Þriðjudagur 29. nóvember 2005

333. tbl. 9. árg.

Ávefnum ríkiskassinn.is er að finna ýmsar fróðlegar upplýsingar um rekstur ríkisins en það er fjármálaráðuneytið sem stendur að vefnum. Undir þættinum hlutverk hins opinbera í hagkerfinu er meðal annars að finna þessa merkilegu mynd af þróun ríkisútgjalda undanfarinn rúman áratug. Myndin sýnir ríkisútgjöldin sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Eins og sjá má dróst hlutur ríkisins í efnahagslífinu saman til ársins 1996 en fór svo aftur að aukast eftir það og tók verulegan kipp upp á við frá 1998.

Í stuttu máli virðist hlutur ríkisins í efnahagslífinu á árunum 2001 til  2004 vera um 10% meiri en á árunum 1995 til 1998. Þetta kemur spánskt fyrir sjónir því árin fyrir fyrra tímabilið var hagvöxtur lítill og atvinnuástand fremur bágborið og því hefði mátt jafnvel gera ráð fyrir að ríkið yki umsvif sín í hagkerfinu. Frá 1996 til 2001 var hagvöxtur hins vegar jafn og góður og því hefði hlutur ríkisins í efnahagslífinu að minnka. Um hlutverk ríkisins við hagstjórn segir einmitt á ríkiskassinn.is:

Hagstjórnarhlutverk ríkisins gerir kröfu um að það haldi aftur af útgjöldum sínum þegar mikill uppgangur er í efnahagslífinu til þess að draga úr spennu en auki útgjöldin þegar hagvöxtur og atvinna minnkar.

Nú trúir Vefþjóðviljinn ekki nema rétt mátulega á kenninguna um sveiflujöfnun ríkisins því aukin ríkisútgjöld í efnahagslægð geta dýpkað hana, viðhaldið kreppuástandi og seinkað því að efnahagslífið taki raunverulega við sér. Ef marka má grafið góða hefur heldur ekki verið farið að þessum ráðum í rekstri ríkissjóðs Íslands. Þvert á móti hefur ríkið aukið útgjöld sín þegar vel árar en alls ekki haldið aftur af þeim eins og heilræðið segir. Gjöldin hafa raunar verið aukin svo mikið að hinn mikli hagvöxtur síðari hluta tíunda áratugarins dugði ekki til að halda hlut ríkisins í efnahagslífinu niðri. Á einu mesta góðærisskeiði Íslandssögunnar

Nú er það auðvitað einkenni á skattkerfinu á þegar hagvöxtur er mikill, atvinnuástand gott og einkaneysla eykst þá aukast tekjur ríkissjóðs. Svo virðist sem þingmenn telji það skyldu sína að finna ný útgjöld fyrir hverja viðbótarkrónu sem kemur í kassann. Eina ráðið gegn þróun af þessu tagi er skattalækkun. Þótt ýmis skatthlutföll hafi verið lækkuð undanfarinn áratug sýna þessi auknu ríkisumsvif að skattar hafa alls ekki verið lækkaðir nægilega mikið og rösklega.