Miðvikudagur 30. nóvember 2005

334. tbl. 9. árg.

Öryrkjabandalagið hefur nú brugðið á það óvænta ráð að stefna heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir dóm. Ef marka má fréttir þá gerir bandalagið þá dómkröfu að ráðherrann verði dæmdur til þess að leggja á Alþingi fram frumvarp tiltekins efnis og jafnframt dæmdur til þess að mæla með samþykkt þess. Óhætt er að segja að slíkar dómkröfur eru nokkurt nýmæli og þá ekki síður sú staða sem kæmi upp ef bandalagið hefði sigur í málinu. Ef ráðherrann myndi til dæmis halda áfram að neita að leggja frumvarpið fram, þá væri auðvitað mjög skemmtilegt að sjá hvað menn gerðu næst. Hvort sýslumaður myndi mæta niður í þinghús með frumvarp, leggja það fram og mæla með því sem Jón Kristjánsson. Og af því að stjórnarfrumvörp eru lögð fram í nafni forseta Íslands, þó allar ákvarðanir um það eins og annað séu auðvitað teknar af ráðherra, þá mætti búast við því að sýslumaður myndi hefja leikinn á Bessastöðum og myndi svo halda innsetningargerðum sínum áfram í þinginu. Það eina sem vantar í kröfugerð Öryrkjabandalagsins var eiginlega eitthvað um það hversu vel Jóni ætti að mælast þegar hann myndi mæla með samþykkt frumvarpsins og óskiljanlegt að fréttamaður Ríkissjónvarpsins hafi ekki spurt Sigríði Rut Júlíusdóttur lögmann þess að því í gær. Í staðinn lét fréttamaður nægja að spyrja um atriði eins og hvaða hópur öryrkja færi nú verst út út ætluðum vanefndum Jóns.

Nú finnst væntanlega mörgum að dómkrafa um að skylt verði að leggja fram frumvarp sé algerlega fráleit og spyrja kannski hvort næst verði þá gerð krafa um það að þingmenn verði dæmdir til að greiða atkvæði með þessum eða hinum hætti eða þá bannað að leggja fram tiltekin frumvörp, og svo framvegis. Og vissulega getur Vefþjóðviljinn fyrir sitt leyti sagt að sú hugmynd að ráðherra eða annar þingmaður verði dæmdur til að leggja fram frumvörp, er hrein vitleysa. En það er ekki þar með sagt að hún geti ekki fengist samþykkt í Héraðsdómi Reykjavíkur. Og hefur ekki vinsæll fræðimaður eins og Sigurður Líndal haldið því fram að dómstólar geti að einhverju marki sett lög? Ef að dómstóll getur sett lög, þá getur varla verið mikið við því að segja þó hann leggi fram frumvarp.

En svo aðeins sé hugsað út í málaferli Öryrkjabandalagsins þá snúast þau um deilu bandalagsins og heilbrigðisráðherra um það hvort hann hafi efnt tiltekið samkomulag þeirra, en óumdeilt er að ríkið jók útgjöld sín um milljarð króna í því skyni. Auðvitað eiga menn almennt að standa við þá samninga sem þeir gera, þó hinu megi ekki gleyma að samningar sem gerðir eru fyrir hönd hins opinbera eru auðvitað háðir fjárveitingum og samþykki þar til bærra aðila, og það vita allir og þar með einnig þeir sem semja við hið opinbera. En ekkert hefur Vefþjóðviljinn séð sem sýnir fram á að heilbrigðisráðherra hafi brotið samkomulagið, en sú deila verður auðvitað að hafa sinn gang og skiljanlegt að Öryrkjabandalagið sé óánægt ef það hefur mikið til síns máls. Hitt er samt annað mál, að á undanförnum árum hafa kjör öryrkja batnað mjög verulega og varla þarf að taka fram að það hefur orðið alger breyting frá þeirri kjararýrnun sem þeir máttu sæta á þeim árum þegar síðast sat hér vinstristjórn – eða „velferðarstjórn“ eins og kjararýrnunarstjórnirnar eru auglýstar. En á þeim sömu árum og hagur öryrkja hefur batnað hvað mest, þá hefur sýnileg óánægja þeirra einnig aukist hvað mest. Auðvitað má skilja það vel að margir öryrkjar séu ekki ánægðir með sinn hag. Það breytir ekki því, að það er merkilega sjaldan haft orð á því hversu mjög kjör þeirra hafa í raun batnað á síðustu árum.

En öryrkjar eru ekki þeir einu sem hafa fengið miklar réttarbætur á síðustu árum. Sem dæmi mætti nefna fólk sem kýs að búa fremur með einstaklingi af sama kyni en hinu gagnstæða, en á síðustu árum hafa stór skref verði stigin til þess að samræma reglur um slíka tilhögun við þá hefðbundnari. En hversu langt sem þar er gengið þá virðast nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn alltaf þurfa að yfirtrompa, og virðist stundum sem þeir geti ekki sætt sig við þá staðreynd að allar réttarbætur þessa hóps hafa gengið í gegn þegar þeir sjálfir eru í stjórnarandstöðu og geta einskis hróss krafist. En þá þarf auðvitað að yfirtrompa allar tillögur í þeirri von að aðrir fái ekki hrós heldur. Þó ekki sé með þessu sagt að yfirtrompin þurfi að vera óeðlilegar tillögur í sjálfum sér, þá er eitthvað við þetta háttaleg sem svipar til þess ef að frjálshyggjumaður á þingi hefði ekki getað stutt og verið ánægður með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að selja Símann – það yrði að selja Póstinn um leið.