Fimmtudagur 1. desember 2005

335. tbl. 9. árg.
Hver veldur þenslu umræddu? Kr. 100.000.000.000 hafa bæst við gjöld ríkissjóðs frá 1998.

Eru þær raddir loks þagnaðar sem vildu koma í veg fyrir lækkun tekjuskatts einstaklinga um næstu áramót á þeirri forsendu að skattalækkun „yki á þensluna“? Er hugsanlegt að mönnum sé loks að skiljast að ríkið tekur ekki peninga úr umferð þótt það innheimti þá með sköttum? Þarf nokkuð að minnast á milljarðaverkefni eins og tónlistarhúsið, hátæknisjúkrahúsið, Héðinsfjarðargöngin og tekjutengdar atvinnuleysisbætur og tekjutengt fæðingarorlof til að menn átti sig á því?

Í umræðum um fjáraukalög á Alþingi í fyrradag sagði Einar Oddur Kristjánsson varaformaður fjárlaganefndar að stjórnsýslan hefði alltof mikla peninga milli handanna.„Það þarf sterk bein til að þola góða daga, segir máltækið. Það er mikið góðæri á Íslandi í dag. Þess vegna á það alltaf að vera til skoðunar hvort verið sé að nota of mikla peninga til stjórnsýslunnar, og ég svara því afdráttarlaust játandi. Þess vegna er það hið versta mál að halda að leiðin sé að hækka skatta. Leiðin er að lækka skatta. Á þeirri vegferð erum við og á þeirri vegferð ætlum við að halda áfram,“ hafði mbl.is eftir Einari.

Það er hárrétt hjá varaformanni fjárlaganefndar að það slær ekki á útgjaldagleði þingmanna að hækka skatta og auka þannig tekjur ríkisins tímabundið. Eina leiðin til að minnka magamálið er að minnka skammtana sem ríkið fær. Skattalækkanir eru besta leiðin til þess arna.

En það er ekki aðeins ríkissjóður sem þarfnast þess aðhalds sem skattalækkanir eru. Sveitarfélögin hafa notið aukinna skatttekna á undanförnum árum en engu að síður eru mörg þeirra rekin með halla ár eftir ár. Á næsta ári blasir einnig við að sveitarfélögin munu fá stórauknar tekjur af fasteignum eftir þær hækkanir sem orðið hafa á húsnæði á árinu sem er að líða. Seltjarnarnes, minnsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu,  hefur brugðist við þessu af ábyrgð með því að boða bæði lækkun á sjálfum fasteignagjöldunum og einnig útsvarinu. Það er út af fyrir sig merkilegt í allri umræðunni um mikilvægi þess að sameina og stækka sveitarfélög að minnsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu bjóði bæði upp á lægsta útsvarið og lægstu fasteignagjöldin.

Þessi ákvörðun bæjarstjórnarinnar á Seltjarnarnesi verður öðrum sveitarfélögum vonandi til eftirbreytni.