Helgarsprokið 13. nóvember 2005

317. tbl. 9. árg.

ÍSuður-Ameríku hefur fjórði hver íbúi borga tekið sér byggingarland í óleyfi eða sest að í húsum án leyfis. Það er mjög algengt að menn taki sér land, byggi hús á því og reyni að því loknu að fá einhvers konar viðurkenningu stjórnvalda á eignarrétti á lóðinni.

The Wall Street Journal sagði í síðustu viku frá viðamikilli rannsókn á högum 1800 landtökumanna í San Francisco Solana úthverfinu í Buenos Aires. Rannsóknin er gerð af tveimur háskólum í Argentínu og Harvard Business School og endanlegar niðurstöður eru væntanlegar á næstunni. Fólkið sem um ræðir tók sér árið 1981 rúma tvo ferkílómetra lands sem talið var í opinberri eigu. Landið hafði áður verið nýtt sem ruslahaugur. Með mikilli baráttu tókst um helmingi landtökumannanna að fá viðurkenndan einhvers konar eignarrétt á lóðum sínum. Það sem rannsóknin leiðir í ljós er að þeim sem tókst að ná eignarréttarlegri fótfestu á byggingarlóðum sínum hefur að flestu leyti vegnað betur á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru frá landtökunni þótt þeir hafi yfirleitt unnið svipaða vinnu og haft svipaðar tekjur og hinir sem enga viðurkenningu höfðu fengið á eignarrétti. Það á jafnt við um svo mismunandi þætti sem gæði húsnæðis, menntun og þungun unglingsstúlkna. Um afleiðingarnar segir The Wall Street Journal:

Þeir sem náð höfðu eignarréttarlegri fótfestu höfðu ekki meiri tekjur á þessu tímabili og einungis örlitlu meira lánstraust en hinir. Engu að síður tileinkuðu þeir sér hugsunarhátt athafnamannsins og hristu af sér þann ótta að verða einn góðan veðurdag rekin af landinu en sá ótti nagar stóran hluta fátækra í þessum heimshluta. Þetta fólk trúir því að iðjusemi og dugnaður geti skilað sér í betri tíð fyrir sig og sína.

Blaðið segir að áhugi manna á áhrifum eignarréttar á lífskjör manna hafi ekki síst verið vakinn með metsölubókum perúska hagfræðingsins Hernando se Soto sem hefur fært rök fyrir því að eignarréttindi íbúa í borgum séu nauðsynleg til að þeir geti lyft sér úr fátækt. Fátækt fólk geti nýtt eignarréttindin sem veð til að afla sér lána og taka frekari þátt í atvinnulífinu. Ríkisstjórnir í Suður-Ameríku, Tyrklandi, Suður-Afríku og Tælandi hafa nýtt sér hugmyndir Hernando de Soto. Stofnanir á borð við Alþjóðabankann hafa lánað mörg hundruð milljónir dala í verkefni sem byggð eru á þessum hugmyndum. Meira að segja Bill Clinton lagði hönd á plóginn þegar de Soto vann að slíku verkefni í Ghana fyrir nokkrum árum.

Þeir sem tóku sér land í fyrrnefndu hverfi í Buenos Aires héldu upphaflega að hið opinbera ætti landið. Fólkið, sem var undir forystu kaþólsks prests að nafni Raúl Berardo ruddist inn á svæðið og reisti sér skjól úr afgangstimbri, pappa og byggingarplasti. Fólkið fór að ákvæðum skipulagsreglna, hafði kofana í skipulegri röð og gerð ráð fyrir götum með það að markmiði að byggðin fengi að standa. „Við vildum búa í venjulegu hverfi en ekki kofaþyrpingu,“ segir Emilio Gondret einn frumbyggjanna. Síðar kom í ljós að landið var í eigu 13 einkaaðila. Samningar tókust við átta þeirra um að ríkið keypti þá út og þeir sem voru svo heppnir að búa á þeim 419 lóðum fengu eignarréttindi sín viðurkennd en hinir 410 eru enn í lausu lofti. Rannsóknin sem The Wall Street Journal er að vitna til ber saman afdrif þessara tveggja hópa. Óháð þeirri aðferð sem notuð var við að setjast að á landinu og öðlast eignarrétt á því er mjög áhugavert að skoða hver afdrif þessara tveggja hópa hafa verið. Það er ótvírætt að eignarréttur, ekki síst ef hann er tryggur, stuðlar að betri umgengni og fær menn til að hugsa lengra fram í tímann. Þeir sem vita ekki hvort þeir verða reknir úr húsum sínum á morgun hafa enga ástæðu til að leggja vinnu og kostnað í bætur á húsnæðinu.

Blaðið segir frá fulltrúum þessara tveggja hópa. Annars vegar Mercedes Almada og hins vegar Valetín Orellana. Almada tilheyrir þeim hópi sem fékk eignarréttindi sín viðurkennd. Fjölskylda hennar hefur gert miklar endurbætur á húsnæði sínu. Það er ekki lengur kofi heldur lítið hús í nýlendustíl með alvöru burðarvirki, vatnsheldu þaki og allir sex fjölskyldumeðlimirnir hafa sitt eigið herbergi. Dóttir hennar lauk framhaldsskóla og sonur hefur lokið tækninámi. Fjölskyldu Valetín Orellana hefur engan veginn vegnað eins vel. Húsnæðið hefur ekki verið bætt á sama hátt og hús nágranna þeirra í Almada fjölskyldunni. Það er sofið í borðstofunni og eldhúsinu. Ekkert barnanna sex hefur komist til mennta.