Laugardagur 26. nóvember 2005

330. tbl. 9. árg.

F jölmiðlapistlar Ólafs Teits Guðnasonar eru helsta prýði Viðskiptablaðsins og gera kaup og jafnvel áskrift að því meira en réttlætanleg, en pistlarnir eru birtir hvern föstudag. Í pistli sínum í gær kemur Ólafur Teitur víða við og vekur meðal annars athygli á þeirri staðreynd að þó að fjölmiðlar hafi látið töluvert með margar yfirlýsingar Jóns Ólafssonar athafnamanns undanfarna daga, þá hafa þeir allir sem einn látið ógert að fjalla um þá yfirlýsingu hans að hann hefði styrkt R-listann í von um að fá eitthvað fyrir það síðar þegar hann yrði kominn til valda. Og R-listinn úthlutaði Jóni síðan lóð undir kvikmyndahús á síðasta óbyggða reit Laugardalsins og keypti svo, þegar listinn hrökklaðist undan mótmælum með þá úthlutun, af honum svokallaðan Stjörnubíósreit „þar sem var víst mjög brýnt að reisa bílastæðahús“. Ólafur Teitur bendir á að enginn fjölmiðill virðist hafa áhuga á þessu, og séu þeir þó yfirleitt mjög áhugasamir um framlög til stjórnmálaflokka og bókhald þeirra. Ef einhver myndi koma fram og segjast hafa styrkt stjórnmálaflokk í von um að fá eitthvað í staðinn „þá yrði það fyrsta frétt útvarpi og sjónvarpi, forsíðufrétt í öllum blöðum og tilefni að óteljandi viðtölum við sérfræðinga og spekúlanta í Speglinum, Vikulokunum, Kastljósi og Íslandi í dag.“

Hinir vikulegu pistlar Ólafs Teits Guðnasonar eru fullir af ábendingum eins og þessum. Það er full ástæða til þess að vekja athygli allra þeirra, sem áhuga hafa á því hvernig mynd fjölmiðlar gefa af samtímanum, á pistlunum í föstudagsblaði Viðskiptablaðsins og þá einnig því að öllum pistlum síðasta árs var safnað á bók, Fjölmiðla 2004, sem fæst á vægu verði í bóksölu Andríkis, kr. 1750 og er heimsending innifalin.

N ý fjölmiðlakönnun Gallup var birt í vikunni og þar kom meðal annars fram að DV væri með 17,9% meðallestur á tölublað. Þegar horft er til þess hvers konar efni DV býður upp á kemur einhverjum ef til vill á óvart hve mikill lesturinn mælist. Á þessu er þó einföld skýring, sem af einhverjum ástæðum hefur ekki verið haldið mikið fram í fréttum af könnuninni, en hún er sú að blaðinu var dreift frítt í stórum stíl í könnunarvikunni. Heil 8,7% þátttakenda í könnuninni fengu DV frítt þá daga sem hún stóð yfir, en það jafngildir nær helmingi þeirra sem lásu blaðið. Ef þessi frídreifing er dregin frá kemur í ljós að einungis rúm 9% kaupa DV. Það má því segja að fríblöðin séu heldur fleiri en menn hugðu.