Föstudagur 18. nóvember 2005

322. tbl. 9. árg.

Sem kunnugt er greiddi aðeins einn borgarfulltrúi í Reykjavík atkvæði gegn því að Reykjavíkurborg tæki þátt í að reisa margfalt dýrara tónlistarhús en áður hafði verið ráðgert. Fyrir átta árum stóð til að byggja tónlistarhús fyrir 1.550 milljónir króna en nú er uppi áætlun um að setja yfir 10.000 milljónir í tónlistar- og ráðstefnuhús. Borgarfulltrúinn sem um ræðir var Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Enginn hinna 14 borgarfulltrúanna treysti sér til að standa vörð um hagsmuni skattgreiðenda í þessu máli. Aðrir borgarfulltrúar létu einfaldlega undan sérhagsmunakórnum. Það er enda auðveldara fyrir stjórnmálamenn að benda sérhagsmunaliðinu á hvað hefur verið gert mikið fyrir það en að reyna að útskýra fyrir öllum skattgreiðendum hvað hefur verið reynt til að koma í veg fyrir að gert sé á þeirra hlut. Sérstaka athygli vakti auðvitað að aðrir borgarfulltrúar minnihlutans, sem réttilega hafa bent á skuldasöfnun og skattahækkanir R-listans, telja borgina engu að síður hafa efni á að leggja mikið fé mjög dýra útfærslu á tónlistarhúsi. Þeir virðast þrátt fyrir allt líta þannig á fjárhagsstöðu borgarinnar að svigrúm sé til að borgarsjóður leggi stórfé í íburðarmikið tónlistarhús. Þetta er ótrúverðug afstaða. Það þýðir lítið að kvarta og kveina undan aukinni skattheimtu og skuldasöfnun en styðja á sama tíma aukin útgjöld til nýrra verkefna sem ofaní kaupið eru höfð eins dýr og frekast er unnt. 

Jón Ólafsson athafnaskáld hefur greint frá því í nýútkominni doktorsritgerð Einars Kárasonar, að ýmsar upplýsingar Jóns um menn og málefni séu komnar frá ónafngreindu fólki sem aftur hafi sinn fróðleik frá Skúla Eggerti Þórðarsyni skattrannsóknarstjóra, fullum. Í Blaðinu í fyrradag segir Jón meðal annars: „Svo þetta er ekkert einsdæmi að þessi maður [Skúli Eggert] hafi farið frjálslega með sín embættisstörf. Alla vega tvö dæmi liggja fyrir hérna en ég hef heyrt fleiri þar sem hann hefur verið mjög lausmáll þegar hann er undir áhrifum áfengis.“

Gegn þessu hefur Skúli Eggert reynt að segja að hann sé raunar kunnur bindindismaður sem ekki hafi snert áfengisdropa í þrjátíu ár. En þau rök falla um sjálf sig þegar það verður upplýst, að fólk, sem ekki verður nafngreint og enginn fjölmiðill mun krefjast að verði nafngreint eða þá sagan dregin til baka, heyrði nýlega Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tauta það í miðri Keflavíkurgöngu að Skúli Eggert sæti öll kvöld ofurölvi með Árna Helgasyni og Helga Seljan.