Þannig að þetta þarf nú að horfast í samhengi og það er annað atriði í þessu og það er bara hvernig ríkið verðleggur eða ákveður vörugjöld og tolla á bílum, það hefur frekar hvatt til þess að undanförnu að fólk kaupi sér stóra og orkufreka bíla og það er auðvitað mjög miður. |
– Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi R-listans í viðtali um svifrykið við Ríkisútvarpið 7. desember 2005. |
Þ
![]() |
Rykið í Reykjavík er ekki úr átta götum einkabílsins heldur helstu götum borgarinnar. |
að kom flatt upp á marga þegar það kom í ljós að aðeins 7% af því svifryki sem greinist í loftinu sem íbúar Reykjavíkur anda að sér á upptök sín í útblæstri bíla. Hér um um að ræða ryk sem er undir 10mm í þvermál og gjarnan táknað PM10. Svifrykið mundi með öðrum orðum minnka sáralítið þótt bílvélar gæfu ekkert sót frá sér. Fram að þessu hafði því verið haldið að fólki að útblástur bifreiða ætti stóran hlut í svifryksmenguninni. En nú liggur fyrir að það eru ekki bílarnir sem eru mengandi að þessu leyti heldur á mengunin upptök sín í götunum sjálfum. Það hefur því lítið að segja hvort menn aka um á orkufrekum eða sparneytnum bílum að þessu leyti. Það er líka þannig að flestir bílar, fólksbílar og jeppar, bera hærri vörugjöld ef að vélar þeirra fara yfir ákveðna stærð. Þá hækkar vörugjaldið úr 30% í 40% og svo leggst 24,5% virðisaukaskattur ofan á það. Það eru aðeins pallbílar sem bera lægri vörugjöld, væntanlega til að bændur og búalið geti keypt slíka bíla í atvinnuskyni.
Ríflega helmingur svifryksins er uppspænt malbik. Þessi óhreinindi sitja á götunum í votviðri en þegar styttir upp þyrlast rykið upp aftur og aftur. Vefþjóðviljinn hefur árum saman bent á að eigandi gatna í Reykjavík, sjálf Reykjavíkurborg, hljóti að þurfa skoða þann möguleika að halda götunum hreinum. Ef að borgarfulltrúar trúa því að svifrykið sé raunverulegt mengunarvandamál hljóta þeir að þurfa að horfast í augu við að borgin rekur gatnakerfið og þar með þessa mengandi starfsemi. Borgin hefur lagt þessar götur í þeim tilgangi að bílar fari um þær og það þýðir ekkert að bíða og vonast til þess að menn hætti að nota bíla og þar með göturnar. Bílum í Reykjavík hefur fjölgað úr 450 í tæplega 700 á hverja 1.000 íbúa í valdatíð R-listans svo að óskir r-listamanna um bíllausa borg hafa ekki ræst. Á sama tíma hefur strætisvagnafarþegum fækkað mjög mikið eða um 3% að jafnaði undanfarin ár og forstjóri Strætó sagði í viðtali við Morgunblaðið 1. desember síðastliðinn að útlit væri fyrir að farþegar á þessu ári væru 6 til 8% færri en á því síðasta. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að strætó sé niðurgreiddur af skattfé en einkabílar eru aftur á móti ein helsta tekjulind hins opinbera. Ef að hið opinbera hvetur til einhvers með skattlagningu og niðurgreiðslum þá er það að menn kaupi sér ekki einkabíl, hvorki lítinn né stóran, heldur taki stærsta og orkufrekasta kostinn á götum borgarinnar; strætisvagninn.
Á það hefur vissulega verið bent að útilokað sé að þvo göturnar þegar þurrt er að vetri til því þá sé jafnan frost í borginni. Þurrir vetrardagar eru þeir dagar sem svifrykið mælist mest. Hins vegar gætu þrif dagana fyrir slíka þurrviðrisdaga skilað árangri. Ef að helstu umferðargötur væru hreinar þegar froststillan tekur við má gera ráð fyrir að mun minna ryk væri að þyrlast upp næstu daga.