Þriðjudagur 22. nóvember 2005

326. tbl. 9. árg.

Hvers vegna kom það Vefþjóðviljanum ekki á óvart að Anna Kristín Gunnarsdóttir kvaddi sér hljóðs á Alþingi í gær og heimtaði að skattgreiðendur létu enn meira af hendi rakna til Byggðastofnunar því sjóðir hennar væru tómir? Jú Anna Kristín er þingmaður Samfylkingarinnar. Samfylkingin segist vera nútímalegur jafnaðarmannaflokkur og er alltaf að gefa í skyn að hún sé ekki fyrir gömlu sveitaráðin. Og þegar Samfylkingin segir eitthvað má yfirleitt treysta því að hún meinar eitthvað allt annað. Anna Kristín notaði það sem röksemd fyrir auknum fjárveitingum til Byggðastofnunar úr ríkissjóði að eiginfjárhlutfall stofnunarinnar væri komið niður fyrir 8%. Hvers vegna ætli það sé? Er það vísbending um að stofnunin eigi að fá meira fé að henni hefur haldist illa á fé hingað til?

Hin ástæðan fyrir því að að Vefþjóðviljinn hrökk ekki við þegar Anna Kristín fór í pontu með þetta erindi sitt er að Anna Kristín er Sauðkrækingur. Þannig vill nefnilega til að Byggðastofnun er til húsa á Sauðárkróki og þar er starfsemin að mestu leyti. Samfylkingin segist ekkert vera í gamaldags kjördæmapoti.

Á vef Byggðastofnunar kemur þó fram að einn hluti starfseminnar er ekki á Sauðárkróki. Það er „jafnréttisfulltrúinn“. Hann er í Þorlákshöfn.

Forseti Íslands og frú Moussaieff héldu á dögunum til Mónakós til að vera viðstödd er Albert prins tók formlega við furstastarfi. Þar var margt góðra gesta eins og við var að búast, þó erindi forseta Íslands hafi að sjálfsögðu ekki verið að spóka sig meðal fyrirmenna heldur eingöngu að sinna tengslum Íslendinga við hina gömlu vinaþjóð og mikilvægu bandamenn okkar í Mónakó. Aðrir þjóðhöfðingjar sem sóttu athöfnina eru að vísu allir konungbornir og samband Íslands við Mónakó að því leyti lítið að annar aðalatvinnuvegur Mónakós, spilavítisrekstur, er bannaður á Íslandi, en á móti þessu tvennu kemur það að forseti Íslands er allra þjóðkjörinna embættismanna opnastur fyrir þeim möguleika að hann sé í raun konungborinn – og svo það að hitt aðaláhugamál Mónakóbúa, aðdáun á ríkismönnum, er vaxandi atvinnuvegur hér á landi. Forseti Íslands var því sjálfsagður gestur í Monte Carlo.