi verið sagðar fréttir af því að fólk lifi nú lengur en áður, en þrátt fyrir það hafi Bandaríkjamönnum sem taldir eru eiga við offitu að stríða fjölgað stöðugt frá miðjum áttunda áratugnum. Árið 1985 hafi 8 ríki Bandaríkjanna sagt frá því að offita hrjái í það minnsta 10% íbúanna, en árið 2001 hafi þetta átt við um öll 50 ríkin. Balko segir að mælingar á offitu séu ekki einfaldar, þannig teljist til að mynda helmingur körfuknattleiksmannanna í NBA-deildinni of þungir miðað við BMI-mælikvarðann, sem almennt er stuðst við, en flestir rannsakendur séu þó sammála um að meðalmaðurinn í Bandaríkjunum hafi þyngst um 10-15 pund, á að giska 5-7 kílógrömm, á síðustu þrjátíu árum. Þessi þyngdaraukning hefur orðið til þess að varað er við því að heilsu manna fari hrakandi og spádómar hafa meðal annars gengið um það á síðustu árum að dauðsföllum vegna krabbameins mundi fjölga mjög, en að sögn Balko er staðreyndin sú að af þeim tíu tegundum krabbameins sem almennt eru tengd við offitu hafa níu tegundir verið á undanhaldi sem dánarorsök frá árinu 1992.
Staðreyndin er þess vegna sú að fólk hefur fitnað um nokkur kíló að meðaltali en um leið lifir það lengur og dauðsföllum vegna hjartasjúkdóma og krabbameins sem tengd eru offitu hefur fækkað mikið. Þetta hefur af einhverjum ástæðum vakið minni athygli en sífelldar aðvaranir ýmissa opinberra aðila og hagsmunaaðila, sem ræða um heilsuvandamálið sem þeir telja sig sjá fram á vegna aukins fituforða almennings.
Eitt af því sem hefur áhrif á umræðuna eru rannsóknir sem eiga að sýna fram á hversu margir láta lífið vegna hinna ýmsu ógnana, svo sem offitu. Balko vitnar í þessu sambandi til rannsóknar á vegum Center for Disease Control, CDC, sem er ein af stofnunum hins opinbera í Bandaríkjunum um heilsufarsmál. Rannsóknin, sem er frá árinu 2003, átti að sýna að 400.000 Bandaríkjamenn létust árlega úr offitu og hefur mikið verið vitnað til þessarar tölu í fjölmiðlum og hún hefur verið notuð sem rökstuðningur við aukin opinber afskipti af almenningi. Ýmis vandamál reyndust hins vegar vera við þessa rannsókn og CDC hefur viðurkennt að hún ýki vandamálið um 20%-25%. Rannsókn hóps á vegum háskólans í Norður-Karólínu bendir hins vegar til þess að dauðsföll sem rekja megi til offitu séu um 25.000. Ef það er rétt fimmtánfaldaði CDC vandamálið og munar um minna. Ein af ástæðunum fyrir þessum mikla mun er sú að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist lítilsháttar offita frekar vera heilsusamleg en heilsuspillandi, en CDC tók ekkert tillit til þess. Því má svo bæta við að CDC hafnar því að rannsókn stofnunarinnar sé markleysa og segist ætla að halda ótrauð áfram með baráttu sína við offituna. Þetta þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart, því að opinber stofnun sem hefur það verkefni að fást við heilbrigðisvandamál mun aldrei líta svo á að heilbrigðisvandinn fari minnkandi eða að draga þurfi úr aðgerðum stjórnvalda til að fást við þennan vanda. Í allar opinberar stofnanir er innbyggður hvati til að viðhalda þessum stofnunum og auka við starfsemi þeirra og þær munu aldrei finna út að þær séu óþarfar. Sem dæmi um þetta má nefna að á vef CDC kemur fram að stofnunin hafi verið sett á fót árið 1946 til að berjast við malaríu. Þótt malaría sé ekki lengur vandamál í Bandaríkjunum lifir CDC góðu lífi og hefur sífellt fundið sér ný viðfangsefni að fást við.
Það er ekki aðeins í Bandaríkjunum sem stofnanir af þessu tagi eru starfræktar fyrir skattfé. Hér á landi er stofnun sem heitir Lýðheilsustöð og þar starfa yfir tuttugu manns við það að fjalla um heilsu – afsakið, lýðheilsu – landans. Lýðheilsustofnun hefur meðal annars verið uppspretta bakdyrasósíalismans og má sem dæmi nefna þegar starfsmaður hennar viðraði hugmyndir um sérstakan sykurskatt til að draga úr sykuráti landsmanna, en sykurátið fellur ekki að hugmyndum stofnunarinnar um rétt manneldi. Það er rétt að geta þess hér í framhjáhlaupi að orðið manneldi hefur ekki frekar en fiskeldi orðið til í nýorðanefnd Vefþjóðviljans, heldur er þetta orð sem Lýðheilsustofnun notar í fullri alvöru og alveg án þess að frá því hafi verið greint að starfsmönnum hafi orðið óglatt við notkun orðsins.
Bakdyrasósíalisminn lætur ekki staðar numið við reglur um reykingar eða hugmyndir um sykurskatt. Hann er undirliggjandi í reglum um bílbelta- og öryggishjálmanotkun og hann er einnig á ferðinni þegar rætt er um margvíslega aðra neyslustýringu. Sumir telja sig einfaldlega vita betur en hinn almenni maður hvað honum er fyrir bestu, þeir nota rannsóknir – oft óvandaðar – til að rökstyðja þessa skoðun sína og þeir eru reiðubúnir til að þvinga fólk til að breyta hegðun sinni svo að ná megi tilteknu markmiði um neyslu.
Ef samþykkt verður að ríkið megi banna mönnum að reykja á opinberum stöðum, þá er eðlilegt að spyrja að því hvað kemur næst, því að enginn þarf að efast um að forsjárhyggjufólkið mun alltaf vilja taka eitt skref í viðbót. Það verður aldrei þannig að það segi einfaldlega: „Jæja, nú er búið að banna reykingar á opinberum stöðum, það er best að láta nú af frekari afskiptum ríkisins af reykingamönnum.“ Nei, talsmenn forsjárhyggjunnar og bakdyrasósíalismans munu alltaf vilja fleiri skref. Næsta skref á eftir reykingabanni á opinberum stöðum gæti verið algert reykingabann. Nú eða að minnsta kosti að bannað væri að reykja í íbúðum þar sem börn byggju eða ættu leið um. Það eru áreiðanlega margir reiðubúnir að styðja slíkar reglur. Svo mætti setja á sykurskatt og fituskatt. Ef einhverjum tekst að sýna fram á að tengsl séu á milli ofáts á próteini má í framhaldinu setja á próteinskatt og þannig má áfram telja. Ekkert af þessu er fráleitt miðað við umræðuna eða þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til.
Þegar rætt er um inngrip í líf fólks á þeirri forsendu að heilsu þess sjálfs stafi hætta af eigin hegðun ættu viðvörunarbjöllur að hringja og löggjafinn ætti að hafna öllum slíkum hugmyndum. Það ætti að vera grundvallaratriði að setja ekki reglur um það hvernig einstaklingar hegða sér ef þeir ógna ekki öðrum, en svo virðist sem engin grundvallarprinsip séu höfð að leiðarljósi í þessum efnum. Ef fram kemur hugmynd um aukin inngrip í líf fólk og hún er studd einhverjum rannsóknum – sama hvort þær eru augljóslega vitlausar eða ekki – þá eru alltaf einhverjir tilbúnir til að styðja þá hugmynd. Og þá kemur fljótlega að því, eins og Radley Balko bendir á í grein sinni, að ekki þarf að spyrja að því hvaða frelsisskerðing kemur næst, heldur miklu frekar, hvað er eftir af frelsi einstaklingsins?