Miðvikudagur 16. nóvember 2005

320. tbl. 9. árg.

Í fréttum Stöðvar 2 í fyrradag var rætt við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra um það hversu æðislega R-listinn hefði staðið sig í fjármálum borgarinnar. Fréttamaðurinn var greinilega undrandi á glæsilegum árangri vinstri meirihlutans í borgarstjórn og spurði borgarstjóra: „Hvernig er hægt að lækka gjöld [á borgarbúa] og skuldir samtímis?“ Steinunn Valdís svaraði að bragði: „Ja, það er einfaldlega mjög styrk stjórn fjármála í borginni sem að gerir þetta kleift. Við gerum ráð fyrir því að lækka holræsagjald á næsta ári, við ætlum að halda fasteignasköttum óbreyttum, við erum með gjöld tiltölulega lág, á móti kemur að við innheimtum tekjur í gegnum hámarksútsvarsprósentu og það hefur einfaldlega verið pólitík þessa meirihluta að halda gjöldum í lágmarki en taka tekjur inn í gegnum sameiginlega sjóði.“

Fréttamaðurinn spurði einskis frekar enda málið útrætt. R-listinn heldur gjöldum lágum eins og allir vita og tekur tekjurnar svo bara inn í gegnum sameiginlega sjóði. Þetta gæti ekkert verið einfaldara. Ekkert mál, allt saman bara tekið inn í gegnum sameiginlega sjóði og Reykvíkingar þurfa ekki að hafa nokkrar áhyggjur af skattheimtu borgarinnar. Snúum okkur að næstu frétt, í fjármálum Reykjavíkurborgar er allt í himnalagi.

Eða hvað, getur verið að eitthvað sé bogið við svar borgarstjóra? Nei, það er auðvitað mjög ólíklegt því að fréttamaðurinn hefði vafalaust spurt áfram ef svarið væri tómt rugl. Það hlýtur að vera alveg eðlilegt að taka allt í gegnum sameiginlega sjóði og svo er það örugglega alveg satt og rétt að R-listinn hefur stundað þá pólitík að halda gjöldum lágum. Vandinn við svar borgarstjóra er svo sem ekki umtalsverður, eina sem er að því er að það er annars vegar ósatt og hins vegar tómt rugl. Lítum aðeins nánar á svarið, svona fyrst „fréttamaðurinn“ ákvað að láta það eiga sig.

R-listinn hefur alla tíð haldið því fram að hann hygðist ekki hækka álögur á borgarbúa. Fyrir kosningarnar 1998 hélt Helgi Hjörvar borgarfulltrúi því til dæmis fram að „lækkun gjalda á Reykvíkinga“ yrði beinlínis forgangsverkefni R-listans. Reykvíkingar hafa hins vegar ekki fengið neina lækkun gjalda út úr R-listanum. R-listinn afrekaði það þvert á móti að taka upp sérstakt holræsagjald þegar hann komst til valda eftir kosningarnar 1994 og hann hefur hækkað útsvarið fimm sinnum. Útsvarið var í lágmarki þegar R-listinn tók við stjórn borgarinnar en er nú komið upp í leyfilegt hámark. Þá má nefna að árið 1999 breytti R-listinn tunnuleigu íbúa borgarinnar í sorphirðugjald og margfaldaði gjaldið um leið og nafninu var breytt. R-listinn hefur líka hækkað heita vatnið í hvert sinn sem dregið hefur úr notkun þess vegna hlýinda og R-listinn hefur nýtt sér hækkað fasteignaverð – sem hann hefur að stórum hluta verið valdur að sjálfur – til að innheimta mun hærri fasteignaskatta en áður tíðkaðist. Þetta er aðeins hluti af gjaldahækkunum R-listans og fullyrðing borgarstjóra um að það hafi verið pólitísk stefna R-listans að halda gjöldum í lágmarki er þess vegna hrein ósannindi.

En svarið var ekki aðeins ósatt, heldur líka tómt rugl. Eða hvað í ósköpunum átti borgarstjóri við með því að tekjurnar væru teknar „í gegnum sameiginlega sjóði“?! Hvað þýðir það? Á að skilja það sem svo að útsvar skattgreiðenda í Reykjavík sé annars konar fé en holræsagjald eða fasteignaskattur sömu skattgreiðenda? Er útsvarsstofninn, þ.e. tekjur Reykvíkinga, sameign en ekki séreign hvers og eins? Líti R-listinn svo á að  tekjur borgarbúa séu sameign undir yfirráðum vinstri meirihlutans útskýrir það svo sem sífelldar útsvarshækkanir og gefur góða vísbendingu um hvað R-listaflokkarnir munu gera ef þeir halda völdum og ríkið lætur undan kröfunni um að hækka hámarksútsvarið. En þetta er svo sem tæplega skýringin á orðum borgarstjóra. Ætli orð borgarstjóra séu ekki miklu frekar dæmi um skilningsleysi R-listaflokkanna á tekjum og gjöldum borgarinnar.