Fimmtudagur 17. nóvember 2005

321. tbl. 9. árg.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar fór í pontu á Alþingi Íslendinga í gær. Ekki það að hún hafi verið kjörin til þess heldur var rýmt til fyrir henni í vor með hefðbundnum vinnubrögðum Samfylkingarinnar. Erindi hennar var að kvarta undan „verkleysi á stjórnarheimilinu“ og fáum málum sem stjórnin leggur fyrir þingið. „Ég vil bara að þessi ríkisstjórn vinni og komi fram með mál og það hefur hún ekki gert,“ sagði Ingibjörg og taldi á fingrum annarrar handar þau mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og tengjast ekki fjárlagagerð og EES regluverki.

Sem kunnugt er mun Ingibjörg Sólrún telja ríkisstjórnina almennt vinna meira ógagn en gagn með verkum sínum þótt efnisleg gagnrýni hennar á stjórnina sé af skornum skammti og aðaláherslan lögð á slúður, söguburð og aðrar órökstuddar ávirðingar. Ef Ingibjörg Sólrún telur ástæðu til að skipta um ríkisstjórn hlýtur hún jafnframt að óska þess á meðan það rætist ekki að ríkisstjórnin geri sem minnst. Það hljómar einhvern veginn ekki alveg sannfærandi þegar menn segja að súpan sé vond en biðja um leið um stærri skammt.

Frjálslyndir menn hljóta að mestu leyti að óska þess að ríkisstjórnir og stjórnarmeirihlutar á Alþingi hafist sem minnst að. Líkurnar á því að lagafrumvarp sé til bóta og sé ætlað að draga úr ríkisafskiptum eru ekkert sérstaklega góðar. Flest frumvörp eru lögð fram með það að markmiði að efla ákveðinn þátt þjóðlífsins mjög mikið með því að draga máttinn örlítið úr öllum hinum. Það er gert með því að taka svolítinn skatt af öllum til að veita einhverjum einum. Flutningsmenn slíkra frumvarpa kalla það oft að Alþingi þurfi að „sýna metnað“ í ákveðnum málum þegar þeir leggja til að öll önnur mál séu skattlögð svo þetta áhugamál þeirra fái fjárveitingu.