Miðvikudagur 26. október 2005

299. tbl. 9. árg.
Hvað gengur mönnum til með tröllasögum af kynbundnum launmun?

Er allt leyfilegt í þágu góðs málstaðar, til dæmis að blekkja með tölfræði? Þessarar spurningar hljóta allir að spyrja sig eftir að hafa fylgst með kynningu á útifundi síðastliðinn mánudag og eftir að hafa orðið vitni að áróðri sem rekinn var í tengslum við þennan útifund. Málstaðurinn, að ekki væri gott að mismuna fólki, var út af fyrir sig ágætur, en tölfræðin sem boðið var upp á var fyrir neðan allar hellur. Konur voru hvattar til að leggja niður vinnu klukkan 14:08 enda hefðu þær þá unnið fyrir launum sínum. Röksemdin var sú að þá væru liðin 64,15% af vinnutímanum, sem væri frá 9:00 til 17:00, og þetta væri hlutfall tekna kvenna af tekjum karla.

Að nota töluna 64,15% í þessu samhengi er í besta falli rangfærsla en í raun hrein ósannindi. Ósannindin sjást ágætlega á því að í útvarpsviðtali á mánudag sagði kona nokkur frá því að hún hefði fyrir helgina sagt við dóttur sína á unglingsaldri að eftir helgina ætti hún að koma með sér í bæinn á útifund vegna kvennafrídagsins svokallaða. Konan sagði að dóttirin hefði tekið þessu illa, en þá hefði hún sest niður með henni og spurt hana hvort hún vildi að í framtíðinni hefði hún aðeins 64,15% af launum strákanna í bekknum hennar. Við þetta hafi dóttirin ákveðið að bregða sér í bæinn og mótmæla. Enginn vafi er á því að fleiri en þessi dóttir hafa látið blekkjast af þessari tölu, 64,15%, og talið að í henni fælust einmitt þau skilaboð sem móðirin hélt fram, að konur gætu búist við að fá aðeins þetta hlutfall af launum karla fyrir sambærileg störf. Auðvitað sjá allir sem velta málinu fyrir sér að þetta er tóm endaleysa því að inn í dæmið vantar allar nauðsynlegar forsendur – jafnvel sjálfan vinnutímann – til að hægt sé að bera launin saman, en samt er talan notuð vegna þess að hún er sláandi og hljómar vel í áróðrinum.

Hvort hinn svokallaði kynbundni launamunur er í raun og veru til staðar veit enginn, en ýmsar misjafnlega vel rökstuddar ágiskanir hafa verið settar fram um að hann sé allt frá því að vera lítill sem enginn og upp í að vera um 18%. Á bak við þessar tölur eru misjafnir hópar og mismiklar leiðréttingar vegna atriða á borð við vinnutíma, menntun, starfssvið, atvinnugrein, aldur, starfsaldur, mannaforráð og svo framvegis. Þannig sýndi nýjasta kjarakönnun viðskipta- og hagfræðinga að karlar hefðu 29,6% hærri heildarlaun en konur, en þegar tillit hefði verið tekið til nokkurra þátta væri kynbundinn launamunur 7,6%. Konur í þessum hópi eru þá með 93% af launum karla en ekki 64,15%. Hætt er við að erfiðara hefði verið að boða til baráttufundar á þeim forsendum að launamunurinn væri lítill og að konur ættu að yfirgefa vinnustaðinn klukkan 16:26. Sennilega er það þess vegna sem skipuleggjendur útifundarins ákváðu að draga fram ranga mynd af meintum launamun kynjanna.