Það hafa orðið nokkuð fróðlegar umræðurnar í kringum kynninguna á nýjustu sögu Einars Kárasonar, Jónsbók. Þær geta hugsanlega orðið til þess að varpa svolitlu ljósi á hluta af íslenskri þjóðmálaumræðu. Aðalpersóna bókarinnar, Jón Ólafsson athafnamaður, hefur farið mikinn í bókarkynningum og haft eitt og annað að segja sem fjölmiðlamenn hafa tekið sem stórtíðindum. Og fyrir tvær einstakar tilviljanir þá verða ummæli Jóns gagnleg fyrir þá sem vilja skilja íslenskan samtíma. Jón byrjaði á hefðbundnum staðhæfingum í það-sagði-mér-maður stílnum, þeim stíl sem æ oftar virðist þykja gjaldgengur og jafnvel marktækur í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Þessi ónefndi maður, sem Jón reisti miklar fullyrðingar sínar á, hafði einn heimildarmann. Sá var Skúli Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóri sem virtist sífellt vera að detta í það og taka þá að segja heimildarmanni Jóns Ólafssonar ýmis firn. Skúli Eggert kannaðist að vísu ekkert við það sem Jón sagði að hann hefði sagt, en ef að Skúli Eggert væri eins og sennilega meirihluti landsmanna og fengi sér eitt og eitt glas við og við, þá hefði í huga ýmissa einfaldlega staðið orð á móti orði. Og eins og menn vita þá eru til margir fjölmiðlamenn sem við þær aðstæður sjá ekkert að því útvarpa ásökunum, og hinir og þessir álitsgjafar láta sig síðan ekki muna um að vísa svo í ásakanirnar eins og þær séu staðreyndir.
En þá vildi svo til að Skúli Eggert Þórðarson er alger bindindismaður og hefur víst ekki smakkað áfengisdropa síðan árið 1977. Og þá fer nú mesta púðrið úr sögunni. Að ekki sé nú minnst á þá staðhæfingu Jóns Ólafssonar að hann hefði ýmis dæmi um að Skúli Eggert hefði „verið mjög lausmáll þegar hann er undir áhrifum áfengis“.
Og Jón Ólafsson sagði fleira, sem eflaust hefur hljómað sannfærandi í einhverjum eyrum. Hann sagði að tiltekinn fyrrverandi stjórnmálamaður væri gagntekinn af sér, Jóni það er að segja, og væri til marks um það sú ótrúlega staðreynd að fyrir nokkrum árum hefði þessi stjórnmálamaður verið annar tveggja ræðumanna í fimmtugsafmæli Þórarins Eldjárns, skálds, en ræðan hefði hins vegar eingöngu fjallað um Jón Ólafsson afhafnamann og viðskipti hans – en ekki um afmælisbarnið Þórarin. Svona væri nú þessi stjórnmálamaður heltekinn, öll ræðan hefði snúist um Jón. Og Jón upplýsti að hinn ræðumaðurinn í afmælinu hefði verið Einar Kárason, bókarhöfundur Jóns, svo fólk hefur nú væntanlega talið sig geta treyst heimildinni. Við venjulegar aðstæður hefðu sennilega afmælisbarnið eða einhverjir veislugestir andmælt orðum Jóns, en eins og ef Skúli Eggert hefði ekki verið bindindismaður, þá hefði samt í huga einhverra einfaldlega verið orð á móti orði og eftir staðið eins og svo oft áður einhver „tilfinning“ og „andrúmsloft“ svo notað sé vinsælt orðalag. Sú tilfinning og það andrúmsloft yrði svo notað í umræðuþáttum og greinaflokkum til þess að skapa tortryggni og sá grunsemdum um hvað sem vera skyldi hverju sinni.
En þá vildi hins vegar svo til að ræða stjórnmálamannsins hafði verið tekin upp á band. Og þegar það var skoðað þá kom í ljós að það var ekki minnst á Jón Ólafsson athafnamann í ræðunni. Ekki aukateknu orði. Það var hins vegar minnst stuttlega á ljóð Þórarins um Jón Indíafara og samkvæmt mælingu stóð sú tilvitnun í 30 sekúndur en ræðan öll í 13 mínútur. Ræðan sem sögð var öll hafa snúist um Jón Ólafsson og viðskipti hans.
Ætli ekki megi draga einhverjar ályktanir af þessum dæmum? Ætli það geti kannski verið, að svipað kæmi í ljós ef fleiri tilviljanir gæfu kost á að reyna fleiri kenningar sem settar eru fram, að því er virðist í svipuðum tilgangi? Ætli það geti verið að það séu kannski einhverjir aðrir sem hafi annað fólk á heilanum? Ætli það geti verið einhverjir aðrir sem hugsi ekki um annað en að koma höggi á einhverja sem þeir halda að séu óvinir sínir? Ætli það geti nú kannski verið að margt það, sem sífellt er verið að halda fram eða gefa í skyn, sé nú ekki á merkilegum grunni reist, þegar kurl koma til grafar?