Fimmtudagur 24. nóvember 2005

328. tbl. 9. árg.

Nýlega samþykkti bæjarstjórn Akureyrar deiliskipulag orlofshúsabyggðar í Búðargili. Tillagan var samþykkt með 10 samhljóða atkvæðum en Valgerður H. Bjarnadóttir, bæjarfulltrúi vinstrigrænna, bókaði: „Ég er andvíg því að reisa sumarhúsabyggð í Búðargili og sit því hjá við afgreiðslu þeirrar tillögu sem hér er til afgreiðslu.“

Nú hefur Vefþjóðviljinn ekki kynnt sér þessa málavexti sérstaklega vel og kann því ekki við að fullyrða mikið um bókun Valgerðar. Kannski eru á henni skiljanlegar skýringar – en almennt hlýtur að mega spyrja hvers vegna stjórnmálamenn séu sífellt að sitja hjá í atkvæðagreiðslu. Af hverju er ekki hægt að vera með eða þá á móti máli? Stundum virðist hjásetan vera hugsuð sem tilraun til þess að eiga bæði kökuna og borða hana. Það er að segja, stjórnmálamaðurinn styður ekki málið en vill ekki að síðar verði hægt að benda á nei-ið hans, ef niðurstaðan þykir síðan hafa reynst vel. Hann vill geta sagt að hann hafi í raun stutt málið en hins vegar hafi „undirbúningur“, „málsmeðferð“ eða eitthvað álíka verið „með þeim eindæmum“ að hann hafi því miður ekki getað stutt þetta framfaramál. Ef málið þykir hins vegar hafa reynst illa, þá er hægt að hafa langt mál um þann galla sem þá hefur komið í ljós og bæta við að þess vegna, herra forseti, gátum við ekki stutt þetta mál. En hver sem ástæðan er, þá er því ekki að neita að það er almennt ákveðið hugleysi fólgið í hjásetu – og svo auðvitað hentistefnan. Stjórnmálamaður vill geta tekið upp afstöðu hinna einhvern tíma seinna án þess að þá verði hægt að segja að hann hafi skipt um skoðun. Stjórnarandstaðan á þingi, einkum Samfylkingin, stundar það til dæmis mikið að sitja hjá um mál sem hún mjög sennilega vildi fremur vera á móti fullum fetum. Svipaða sögu má segja úr sumum sveitarstjórnum þar sem minnihluti situr víða oftar hjá en góðu hófi gegnir.

En því verður ekki neitað að þessi taktík hefur borið árangur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, svo dæmi sé tekið, studdi ekki EES-samninginn þegar hann var samþykktur á Alþingi. En af því að þessi stjórnmálamaður sannfæringarinnar sat hjá, hefur stuðningsmönnum hennar gengið allvel að telja fólki trú um að hún hafi í raun verið stuðningsmaður samningsins og það jafnvel verið haft til marks um framsýni hennar og þor. Halldór Ásgrímsson, svo annað dæmi sé tekið, hann studdi EES-samninginn ekki heldur. Halldór sat hjá – hver sem gæti ímyndað sér það í dag. En hjáseta þessara þingmanna og annarra slíkra, gerði frumvarpinu um EES-samninginn ekkert gagn. Hjásetur koma engu máli í gegn. Ef allir sitja hjá þá er tillaga fallin. Er til of mikils mælst af kjörnum fulltrúum að þeir greiði einfaldlega atkvæði með eða á móti þeim tillögum sem lagðar eru fram?

Ólafur Ragnar Grímsson fékk á sig opinbera gagnrýni í einu dagblaðanna í fyrradag og brást við henni á sama vettvangi daginn eftir. Ríkisútvarpið brá skjótt við og fékk fræðimann ofan úr Háskóla til að vitna um að ekkert væri óeðlilegt við störf Ólafs eða viðbrögð hans við gagnrýninni. Vill einhver giska á, í hvern Ríkisútvarpið hringdi? Kannski í einn nánasta stuðningsmann Ólafs til margra áratuga, Svan Kristjánsson? Og ætli það gæti verið að hann hafi einungis verið kynntur sem prófessor í stjórnmálafræði?

Nokkrir stjórnmálaflokkar eru sífellt með fyrirspurnir á Alþingi og virðast engin takmörk fyrir spurningarefnunum. Hvernig ætli svörin yrðu nú ef einhver þingmaður tæki sig til og spyrði menntamálaráðherra hversu oft Ríkisútvarpið hefði leitað sérfræðiálits Svans Kristjánssonar á álitamálum er tengjast Ólafi Ragnari Grímssyni, hversu oft hefði verið tekið fram í fréttunum að þeir tveir væru nánir baráttufélagar og hversu oft leitað hefði verið til annarra fræðimanna í sama skyni?

Í viðtalinu í gær virtist Svanur Kristjánsson leggja það að jöfnu að forseti Íslands sæki brúðkaup ríkisarfa Danmerkur, sambandsríkis Íslands um margra alda skeið, og svo það að forsetinn þjóti til Mónakós og horfi á þegar nýr fursti tekur við. Svanur Kristjánsson taldi í fullri alvöru að þeir, sem töldu að forsetinn hefði átt að sitja brúðkaup krónprins Danmerkur, gætu ekki spurt um erindi forsetans við athafnir í Mónakó.