Fimmtudagur 27. október 2005

300. tbl. 9. árg.

Á

Kostnaðaraukning vegna fæðingarorlofslaganna fór 2,7 milljarða króna fram úr áætlunum eða 180%. Allir stjórnmálaflokkarnir studdu lögin og það þýðir að enginn segir bofs.

síðustu vikum fluttu nokkrir fjölmiðlar miklar fréttir um eftirlaunarétt fyrrverandi alþingismanna og ráðherra og þá ekki síst þá gömlu reglu, að þeir, eins og aðrir fyrrverandi opinberir starfsmenn geta fengið eftirlaunagreiðslur þó að þeir kunni hugsanlega að fá aðra launavinnu eftir að þingmennsku eða ráðherradómi lýkur. Mátti á sumum fréttum skilja, eða misskilja öllu heldur, að þessar reglur tengdust nýjustu breytingunni sem gerð var á lögum um þetta efni, lögum sem fréttamenn kjósa af einhverjum sérstökum ástæðum jafnan að kalla „eftirlaunafrumvarp“, þó það sé vitanlega ekki frumvarp heldur lög. En hvað með það. Á dögunum tók fyrrverandi ráðherra við embætti seðlabankastjóra og í aðdraganda þess höfðu ónefndir fjölmiðlar uppi tölur um eftirlaunin sem hann gæti farið fram á, ofan á bankastjóralaunin. Þegar Ríkisútvarpið ræddi við nýja bankastjórann í tilefni fyrsta vinnudags hans, þá kom fram hjá honum að hann hefði engar eftirlaunakröfur gert og myndi ekki gera. Væri það raunar í samræmi við fyrri venju hans, en hann hefði ekki heldur þegið biðlaun, sem hann átti rétt á, þegar hann fyrir fjórtán árum lét af starfi borgarstjóra í Reykjavík og gerðist forsætisráðherra.

En þá bar svo undarlega við, að þeir fjölmiðlar sem mestan áhuga höfðu sýnt á eftirlaunamálum höfðu engan áhuga á að gera frétt um þetta. Og auðvitað hafa engir útreikningar verið gerðir á því hversu háar upphæðir það eru sem bankastjórinn nýi lætur ógert að taka við.

Annað hafa menn hins vegar rætt sem tengist eftirlaunamálum og er að kostnaður við eftirlaunalögin sé hærri en gert hafi verið ráð fyrir þegar lögin voru samþykkt. Og það er mjög gott að frá slíku sé sagt í fréttum. En það er engu að síður skemmtilegt að horfa til þess hvaða framúrkeyrsla stjórnmála- og fréttamönnum þykir áhugaverð og hvaða framúrkeyrslu má aldrei nefna. Af hverju dettur engum fjölmiðlamanni í hug að fara yfir það hversu mörg þúsund milljónum króna lög um fæðingarorlof fara á hverju einasta ári fram úr því sem talað var um, þegar þau voru samþykkt með hraði á Alþingi? Með slíkum hraði að það mátti ekki einu sinni leita umsagna um frumvarpið til þeirra. Af hverju er margra milljarða framúrkeyrsla þessara rétttrúnaðarlaga aldrei rædd og ekkert gert af viti til þess að koma böndum á hana?

Alþingismenn vildu alls ekki leita umsagnar um fæðingarorlofslagafrumvarpið sem keyrt var í gegnum þingið og kostar skattgreiðendur meira en flest annað. En nokkrar umsagnir og athugasemdir bárust allt að einu, þó auðvitað hafi ekki verið hlustað á þær. Andríki tók saman litla skýrslu og nefndi þar meðal annars að væntanleg lög byðu upp á ótrúlega möguleika á misnotkun. Og misnotkun velferðarkerfisins tekur alltaf á sig nýjar og nýjar myndir. Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins skrifar Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, grein sem enginn fréttamaður vitnar í, enda þykir þeim ekki fréttnæmt að formaður Læknafélags Íslands haldi því fram á prenti að verið sé að misnota kerfið og það „með þátttöku lækna“. Í grein sinni segir Sigurbjörn meðal annars:

Mér brá fyrir nokkrum misserum þegar skjólstæðingur minn, vanfær, fór þess á leit við mig að ég gæfi út vottorð fyrir hana um veikindi á meðgöngunni. Þetta hefði auðvitað verið sjálfsagt mál, ef ástæðurnar hefðu ekki verið annars vegar þær að hætta vinnu nokkrum vikum fyrir fæðingu og hins vegar að skerða ekki fæðingarorlofið við þá ráðstöfun. Þessari beiðni fylgdi svo sú röksemd að þetta væri bara viðtekin venja, „þetta gerðu allar konur“. Ég hafnaði þessari beiðni með þeim orðum að viðkomandi væri fullfrísk, meðgangan hefði verið alveg eðlileg. Ég gæti hins vegar alveg tekið undir það að það gæti verið heppilegt að byrja í orlofi nokkrum vikum fyrr til hvíldar og undirbúnings. Það væri að mínu mati eðlilegur hluti fæðingarorlofsins og ekki veikindi. Þegar tilvik af þessu tagi endurtóku sig nokkrum sinnum tók ég málið upp við ljósmæður sem ég vinn með. Staðfestu þær að þetta ráðslag væri orðið almennt, en voru sömu skoðunar og ég að um misnotkun á veikindarétti og fæðingarorlofi væri að ræða. Til þess að staðreyna þessa fullyrðingu að „þetta gerðu allar konur“ leitaði ég í gagnabanka um fæðingarorlof og veikindi hjá stóru fyrirtæki hér í borg, þar sem almenningi er veitt þjónusta en lítið um erfiðisvinnu. Á tilteknu tímabili höfðu 54 konur sem unnu hjá fyrirtækinu fengið fæðingarorlof. Af þessum hópi höfðu 49 konur lagt fram læknisvottorð um veikindi fyrir fæðinguna. Veikindin runnu saman við fæðingarorlofið sem þá hófst með fæðingunni. Í mörgum tilvikum hófust veikindin með skertri vinnugetu sem síðan endaði með fullkominni óvinnufærni. Einungis fimm konur af 54 voru við eðlilega heilsu á meðgöngunni og fóru beint úr starfi í fæðingarorlof.

Og grein sinni lýkur formaður Læknafélags Íslands með þessum orðum, sem margir hljóta að geta tekið undir:

 Það er ekki rétt að læknisvottorð um veikindi séu notuð til að miðla félagslegum gæðum sem samfélagið hefur ekki tekið ákvörðun um að í boði séu.