Mánudagur 14. nóvember 2005

318. tbl. 9. árg.

Afhendingarathöfn edduverðlauna er ljómandi samkoma og gaman að hún sé send út í sjónvarpi, borgurunum til skemmtunar. Það segir sig þó auðvitað sjálft að í fámennu landi eru ekki margar kvikmyndir framleiddar á hverju ári og því þarf tilkynning um að ein mynd hafi verið best þetta árið, kannski ekki að þýða annað en að hún hafi verið skárri en hin. Þannig er eins gott að Snæfríður Íslandssól verði ekki kvödd í dómnefnd, því við þær aðstæður gæti sú vinnuregla hennar að taka þann versta fram yfir þann næstbesta valdið vandræðum, að minnsta kosti í þeim tilfellum þegar sá versti er jafnframt næstbestur. En þó teknar kvikmyndir séu kannski ekki svo ýkja margar á hverju ári, þá dregur það auðvitað ekki úr mikilvægi edduverðlaunanna því væntanlegum áhorfendum er mikið gagn af því að fá að vita hvor þeirra var betri. Það má þá sjá hana fyrst.

Annað mikilvægi verðlauna eins og þessara er að þá gefst verðlaunamönnum færi á að þakka fyrir sig með snjöllum ræðum. Tekst þeim oftast að þakka flestum sem komið hafa við sögu, nema einna helst skattgreiðendum sem þó hafa borgað flesta brúsana, en það er skiljanlegt því skattgreiðendur eru nokkuð margir. Skattgreiðendur munu þó hafa komið lauslega við sögu við verðlaunaafhendingu í gærkvöldi, en þar mun menntamálaráðherra hafa látið þess getið að hún hefði ákveðið að auka framlög skattgreiðenda til kvikmyndagerðarmanna á næstunni. Það er vitanlega skiljanlegt að ráðherrann tilkynni ákvörðun sína fyrst á samkomu kvikmyndagerðarmanna og sjónvarpsmanna, fremur en til dæmis að hafa samband við skattgreiðendur einn af öðrum. Vitanlega er af öllum ástæðum meira vit í að tilkynna um úthlutanir á fundum þeirra fáu sem eiga að taka við þeim fremur en að eyða tímanum í að tala við alla þá mörgu sem eiga að borga alltsaman. Hin aðferðin hefði líka sennilega þær afleiðingar að stjórnmálamönnum yrði ekkert úr verki og þeir kæmust ekki yfir að eyða öllu því opinbera fé sem þeir hafa ætlað sér.

Í gærkvöldi var roskinn fyrrverandi stjórnmálamaður heiðraður, Vilhjálmur Hjálmarsson fyrrverandi menntamálaráðherra. Gaman var að sjá og heyra Vilhjálm sem kominn er á tíræðisaldur og vel ern þó hann hafi alltaf verið rammur bindindismaður. Í gærkvöldi var Vilhjálmur heiðraður fyrir að hafa í ráðherratíð sinni átt ríkan þátt í því að sett voru lög um kvikmyndasjóð Íslands og má sú heiðrun minna á tvennt. Það eru þrýstihóparnir sem ná sínu fram. Þeir nudda og suða og einhvern tíma rennur sá dagur að stjórnmálamenn fara að vilja þeirra. Stjórnmálamennirnir fá nefnilega á tilfinninguna að það sé „búið að tala svo lengi um málið“ að nú verði einfaldlega að „leysa það“. Og það er þá lausn sem suðandi hagsmunahópurinn vill, enda hefur hann verið nær einn um „umræðuna“ allan tímann. Það eru kvikmyndagerðarmenn, áhugamenn um framlög til kvikmyndagerðarmanna, sem suða um framlög til kvikmyndagerðarmanna. Þeir eru skipulagðir og ná sínu fram að lokum enda hafa þeir miklu áþreifanlegri hagsmuni heldur en hinn almenni skattgreiðandi af að hindra eða minnka opinber framlög til kvikmyndagerðarmanna.

Hitt atriðið sem viðurkenningin til ráðherrans fyrrverandi má vera til umhugsunar, er að þakklæti hagsmunahópanna til stjórnmálamanna kemur ekki fyrr en seint og um síðir. Það er aldarfjórðungur síðan Vilhjálmur Hjálmarsson fór af þingi. Nú má heiðra hann. Það eru hins vegar fleiri stjórnmálamenn sem hafa reynst kvikmyndagerðarmönnum vel. Formaður félags kvikmyndagerðarmanna sagði í ræðu sinni í gærkvöldi að fyrir nokkrum árum hefðu tveir þáverandi ráðherrar gert þýðingarmikinn samning við kvikmyndagerðarmenn. Þessir ráðherrar voru auðvitað ekki nafngreindir, enda hefði það getað orðið til þess að áhugamenn um kvikmyndagerð hefðu farið að hugsa hlýlega til Geirs H. Haarde og Björns Bjarnasonar. En eftir tuttugu ár verða þeir ábyggilega kallaðir fram og allir klappa. Stjórnmálamenn sem halda að þeir hafi pólitískan ávinning af dekri við hagsmunahópa, ættu að minnast þess að þakklæti hagsmunahópanna kemur seint og varir stutt. Kannski væri reynandi að gleðja skattgreiðendur oftar en hagsmunahópana sjaldnar.