Ó
Seltjarnarnesi tekst að lækka bæði skuldir og skatta, hjá R-listanum í Reykjavíkurborg hækkar hvort tveggja. |
líkt hafast þeir að, borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík og bæjarstjórnarmeirihlutinn á Seltjarnarnesi. Í Reykjavík hefur meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks hækkað útsvar úr lágmarki upp í hámark, 13,03%, á nokkrum árum. Á Seltjarnarnesi sýnir meirihlutinn, undir forystu Jónmundar Guðmarssonar bæjarstjóra, að hægt er að lækka skatta og að óþarfi er að vera með allt í hámarki. Þar hefur útsvarið hingað til verið með því lægsta sem gerist á höfuðborgarsvæðinu, og eftir ákvörðun meirihlutans um lækkun útsvars, sem tilkynnt var um í gær, verður Seltjarnarnes með lægsta útsvarið á svæðinu. Hlutfallið lækkar úr 12,46% í 12,35% á næsta ári. Næstur kemur Garðabær með 12,46%, þá Mosfellsbær með 12,94%, en Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður leggja hæsta leyfilega útsvar á íbúa sína, 13,03%.
Meirihlutinn á Seltjarnarnesi skýrði einnig frá því í gær að hann hygðist lækka fasteignaskatt úr 0,32% í 0,30% og er hlutfallið þar með orðið hið lægsta á höfuðborgarsvæðinu. Seltjarnarnes hefur einnig þá sérstöðu að leggja ekki sérstakt holræsagjald á íbúa, en það er skattur á húsnæði sem R-listaflokkarnir lögðu á Reykvíkinga við mikil mótmæli minnihlutans í borginni. Þá hefur á Seltjarnarnesi verið tekin ákvörðun um að lækka vatnsskatt, auk þess sem ákveðið hefur verið að hækka ekki þjónustugjöld á næsta ári, þrátt fyrir hækkun verðlags, eins og sum sveitarfélög gera.
Það er ótrúlegur munur á rekstri sveitarfélaganna Seltjarnarness og Reykjavíkur og ekki Reykjavík í vil þótt stærðarhagkvæmni ætti skila sér í hagkvæmari rekstri höfuðborgarinnar. Þannig var það reyndar áður en R-listinn fór að raða upp silkihúfunum í ráðhúsinu og þenja út báknið. Nú er svo komið, að þótt Seltjarnarnes bjóði alls ekki lakari þjónustu en Reykjavík þá tekst þessu litla sveitarfélagi að leggja mun minni gjöld á íbúa sína. Og það sem meira er, Seltjarnarnes hefur verið að lækka skuldir sínar á meðan R-listinn hefur margfaldað skuldir Reykjavíkur. Nettóskuldir Seltjarnarness á hvern íbúa, að lífeyrisskuldbindingum meðtöldum, námu 175 þúsund krónum um síðustu áramót, en hjá Reykjavíkurborg var sambærileg tala 736 þúsund krónur, eða ríflega fjórum sinnum hærri. Höfuðborgin nýtur raunar þess vafasama heiðurs að tróna á toppi skuldalistans yfir stærstu sveitarfélög landsins og verður það að teljast athyglisverður árangur.
I ngibjörg Sólrún Gísladóttir á í miklum vanda þessa dagana vegna fylgistaps Samfylkingarinnar í kjölfar þess að henni hefur ekki tekist að sýna fram á að hún hafi átt erindi í formannssæti flokksins. Ef til vill er það þess vegna sem hún greip til þess óyndisúrræðis að segja ósatt í samtali við Fréttablaðið um helgina, þegar blaðið bar undir hana könnun blaðsins sem sýndi fylgistap flokksins. Um þetta sagði Ingibjörg Sólrún: „Flokkar hafa tilhneigingu til að fara talsvert upp þegar eitthvað er að gerast. Hjá okkur var formannskjör og landsfundur í maí og þá fórum við verulega upp. Núna var hið sama uppi á teningnum hjá Sjálfstæðisflokknum.“
Það er rétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu að landsfundur Samfylkingarinnar var í maí og tilkynnt var um kjör hennar til formanns 21. þess mánaðar. En eins og hún veit vafalaust er rangt að þá hafi flokkurinn farið verulega upp í fylgiskönnunum. Hið rétta er að flokkurinn lækkaði heldur í könnun Fréttablaðsins í maí frá næstu könnunum Fréttablaðsins á undan. Eftir að hún tók við hefur flokkurinn hins vegar tekið mikla dýfu. Aðrar kannanir segja svipaða sögu. Fylgið hefur hrunið af flokknum frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við af Össuri Skarphéðinssyni. Það er ekki vegna þess að flokkurinn hafi náð óvæntu flugi í maí, heldur vegna þess að flokkurinn hefur misst fylgi eftir að hún tók við.