Síðustu daga hafa verið sagðar fréttir af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kanada. Fréttamenn ræða við þátttakendur á ráðstefnunni og reyna að afla fregna af því hvort að líklegt sé að samkomulag náist um framhald á Kyoto-bókuninni og virðast telja að það varði miklu að slíkt samkomulag náist. Þetta er svo sem engin furða því að flestar fréttir sem sagðar eru af málum tengdum loftslagi jarðar ganga út á það að mikil vá sé fyrir dyrum og að ef menn taki sig ekki til og dragi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sé voðinn vís. Það vantar mikið upp á að opinber umræða um þessi mál sé yfirveguð og upplýst og fréttamenn virðast lítinn sem engan áhuga hafa á því að kafa í loftslagsmálin og reyna að skýra almenningi frá helstu staðreyndum og efasemdum í því sambandi. Jafn áhugasamir og fjölmiðlamenn eru oft – og réttilega – um að finna hnökra í því sem kemur frá hinu opinbera, þá virðist þeim alveg fyrirmunað að líta til annarra sjónarmiða en þeirra opinberu sem fram koma í pólitískum útdráttum úr skýrslum Sameinuðu þjóðanna eða annarra fjölþjóðlegra samtaka.
Ýmislegt af því sem slegið er fram í umræðum um loftslagsmál og hugsanlegar loftslagsbreytingar er ekki staðreyndir heldur fullyrðingar byggðar á misjafnlega áreiðanlegum eða óáreiðanlegum mælingum eða kenningum. Þetta á til að mynda við um þá fullyrðingu sem stundum heyrist að maðurinn beri ábyrgð á hlýnun loftslags jarðar. Þessi fullyrðing er tvíþætt, annars vegar að jörðin sé að hlýna, en um það má efast, að minnsta kosti hve mikil hlýnunin er og hversu varanleg og það fer mikið eftir því hvaða mælingaraðferðir notaðar eru hver niðurstaðan verður. Flestir virðast þó sammála um að hlýna sé á jörðinni, en margir hafa miklar efasemdir um að hlýnunin á síðustu áratugum sé einstök eða óvenjuleg og benda til að mynda á að svipuð hlýnun hafi átt sér stað á þriðja og fjórða áratug liðinnar aldar. Hinn hluti fullyrðingarinnar gengur út á að maðurinn beri ábyrgð á hlýnuninni, en miklu meiri vafi leikur á því að sú fullyrðing standist.
Víða má finna gagnlega umfjöllun um loftslagsmál þar sem frekar er lögð áhersla á vísindalega þekkingu en upphrópanir stjórnmálamanna og uppslátt fjölmiðla. Marshall-stofnunin gaf til að mynda fyrir ári út rit með nokkrum algengum spurningum og svörum um loftslagsmál og er það gagnlegt bæði til að lesa og fletta upp í. Sem dæmi má nefna spurningu um það hvað við vitum um áhrif mannsins á loftslagið og um það hversu mikil áhrif hans hafi verið á hækkun hitastigs síðustu þrjá áratugi. Besta svarið er sagt vera, „við vitum það ekki“. Þetta er útskýrt með því að þó að vitað sé að bein áhrif gróðurhúsalofttegunda sé að hita jörðina, þá séu óbein áhrif þeirra auk áhrifa af ýmsum öðrum athöfnum mannsins lítið þekkt.
Á vef Marshall-stofnunarinnar er að finna ýmsar frekari upplýsingar um loftslagsmál sem fróðleiksfúsir fjölmiðlamenn og aðrir ættu að hafa áhuga á. Sambærilegar upplýsingar er að finna víða annars staðar á veraldarvefnum, svo sem hjá öðrum sjálfstæðum stofnunum, vísindatímaritum og opinberum stofnunum, til dæmis veðurstofum. Það er hins vegar miklu auðveldara að vinna “fréttirnar upp úr pólitískum útdráttum úr opinberum vísindaskýrslum – sem er það sem fjölmiðlar eru mataðir á – , upp úr fréttatilkynningum umhverfisverndarsamtaka eða upp úr ummælum þeirra stjórnmálamanna sem eru tilbúnir til að segja hvað sem er ef það lítur vel út í fyrirsögnum dagblaða.