Mánudagur 28. nóvember 2005

332. tbl. 9. árg.

Nú þarf ekki lengur að lesa dagblöð stjórnvalda á Kúbu eða Norður Kóreu til að finna umfjöllun um elskaða og dáða leiðtoga því lesa má um slíkan mann í Fréttablaðinu. Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, er að mati Fréttablaðsins óaðfinnanlegt stórmenni og fékk hann sem slíkur hástemmdan lofsöng um sig í dálkinum Maður vikunnar síðast liðinn laugardag undir yfirskriftinni „Lætur verkin tala“. Það lætur svona og svona í eyrum þegar tekið er mið af því að Dagur stýrir skipulagsnefnd borgarinnar nú þegar færri fá lóðir en vilja.

Fréttablaðið telur að nú sé skriður kominn á skipulagsmál Vatnsmýrarinnar, en sá skriður hefur að vísu hvergi sést. Þá hefur Fréttablaðið upplýsingar um að Dagur hafi meðfram öðrum störfum komið því við að skrifa „grundvallarrit í stjórnmálasögu 20. aldarinnar þegar hann skrifaði ævisögu Steingríms Hermannssonar.“ Nú má auðvitað kalla hvað sem er grundvallarrit, og ekki nennir Vefþjóðviljinn að rífast um það við Fréttablaðið hvort meiri eða minni vísindaafrek felast í því að vera hraðritarar Steingríms Hermannssonar og þá hvort slík verk eigi fremur að heyra undir fræðirit eða skáldverk.

Fréttablaðið segir að Dagur hafi verið valinn sem „óháður fulltrúi“ á R-listann fyrir síðustu kosningar og gleymir því til að spilla ekki ímyndinni að það voru ekki „óháðir“ heldur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem handvaldi hann sjálf á listann. Og hann var ekki óháðari þeim sem valdi hann en svo, að fyrir formannskosningarnar innan Samfylkingarinnar í vor ritaði Dagur grein til stuðnings Ingibjörgu. Þá er ekki nóg með að Fréttablaðið telji Dag vera stjórnmálamann sem sé „drifinn áfram af verkefnum“ en leyfi öðrum að fá heiðurinn af þeim, heldur taki hann líka að sér óvinsæl mál enda „reki hann ekki neina vinsældapólitík“. Til marks um þetta er haft að hann hafi „tekið að sér einhvern umdeildasta málefnaflokkinn, skipulagsmál“. Nú vill að vísu svo til að það að stjórna skipulagsmálum er líklega það sem borgarfulltrúar sækjast einna helst eftir. Málaflokknum fylgja mikil áhrif og sá sem stýrir honum er sífellt í umræðunni, en þegar Fréttablaðið vill setja Dag á stall þá eru skipulagsmál skyndilega orðin að málaflokki sem enginn borgarfulltrúi vill sjá en Dagur tekur að sér af tillitssemi við aðra og alþekktri pólitískri ósérhlífni.

En það er svo sem ekkert nýtt að Dagur Eggertsson sé sérstakt eftirlæti Fréttablaðsins. Blaðið hefur lengi hampað honum mjög og þarf ekki annað en minna á „fréttir“ blaðsins fyrir rúmu ári þess efnis að Dagur yrði borgarstjóri í Reykjavík á eftir Þórólfi Árnasyni. Og ekki nóg með það því Vísir.is, netmiðill Fréttablaðsins, sagði einfaldlega í fréttafyrirsögn „Dagur verður borgarstjóri“. Eins og menn vita reyndust „fréttirnar“ rangar, enda virtust þær aðallega hafa þann tilgang að reyna að hafa áhrif á atburðarásina en ekki að segja frá því sem væri að fara að gerast. Og nú segir Fréttablað Dags lesendum sínum enn einu sinni frá því að Dagur sé æðislegur og lýkur frásögninni á því að Dagur sé hvattur til að bjóða sig fram í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor. Þá er bara að sjá hvort að pólitísk fórnfýsi Dags er slík að hann muni fallast á að taka að sér það umdeilda verkefni að leiða Samfylkinguna fyrir borgarstjórnarkosningarnar, jafn óháður öllum, Ingibjörgu Sólrúnu, Fréttablaðinu og Steingrími Hermannssyni.