Mánudagur 24. október 2005

297. tbl. 9. árg.

Íslenskir femínistar vinna marga sigra. Fyrir áratug, í september 1995, gerðu þeir nokkrir mikla frægðarför til Kína, en þar var haldin alþjóðleg kvennaráðstefna eins og skiljanlegt var. Meðal þeirra sem þangað fór var Kristín Ástgeirsdóttir, þingmaður Kvennalistans. Í síðustu viku stóð „Rannsókarstofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands“, sem Kristín stýrir, fyrir ráðstefnu af þessu tilefni, en yfirskriftin, „Konur í hnattrænum heimi – Peking áratug áleiðis“ bendir til þess að ráðstefnan hafi verið afar brýn og óskandi að hún beri mikinn árangur.

Á þessari ráðstefnu mun ekki síst hafa átt að horfa til baka til sigurfararinnar til Peking og þar sem í dag er mikill baráttudagur femínista þá vill Vefþjóðviljinn taka þátt í upprifjuninni. Meðal þeirra sem árið 1995 fjölluðu um ferð Kristínar til Peking var Magnús Óskarsson hæstaréttarlögmaður, sem skrifaði um hana eina af sínum smágreinum í Morgunblaðið. Hún hljómaði svo:

Kristín í Kína

Dapurleg framhaldssaga í fréttaformi hefur að undanförnu birzt í DV. Hún byrjaði svo sem nógu vel. Í fyrirsögn á baksíðu var frá því greint að Kristín Ástgeirsdóttir, þingmaður Kvennalistans, væri á förum til Kína þeirra erinda „að lesa Kínverjum pistilinn“. Fór ekki á milli mála að ásetningur þingmannsins var að segja nú fjórðungi mannkynsins rækilega til syndanna og siða hann til. DV taldi vitaskuld skylt að fylgjast með því þegar pistill Kristínar yrði lesinn upphátt í Kína. Hefur blaðið hringt þangað reglulega til þess að missa ekki af lestrinum. En með hverju símtali dofnaði yfir þingmanninum.

Stór fyrirsögn birtist einn daginn í DV svohljóðandi: „Reynum að fá fund með ráðamönnum , segir Kristín Ástgeirsdóttir.“ Í frétt sem fylgir kveðst þingmaðurinn ekki hafa „fengið tækifæri til að lesa Kínverjum pistilinn“, en er sem sagt að reyna að fá fund. Næsta Kínafrétt DV bar fyrirsögnina: „Kristín Ástgeirsdóttir: Vonlítil um að fá fund.“ Í fréttinni segist Kristín vera „orðin ansi vonlítil að fá tækifæri til að tala við þá“ (Kínverjana). Að vísu segist hún „vonast til að tækifærið gefist á laugardaginn þegar ráðstefnugestir streyma burt.“

Enn hafa ekki borizt fréttir af því hvernig Kristínu gekk að lesa pistil sinn á meðan ráðstefnugestirnir streymdu burt. Ef það hefur gengið illa, sem von er við slíkar aðstæður, væri fróðlegt að vita hvort Kristín hefur lesið pistilinn eftir að allir voru farnir og þá hvar, eða hvort hún kemur með hann ólesinn heim. Væri þá illa farið með góðan pistil.

Og með þessari upprifjun er lokið þátttöku Vefþjóðviljans í baráttudegi kvenna að þessu sinni.