Föstudagur 25. nóvember 2005

329. tbl. 9. árg.

V

Tappað af Ölkeldunni í Staðarsveit.

atn og vatnsréttindi eru rædd á Alþingi um þessar mundir enda liggur frumvarp til nýrra vatnalaga fyrir þinginu eins og Vefþjóðviljinn rakti í síðasta helgarsproki. Með lögunum er verið að festa í sessi að landeigendur haldi þeim eignarrétti á vatni og vatnsréttindum, sem tryggð hafa verið í dómaframkvæmd á undanförnum áratugum.

Nokkur hagmunasamtök með BSRB í fararbroddi hafa andmælt frumvarpinu, flutt hingað til lands erlenda andstæðinga einkaeignarréttar á vatni og auglýst í fjölmiðlum á kostnað félagsmanna sinna sem nauðugir greiða þeim félagsgjöld. Það helsta sem samtökin hafa fram að færa gegn því að skýr einkaeignarréttur sé á vatni er að vatn megi ekki vera „verslunarvara“ því það sé lífsnauðsynlegt. Það sé því ekki hægt að treysta einkafyrirtækjum til að afla vatns, dreifa því og selja almenningi. Þess er þá væntanlega skammt að bíða að BSRB hefji herferð sem miðar að því að banna einkafyrirtækjum að afla matar, dreifa honum og selja en matur mun enn sem komið er vera lífsnauðsynlegur. Ef herferðin gengur vel verða bæjarútgerðir væntanlega endurreistar vítt og breitt um landið því ekki gengur að einhver einkafyrirtæki séu að veiða fiskinn í sjónum og selja hann eins og hverja aðra verslunarvöru. Sömuleiðis hlýtur öll lyfjagerð að verða tekin úr höndum einkafyrirtækja, sem flest líta á lífsnauðsynleg lyf sem verslunarvöru sem þau ætla sér að græða á, og verða falin lyfjagerð ríkisins sem framleiða mun lyf fyrir ríkisapótekarann.

En það er víðar en á Íslandi sem barist er gegn því að skýr einkaeignarréttur og frjáls viðskipti séu nýtt til að sem flestir fái að njóta vatns. Víða þarf raunar ekki að berjast gegn þessu fyrirkomulagi því það er alls ekki til staðar. Í grein sem Fredrik Segerfeldt, höfundur bókarinnar Water for Sale, skrifaði í Financial Times 25. ágúst síðastliðinn kemur fram að 1,1 milljarður manna, einkum í fátækum löndum heims, hafi ekki tryggan aðgang að hreinu neysluvatni. Þessi skortur valdi og viðhaldi fátækt, sjúkdómum og dauða. Þetta sé þeim mun grátlegra þegar haft er í huga að það er til nægt vatn í heiminum, mannkynið nýti aðeins um 8% af því vatni sem tiltækt er til neyslu. En hvers vegna gengur svo brösuglega að veita vatni til allra?

Um 97% af allri vatnsdreifingu í fátækum löndum er stýrt af hinu opinbera, segir Segerfeldt, og það er meginástæðan fyrir því að yfir þúsund milljónir manna búa við vatnsskort. Segerfeldt segir að sums staðar hafi hið opinbera leitað til einkafyrirtækja um að bæta ástandið og yfirleitt hafi það gengið vel. Í þeim fátæku löndum þar sem einkaaðilar hafa fjárfest í vatnsveitum er ástandið betra en í þeim löndum þar sem slík fjárfesting er ekki til staðar.

Helstu rök þeirra sem berjast gegn því að markaðsöflin séu nýtt til vatnsöflunar eru að verð á vatni hækki við einkavæðingu. Um þetta segir Segerfeldt:

Í sumum tilvikum er það rétt að verð hefur hækkað eftir einkavæðingu en í öðrum ekki. En aðaláhyggjuefni okkar á ekki að vera hvað þeir sem þegar hafa vatnsveitu greiða fyrir hana heldur hvernig við getum tengt hina fátækustu í fátækustu löndunum við vatn. Það er fyrst og fremst þetta fólk sem ber skarðan hlut frá borði. Hinir fátæku kaupa yfirleitt litla skammta af lélegu vatni og eru oftar en ekki að greiða allt að 12 sinnum meira fyrir vatnið en þeir sem tengdir eru alvöru vatnsveitum. Þegar verðið hækkar hjá þeim sem þegar eru tengdir veitunni getur veitan réttlætt kostnað við að veita vatninu til fleiri. Þegar verð er aftur á móti svo lágt að það borgar sig ekki að leggja leiðslur víðar virkar það eins og stífla á nýjar fjárfestingar. Það má því gera ráð fyrir að jafnvel þótt verð á vatni sé tvöfaldað geti það leitt til þess að fleira fátækt fólk fái aðgang að ódýrara vatn en það hafði áður.