Þriðjudagur 25. október 2005

298. tbl. 9. árg.

Einkavæðing Landssímans gekk á dögunum til baka að örlitlu leyti. Landssími Íslands hf. seldi Íslandspósti hf. skeytaþjónustu þá sem símafyrirtækið hefur sinnt frá því að fyrirtækin voru aðskilin árið 1998. Það er auðvitað ekkert við það að athuga að nýir eigendur Landssímans losi sig við þá starfsemi sem óhagkvæm er eða á illa heima innan fyrirtækisins. Landssíminn í ríkiseigu hafði gríðarlega tilhneigingu til að fara inn á ýmis svið fjarskiptageirans með alls kyns svokallaðri stoðstarfsemi. Fyrir utanaðkomandi var skipulag fyrirtækisins völundarhúsi líkast. Tiltektin sem nú fer í hönd hjá fyrirtækinu ætti því ekki að koma á óvart og ekki er hægt að álasa Landssímamönnum fyrir að fara þá leið sem trúlega var einföldust og þægilegust fyrir þá; að selja ríkinu aftur það sem það er tilbúið til að kaupa. Líklega fer einnig vel á því að þeir sem sérhæfa sig í að bera út bréf bjóði þessa þjónustu.

Viðskipti Landssímans og ríkisins nú um skeytaþjónustuna leiða hugann hins vegar að stöðu ríkisins í samskiptabransanum. Eftir árangursríka sölu á Landssímanum stendur hlutafélagið Íslandspóstur eftir sem enginn virðist hafa áhuga á að koma úr höndum ríkisins. Ekki er hægt að kenna um skorti á samkeppni á þeim markaði sem fyrirtækið starfar og því síður því að þjónustan sem það veitir sé þess eðlis að varasamt sé að reiða sig á einkafyrirtæki einvörðungu. Áhugaleysi um einkavæðingu póstþjónustunnar má hins vegar kannski rekja til þess að ýmsir standa í þeirri trú að fyrirtækið Íslandspóstur hf. sé þegar orðið einkafyrirtæki og reglulega má lesa fullyrðingar þess efnis í dagblöðum. Og skyldi engan furða. Nafnbótin hf. á alla jafna að vísa til þess að margir, en alls ekki einn aðili, komi að því hlutafé sem stendur að fyrirtækinu. Þá er öll markaðssetning fyrirtækisins til fyrirmyndar og væri hvaða grúppufyrirtæki til sóma. Úr því að ýmsir bréfritarar í dagblöðunum fussa nú þegar og sveia yfir lélegri þjónustu póstsins og fækkun útibúa „eftir að pósturinn var einkavæddur“ eins og það er orðað, hvað er þá til fyrirstöðu að hefjast handa við einkavæðingu póstsins?