Laugardagur 19. nóvember 2005

323. tbl. 9. árg.

Y firborgarstjóri Reykjavíkur, Alfreð Þorsteinsson, mun að loknum borgarstjórnarkosningum næsta vor hverfa af vettvangi stjórnmálanna – svona hér um bil að minnsta kosti. Brotthvarf Alfreðs er almenningi í borginni vitaskuld þungbært enda hefur Framsóknarflokkurinn undir hans forystu notið stuðnings ótrúlegs fjölda Reykvíkinga. Alls sjö manna síðast þegar var talið. Til að taka mesta höggið vegna þessara erfiðu frétta af borgarbúum hefur Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra tryggt það að Alfreð muni áfram fá að sýsla með fjármuni almennings. Hann fær í byrjun, sem formaður nýrrar framkvæmdanefndar um byggingu nýs sjúkrahúss, 18 milljarða króna frá ríkinu til að reisa húsið af þeirri verkkunnáttu sem hann er þekktur fyrir.

Auðvitað kom ekkert annað til greina þegar Jón frétti utan af sér að Alfreð væri brátt á lausu en að fela honum þetta erfiða verkefni. Enginn annar var betur til þess fallinn. Alfreð hefur víða komið að flóknum byggingaframkvæmdum með ævintýralegum árangri, eða eins og Alfreð sjálfur segir í samtali við Morgunblaðið í dag: „Starfið leggst vel í mig. Þetta er risavaxið verkefni, en ég hef áður komið að mannvirkjagerð hjá Orkuveitu Reykjavíkur, bæði með raforkuverunum á Nesjavöllum og Hellisheiði, en einnig byggingu höfuðstöðva Orkuveitunnar. Þótt þessi mannvirki séu ólík, í það minnsta virkjanir og sjúkrahús, eru þetta hvoru tveggja mikil og flókin mannvirki.“

Alfreð átti sannarlega ekki í nokkrum vandræðum með að byggja höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur svo honum verður ekki skotaskuld úr því að byggja sjúkrahúsið. Honum tókst svo vel upp við byggingu höfuðstöðvanna að þær urðu rúmlega tvöfalt dýrari en áætlanir höfðu gert ráð fyrir og enduðu í rúmlega 4,2 milljörðum króna, eins og Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá. En höfuðstöðvarnar urðu ekki aðeins miklu dýrari en gert hafði verið ráð fyrir þegar ákveðið var að hefjast handa um byggingu þeirra, þær  urðu líka mun dýrari en ýmsar sambærilegar byggingar, eins og Morgunblaðið greindi frá í fréttaskýringu og Vefþjóðviljinn fjallaði um.

Afrek Alfreðs á sviði rekstrar einskorðast þó ekki við byggingarframkvæmdir, þótt hann hafi af hógværð sinni látið eiga sig að nefna fleiri dæmi um yfirburðahæfni sína. Hann á einnig farsælan feril í fyrirtækjum á borð við Línu.net, sem hefur kostað skattgreiðendur í Reykjavík milljarða króna, og hann keypti fjarskiptafyrirtækið Irju fyrir 250 milljónir króna og afskrifaði það nánast samstundis um tæplega 100%. Þá má ekki gleyma því að Alfreð hefur sem yfirborgarstjóri rekið Reykjavíkurborg með þeim glæsilega árangri að skuldir borgarinnar hafa meira en fimmtánfaldast á góðærisárunum frá því að R-listinn tók við völdum í höfuðborginni árið 1994.

Vitaskuld gat Jón Kristjánsson hvorki beitt Alfreð né skattgreiðendur því ranglæti að velja annan mann til að stýra byggingu nýs sjúkrahúss upp á tugi milljarða króna.