Og þessi maður hér [bendir á Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra] og forveri hans og félagar þeir eru hér sérstaklega kjörnir til þess að gæta hagsmuna almennings á Íslandi gegn svikurum, gegn svindlurum og gegn pakki sem að fer þannig með peninga fólksins að það ætti að vera löngu búið að koma þeim öllum saman fyrir á ónefndum stað. |
– Mörður Árnason í ræðu á Alþingi., 25. nóvember 2005. |
Pakk. Svindlarar og pakk. Sem ætti að vera búið að koma öllu saman fyrir á ónefndum stað og það fyrir löngu. Þannig talaði Mörður Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar, á dögunum um fólk sem hann taldi hafa brotið samkeppnislög. Og vel að merkja, enginn samflokksmanna hans sá ástæðu til þess að gera athugasemdir við málflutning hans.
Mál þessara einstaklinga eru þó einmitt þar stödd að lögregla hefur lokið rannsókn þeirra og saksóknari er með það til skoðunar hvort gefa beri út í því opinbera ákæru. Og þá kveður Mörður Árnason alþingismaður sér hljóðs á Alþingi, kallar þetta fólk svindlara og pakk sem fyrir löngu hefði átt að vera komið allt á ákveðinn stað, og hlýtur að verða að ætla að jafnvel hann eigi þó ekki við verri stað en fangelsi. Og Samfylkingin situr ánægð í þingsalnum og sér ekkert athugavert.
En af hverju hefði mátt ætla að Samfylkingin sæi eitthvað athugavert? Ja ef hún hefði meint eitthvað almennt en ekki bara sértækt nokkrum dögum fyrr, þegar hún gekk af göflunum yfir dagbókarfærslu Björns Bjarnasonar viðvíkjandi svokölluðu Baugsmáli, þá hefði mátt ætla að brugðist af hörku við orðum Marðar.
Hvað var það nú aftur sem Björn sagði? Jú, eftir að Hæstiréttur hafði vísað 32 ákæruliðum á hendur Baugsmönnum frá dómi en sent 8 ákæruliði til efnismeðferðar, og meðal annars með orðunum „Lýkur því málinu ekki með dómi þessum gagnvart neinum þeirra“, þá skrifaði Björn í dagbók sína, sem hann heldur á vefnum, „Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu“. Og þá gekk Samfylkingin af göflunum. Þetta voru sko „afskipti af málinu“, gott ef ekki „fyrirmæli til ákæruvaldsins“ og krafist var sérstakrar utandagskrárumræðu á Alþingi. Vegna þeirrar athugasemdar að málinu væri ekki lokið. „Hvað þýða svona ummæli? Er dómsmálaráðherra að gefa ákæruvaldinu fyrirmæli um að áfram skuli haldið með málið? Er það skilningur ráðherrans að dómstólar hafi það hlutverk að gæta leiðbeiningarskyldu gagnvart ákæruvaldinu? Má túlka þetta sem hótun um að réttarkerfið komist að „réttri niðurstöðu“ eða er ráðherra að segja að afskiptum sjálfstæðismanna af málinu sé ekki lokið?“ sagði Lúðvík Bergvinsson og var mikið niðri fyrir. Og varaformaður hans, Ágúst Ólafur Ágústsson, þurfti enga fyrirvara heldur sagði að Björn leyfði ekki „ákæruvaldinu að taka sjálfstæða ákvörðun um framhaldið“ heldur gæfi „út skilaboð um hvað ákæruvaldinu ber að gera sama dag og dómurinn fellur. Það þarf engan snilling til að sjá hvað felst í þessum orðum hæstvirts dómsmálaráðherra: „Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu.“ Hér er verið að koma mjög skýrum skilaboðum til ákæruvaldsins um að því beri að halda þessu máli áfram og annað er bara hártogun.“
Þessir sömu menn sjá enga ástæðu til þess að gera athugasemdir við að í ræðu á Alþingi sé fólk úti í bæ kallað svindlarar og pakk sem ætti að vera fyrir löngu búið að koma fyrir „á ónefndum stað“. Og hlýtur það að segja töluvert mikið um sannfæringuna sem í raun hefur búið að baki málflutningi þeirra vegna dagbókarfærslu Björns. En hvað getur hafa rekið þingmennina til þess að efna til moldviðris vegna þeirra orða? Ekki verður því trúað að það hafi þeir gert til þess að þrýsta á ákæruvaldið að fara sér sem hægast í hugsanlegum nýjum ákærum. Frekar hljóta þeir að hafa ætlað að ná einhverjum pólitískum ávinningi. En einhver hlýtur skýringin að vera. Það eina sem liggur fyrir, er að þeir sjá ekki ástæðu til að gera nokkra athugasemd við það að menn, sem á sama tíma eru til lokaákvörðunar hjá ákæruvaldinu, séu á Alþingi kallaðir svindlarar, svikarar og pakk sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að safna saman í fangelsi. Og þeir ærast við það að Björn Bjarnason segi að niðurstaða Hæstaréttar, sem vísaði 8 ákæruliðum til efnismeðferðar, þýði að réttarkerfið hafi ekki sagt sitt síðasta orð.
Hvor orðin, færsla Björns í dagbók sinni, eða ræða Marðar á Alþingi, eru nú nær því að geta kallast „skilaboð til ákæruvaldsins“? Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað, er kannski ástæða til þess að velta fyrir sér þögn Samfylkingarinnar í annað skiptið, og ofsareiði hennar og næstum taugaveiklun í hitt.