Laugardagur 29. október 2005

302. tbl. 9. árg.

Ý msir hafa lengi velt því fyrir sér hvað Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar á við þegar hún talar um mikilvægi umræðustjórnmála og muninn á þeim, sem hún segist stunda, og annars konar stjórnmálum, sem aðrir stundi. Menn hafa ekki skilið hugtakið og í skilningsleysi sínu hafa þeir jafnvel hent gaman að því og talið það til marks um að Ingibjörg Sólrún væri upptekin af innantómri frasapólitík og hefði fátt fram að færa sem nokkru máli skipti. Nú er hins vegar komið í ljós að svo er alls ekki og hugtakið umræðustjórnmál hefur vissulega ákveðna merkingu í munni formanns Samfylkingarinnar.

Merkingin er jafn óvænt og hún er skýr, því að umræðustjórnmál snúast um það að stjórnmálaumræður fari fram á forsendum Ingibjargar Sólrúnar og samkvæmt þeim reglum sem hún býr til um hvernig umræðurnar fari fram. Þannig geta menn ekki lengur búist við að fá að halda hverju sem er fram, heldur aðeins því sem er innan þess ramma sem Ingibjörg Sólrún leyfir. Svigrúmið sem Ingibjörg Sólrún veitir þeim sem vilja taka þátt í stjórnmálaumræðunni fer eftir málaflokkum og verða reglur um umræðurnar gefnar út eftir því sem þörf krefur. Hún hefur nú riðið á vaðið með því að gefa út reglur um hvernig umræður um sjávarútvegsmál skuli fara fram og reglurnar eru eftirfarandi, eins og heyra mátti í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær:

Umræðustjórnmálareglur Ingibjargar Sólrúnar í sjávarútvegsmálum

1. grein
Útgerðarmenn verða að hætta að tala um kvótann sem eign sína.

2. grein
Aðrir verða að hætta að tala um hver græddi á auðlindinni fyrir tuttugu árum.

Eins og sjá má eru þetta sáraeinfaldar reglur sem allir ættu að geta lagað sig að. Sumir verða að vísu hér eftir að halda fram öðrum skoðunum en sínum eigin, en það gerir ekkert til því að stjórnmálaumræðan fer fram á forsendum Ingibjargar Sólrúnar sérfræðings í umræðustjórnmálum og lýðræðisvæðingu, og það er fyrir mestu.