Þriðjudagur 15. nóvember 2005

319. tbl. 9. árg.

K

Úti er ævintýri. Sveitarstjórnarmenn sjá ekkert kvikt í friði.

ötturinn er ekki aðeins liðugur og lipur við veiðar. Frá landnámi Íslands hefur íslenska heimiliskettinum einnig tekist að smeygja sér framhjá nær öllum opinberum afskiptum, boðum, bönnum, sektum, framleiðslukvótum, niðurgreiðslum, beingreiðslum, lögboðinni skráningu, merkingu og skattlagningu sem aðrar skepnur landsins hafa mátt þola. Honum tókst í raun í árþúsund það sem landnámsmönnum auðnaðist aðeins í fáein árhundruð; að fá smá frið fyrir yfirvaldinu.

Það er auðvitað stórmerkilegt að í yfir þúsund ár hefur íslenski heimiliskötturinn undantekningarlítið farið frjáls ferða sinna inn og út úr híbýlum manna í góðu samkomulagi við heimilisfólk sitt. Hann hefur haft sína hentisemi en um leið bægt frá meindýrum á heimilum og útihúsum. Því til viðbótar er hann þeim sem það líkar ómetanlegur félagsskapur. Betri ábreiða á köldum vetrarkvöldum en malandi heimilisköttur er vandfundin.

Já þetta hefur bara gengið bærilega takk fyrir í yfir þúsund ár án þess að setja þurfi reglur um málið og þinga um það í opinberum nefndum.

Það er svo til marks um hve svonefndir sveitarstjórnarmenn hafa gjörsamlega tapað áttum að það eru þeir sem linna nú ekki látum fyrr en settar hafa verið flóknar reglur um ketti.

Reykjavíkurborg hefur ekki látið sitt eftir liggja og í nýrri samþykkt borgarinnar segir:

Allir kettir eldri en fjögurra mánaða skulu örmerktir af dýralækni skv. stöðlum Alþjóða staðlaráðsins (ISO 11784 eða 11785). Eigendur katta skulu strax að lokinni örmerkingu katta koma upplýsingum um númer örmerkis og nafn og kennitölu eigenda til umhverfissviðs Reykjavíkurborgar sem heldur skrá um örmerkta ketti í Reykjavík. Kettir skulu einnig bera hálsól með upplýsingum um heimilisfang eiganda og símanúmer.

Eins og allir vita þá kallast fyrsta skrefið í skattheimtu venjulega því sakleysislega heiti „skráning“. Í þessu tilviki minnir skráningaraðferðin á vísindaskáldsögu því örmerking samkvæmt ISO-stöðlum er „lítill kubbur sem dýralæknir kemur fyrir undir húð í herðakambi kattar og geymir 15 stafa númer“ svo vitnað sé í vef „skrifstofu neyslu og úrgangsmála“ hjá Reykjavíkurborg sem fer með málefni dýranna fyrir hönd borgarinnar. Það verður með öðrum orðum hægt að skanna ketti bæjarins áður en langt um líður. Í reglugerðinni er svo að sjálfsögðu kveðið á um refsiviðurlög, atbeina lögreglu, handsömunar-, fóður- og vistunargjald og svo mun til listi yfir þá vinnustaði og lóðir sem köttum er bannað að valsa inn á.