Laugardagur 12. nóvember 2005

316. tbl. 9. árg.

Ingimundur Sigurpálsson formaður Samtaka atvinnulífsins flutti tímabært erindi á fjármálarástefnu sveitarfélaganna í fyrradag. Sveitarfélögin hafa allt of lengi komist gagnrýnislaust upp með óráðsíu í fjármálum og fáir hafa orðið til að benda á að þau ráði ekki við það hlutverk sem þeim hefur þegar verið fengið, hvað þá að ástæða sé til að flytja til þeirra fleiri verkefni. Í erindi sínu benti Ingimundur á að sveitarfélögin virðist eiga jafnvel enn erfiðara með það en ríkið að standa gegn kröfum um aukna opinbera þjónustu og hann nefndi sem dæmi „vafasöm nýleg yfirboð tiltekinna sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla, á sama tíma og fjárhagsstaðan hefur verið veik“. Það er auðvitað með ólíkindum að sveitarstjórnarmenn skuli ræða um „gjaldfrjálsan“ leikskóla á meðan sveitarfélögin hafa ekki efni á að greiða starfsmönnum leikskólanna laun sem duga til að halda þeim í starfi. Þetta tal um gjaldfrjálsan leikskóla er svo ekkert annað en ávísun á skattahækkun eða skuldasöfnun. Skuldasöfnun er annað orð yfir skattahækkun í framtíðinni, það er að segja á krakkana sem eru á leikskólanum í dag. Sjá menn ekki hvílík öfugmæli það eru að kalla leikskólann gjaldfrjálsan ef það leiðir til hærri skatta, hvort sem er á foreldrana eða börnin sjálf?

Ingimundur sagði að færa mætti fyrir því rök að það væri „beinlínis óæskilegt frá sjónarhorni hagstjórnar að auka vægi sveitarfélaga í þjóðarbúskapnum, ef ekki eru tryggðar leiðir til þess að grípa inn í ákvarðanir sveitarstjórna, sem beinlínis kunna að ganga í berhögg við opinber hagstjórnarmarkmið“. Ábendingar Ingimundar um lausatök sveitarstjórnarmanna á fjármálum sveitarfélaganna eru sérstaklega athyglisverðar í ljósi þess að Ingimundur er sjálfur fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, en hann var fyrir nokkrum árum bæjarstjóri í Garðabæ.

Framundan eru hættulegir tímar fyrir skattgreiðendur, því að nú eru sveitarstjórnarmenn í óða önn að búa sig undir sveitarstjórnarkosningar næsta vor. Margir sveitarstjórnarmenn munu fátt annað hafa fram að færa en hugmyndir um hvernig auka megi útgjöld sveitarfélaganna, svo sem með „gjaldfrjálsum“ leikskóla eða öðrum “ókeypis” gæðum sem þeir munu segjast geta útvegað kjósendum. Mikilvægt er að kjósendur refsi þeim sem lengst ganga í þessa átt og sendi þau skilaboð að þeir ætlist til að sveitarstjórnarmenn einbeiti sér að því að ná tökum á núverandi rekstri en keppist ekki um að koma fram með hugmyndir um ný verkefni og ný útgjöld – sem óhjákvæmilega hafa í för með sér hærri skatta.

Halldór Ásgrímsson tilkynnti miðstjórn Framsóknarflokksins í gær að hann muni ekki neyða bandaríska herinn til að vera á Íslandi gegn vilja sínum. Þetta er mikilvæg yfirlýsing og ætti Bandaríkjamönnum, sem nú standa í ströngu í Írak, að létta mikið, því tilhugsunin um að þurfa að berjast á tvennum vígstöðvum í einu var farin að halda vöku fyrir mörgum þeirra.

Og Íslendingum er auðvitað léttir af því að nú er haldið á varnarmálum þeirra af festu og öryggi í stjórnarráðinu.