Föstudagur 28. október 2005

301. tbl. 9. árg.
Þorir borgarstjóri að sýna útsvar R-listans á launaseðlum borgarstarfsmanna eins og Kjartan Magnússon borgarfulltrúi hefur lagt til?

K jartan Magnússon borgarfulltrúi lagði í síðustu viku fram tillögu þess efnis í borgarstjórn að Reykjavíkurborg sundurliði staðgreiðslu launþega sinna í tekjuskatt til ríkisins og útsvar til sveitarfélaga. Kjartan leggur til að borgin breyti launaseðlum til starfsmanna sinna þannig að þessar upplýsingar komi fram. Þetta er þarft mál eins og vikið var að í skýrslu Andríkis í byrjun október. Sveitarfélögin hafa verið hækka útsvarið látlaust undanfarin ár á meðan ríkið hefur lækkað sína skattprósentu. R-listinn í Reykjavík hefur til að mynda hækkað útsvarið á borgarbúa í lögbundið hámark í fyrsta sinn. Stór hluti launþega greiðir meira í útsvar til sveitarfélags en tekjuskatt til ríkisins. Það á við um alla launþega með undir 250 þúsund krónur í mánaðarlaun. Sjálfsagt má búast við að ýmsir sveitarstjórnarmenn þybbist við tillögu eins og þessari frá Kjartani Magnússyni. Það er R-listanum í Reykjavík auðvitað ekki í hag að launþegar sjái það svart á hvítu um hver mánaðamót hvað Reykjavíkurborg hirðir stóran hluta af launum þeirra.

Kjartan fylgdi tillögunni meðal annars úr hlaði með eftirfarandi orðum:

Afdreginn skattur er dreginn af í einni upphæð og er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því að í raun er honum skipt á milli tveggja stjórnsýslustiga, ríkis og sveitarfélaga. Ekki ætti að vera erfiðleikum bundið að sýna fram á það á launaseðlinum hve stór hluti skatts viðkomandi launamanns renni til ríkisins í formi tekjuskatts, og til sveitarfélags í formi útsvars.

Það kom Vefþjóðviljanum ekki mjög á óvart að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri taldi ýmsa tæknilega annmarka á því að auka gegnsæi í skattheimtu með þessum hætti. Steinunn er í Samfylkingunni þar sem mikið er talað um rétt stjórnmálamanna, fjölmiðla og almennings til upplýsinga um ýmis mál en þegar kemur að einföldum upplýsingum til borgaranna um skattana sem þeir greiða þá er allt voða erfitt og flókið.

Tillögu Kjartans var hins vegar vísað til borgarráðs og verður áhugavert fyrir útsvarsgreiðendur í Reykjavík að fylgjast með afdrifum hennar þar og þar með hvort R-listinn þorir að sýna starfsmönnum borgarinnar hvað borgin tekur í útsvar af laununum sem hún greiðir þeim.