Fimmtudagur 8. desember 2005

342. tbl. 9. árg.

Í peningum býr aflið til alls,
býr aflið til alls,
býr aflið til alls.
Í peningum býr aflið til alls.
Í fé býr afl til alls.

Máttur krónu, marks eða dals,
eins marks eða dals,
eins marks eða dals.
Máttur krónu, marks eða dals,
sem klingja í pyngju karls,
er mátturinn til alls.

– Úr söngleiknum Kabarett, þýðing Veturliða Guðnasonar á söngnum „Money makes the world go around“.

Fréttamenn hafa gaman af velta fyrir sér hagsmunatengslum ráðamanna og möguleikanum á vanhæfi þeirra eða að þeir séu að skara eld að eigin köku. Að minnsta kosti eru stundum sagðar fréttir af tilvikum sem brúnaþungum fréttamanni þykja grunsamleg svo ekki sé meira sagt. En svo eru þeir að því er virðist alveg áhugalausir um önnur tilvik, sem ekki síður hefði mátt segja fréttir af, bara ef einhver hefði haft áhuga. Fjárlög ríkisins voru afgreidd í vikunni eftir hefðbundið þras. Meðal þess sem olli nokkrum deilum var tilraun Kolbrúnar Halldórsdóttur, alþingismanns vinstrigrænna, til að tryggja fjárveitingar til svokallaðra frjálsra leikhópa. Einn slíkur hópur er væntanlega leikhópur sem nefnir sig „Á senunni“, en á hans vegum hafa ýmis skemmtileg verk verið sett upp undir stjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur, hinnar ágætu leikhúsmanneskju. Síðastliðið sumar leikstýrði Kolbrún til dæmis söngleiknum Kabarett hjá þessum frjálsa leikhópi og skilaði vinsælli sýningu.

Leikhópurinn „Á senunni“ er mætur hópur, sem hefur skilað góðu verki, og kemur sterklega til greina þegar næst verður úthlutað styrkjum til frjálsra leikhópa. Og með Kolbrúnu Halldórsdóttur við stjórnvölinn má eflaust vænta enn einnar kraftmikillar sýningar hópsins.

Eru hér hagsmunaárekstrar? Enginn spyr að því. Enginn fréttamaður spyr Kolbrúnu hvort eðlilegt sé að hún, öflugur þátttakandi í starfi frjálsra leikhópa, sé sem þingmaður að æsa sig yfir framlögum til þeirra. Sem kannski er allt í lagi. Þingmenn eiga nefnilega að geta fjallað um mál þó hægt sé að benda á einhverja slíka hagsmuni sem þeir kunna að hafa af niðurstöðum. En það sem kannski er áhugaverðara er spurningin um það hvenær fréttamenn hafa áhuga á hagsmunatengslum og hvenær ekki.

FFyrst minnst er á leikhús þá væri kannski næst að minnast þess að tilkynnt hefur verið að bókmenntaverðlaun Nóbels falli leikskáldi í skaut í ár. En Vefþjóðviljinn ætlar ekki að fara að fjargviðrast út í Harold Pinter núna. Og gerir ekki mikið með þessi verðlaun. Það má bara láta nægja að rifja upp gamla limru um karlinn:

In Pinter’s new play that’s now running,
our Harold’s lost none of his cunning.
    Throughout the three acts,
    we hear just four facts.
But the pauses between are quite stunning.