Helgarsprokið 20. nóvember 2005

324. tbl. 9. árg.

Þ ví er stundum haldið fram að hugmyndafræðilegar markalínur í stjórnmálum séu að hverfa og stjórnmálabarátta nútímans snúist nú annars vegar um tæknileg úrlausnarefni og hins vegar um persónur stjórnmálamanna. Þessu er ekki síst haldið fram af hálfu þeirra, sem sjálfir eru tvístígandi í afstöðu sinni til mikilvægra grundvallarmála, og vilja helst ræða daginn út og inn um aðferðir við ákvarðanatöku, lýðræðislegt ferli og fagleg og nútímaleg vinnubrögð við upphaf nýrrar aldar, í stað þess að setja fram skýra stefnu og fylgja henni eftir.

„Þannig hefur honum tekist að fá alnafna sinn, formann BSRB, í lið með sér í baráttunni og hafa þau samtök hafið mikla áróðursherferð til að vinna gegn framgangi frumvarpsins.“

Hvað sem mönnum finnst um almennt sannleiksgildi fullyrðinga um að hugmyndafræði sé á útleið úr pólitískri umræðu hljóta þó flestir að samþykkja, að stöku sinnum koma til umræðu á Alþingi mál þar sem reynir á grundvallarafstöðu manna til hugtaka og hugmynda um það hvert þjóðfélagið á að stefna. Eitt slíkt mál er til umfjöllunar á Alþingi þessa dagana en það er frumvarp iðnaðarráðherra til nýrra vatnalaga. Þar er tekist á um það grundvallarmál, hvort landeigendur eigi að halda þeim eignarrétti á vatni og vatnsréttindum, sem tryggður hefur verið í dómaframkvæmd á undanförnum áratugum.

Ekki þarf að koma á óvart að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hafa verið fremstir í flokki þeirra sem barist hafa gegn einkaeignarrétti í þessu máli, eins og á mörgum öðrum sviðum. Útgangspunktur þeirra er eins og jafnan, að þjóðareign eða ríkiseign eigi að vera meginreglan, en einkaeignarrétturinn eigi að vera undantekning og lúta margvíslegum takmörkunum. Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru að vonum ekki sama sinnis, en afstaða Samfylkingarinnar er jafn óljós í þessu máli eins og flestum öðrum. Ekki er að efa, að hjörtu margra þingmanna þess flokks slá í takt við afstöðu Vinstri grænna, en eitthvað eru þeir hikandi við að taka skýra afstöðu í þá veru, sennilega af ótta við að virka eitthvað gamaldags og úr takti við nýjustu sjónarmið Evrópusambandsins.

Þingflokksformanni Vinstri grænna, Ögmundi Jónassyni, hefur þess vegna að því er virðist mistekist að virkja þingmenn Samfylkingarinnar í þessu máli. Á hinn bóginn hefur honum tekist að fá ýmsa aðra með sér í þessa baráttu. Þannig hefur honum tekist að fá alnafna sinn, formann BSRB, í lið með sér í baráttunni og hafa þau samtök hafið mikla áróðursherferð til að vinna gegn framgangi frumvarpsins. Þetta er kannski ekki sagt berum orðum, en heildarsamtök starfsmanna ríkis og bæja, sem viðkomandi starfsmenn eru neyddir til að greiða félagsgjöld til, hvort sem þeim líkar betur eða verr, hafa hins vegar beitt sér fyrir funda- og ráðstefnuhaldi að undanförnu, sem augljóslega beinist gegn þessu tiltekna þingmáli ríkisstjórnarinnar. Eins og oft áður hafa samtökin fengið hingað til lands erlenda prédikara til að styðja sig í baráttunni og mæla gegn einkaeignarrétti á vatni, haldnar hafa verið ráðstefnur og efnt til auglýsingaherferðar, bæði í dagblöðum og á biðskýlum strætisvagna, svo dæmi séu nefnd. Í þessum auglýsingum er auðvitað ekki minnst berum orðum á stjórnarfrumvarpið, en inntak þeirra og tímasetning auglýsingaherferðarinnar er auðvitað engin tilviljun. Að halda öðru fram væri jafn fráleitt og að halda því fram að blaðaauglýsingarnar um eyru Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og góða heyrn hennar, sem birtar hafa verið nær daglega í mánuð á kostnað skattgreiðenda í Reykjavík, standi ekki í neinu sambandi við fyrirhugað prófkjör Samfylkingarinnar eftir áramótin.

Það þarf kannski að koma svo mjög á óvart að formaður þingflokks Vinstri grænna hafi náð samstöðu með formanni BSRB í þessu máli. Það hefur gerst áður. Það er hins vegar dálítið sérkennilegt að þessum fjölhæfa formanni skuli hafa tekist að fá ýmsa alls óskylda aðila til að taka þátt í þessari áróðursherferð og má sem dæmi um það nefna Samband íslenskra bankamanna, Ungmennafélag Íslands og Þjóðkirkjuna. Hér er um að ræða aðila sem venjulega líta ekki á það sem hlutverk sitt að taka þátt í baráttu um pólitísk málefni líðandi stundar – eða það hefðu menn haldið. Halda forystumenn þessara samtaka að það sé fullkomin tilviljun að þeir eru fengnir með í herferð af þessu tagi einmitt þegar verið er að ræða tiltekið þingmál um þetta efni? Hafa þeir spurt forystu BSRB út í tilefni þessara aðgerða og tímasetningu þeirra? Gera þeir sér grein fyrir því að verið er að nota nöfn þeirra í baráttu, sem meira að segja þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið tregir til að taka þátt í? Hvarflar ekki að þeim að verið sé að misnota þá og samtök þeirra með einhverjum hætti – eða er þeim bara alveg sama?