Fyrr en síðar verða öll opinber kerfi vel skipulögðum sérhagsmunahópum að bráð. Það á auðvitað jafnt við um velferðarkerfi sem landbúnaðarkerfi, jafnt félagsmálaráðuneyti sem landbúnaðarráðuneyti.
Hin sígildu viðhorf til velferðarkerfisins á Íslandi eiga tvímælalaust undir högg að sækja um þessar mundir. Hin gömlu góðu gildi, um að velferðarkerfið eigi að vera einfalt og ódýrt í rekstri og miðast við að hjálpa þeim sem geta ekki hjálpað sér sjálfir, eru á hröðu undanhaldi. Flóttann reka ýmsir hagsmunahópar sem hafa einsett sér að sölsa velferðarkerfið undir sig í þeim tilgangi að knýja á um breytingar á þjóðfélaginu sem koma velferð og mannúð ekkert við.
„Hvaðan kemur þessi hugmynd eiginlega að velferðarkerfið eigi sérstaklega að hlaupa undir bagga með hátekjumönnum? Jú hún kemur frá háskólamenntuðum og í flestum tilfellum vel launuðum starfsmönnum velferðarkerfisins, stéttarfélaga og stjórnmálaflokka. Þetta lið er að hertaka velferðarkerfið og ætlar að laga það að sínum þörfum.“ |
Í Morgunblaðinu í dag er til að mynda frétt um hugmyndir þess efnis að tekjutengja atvinnuleysisbætur. Haft er eftir Árna Magnússyni félagsmálaráðherra að í nefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um endurskoðun atvinnuleysisbótakerfisins hafi menn verið að skoða „…hugmyndir um einhverja tengingu bóta við laun.“ Og hér er kannski rétt að taka fram að menn eru ekki að tala um að tengja þessar bætur við laun í öfugu hlutfalli eins og tíðkast hefur um flestar bætur fram til þessa þannig að hinir lakast settu beri mest úr býtum. Ó, nei, hér eru menn að velta því fyrir sér að þeir sem hafa haft hæst launin fái hæstu bæturnar ef þeir missa vinnuna.
Nú má það vel vera að almennt hafi þeir sem hafa há laun skuldbundið sig til að greiða hærri fjárhæðir í afborganir af húsnæði, bílum, sumarbústöðum og fleiru sem hugurinn girnist og gott er að veita sér ef efni standa til. Það kann því að vera stórt bil á milli reglulegra útgjalda hátekjufólks og þeirra atvinnuleysisbóta sem öllum atvinnulausum eru greiddar í dag. Það breytir því hins vegar ekki að það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til hátekjumanna að þeir hafi borð fyrir báru og geri ráð fyrir þeim möguleika að lífið sé ekki alltaf dans á rósum. Hátekjumaður á væntanlega einnig auðveldara með að safna sparifé og varasjóðum en láglaunamaðurinn. Liggur það ekki líka í augum uppi að það er auðveldara fyrir mann með mikið umleikis í veraldlegum gæðum að draga saman og selja eitthvað af draslinu, bústaðinn, þriðja bílinn og hesthúsið, en fyrir láglaunamann sem hefur alla tíð sett allar sínar tekjur í helstu nauðþurftir?
Hvaðan kemur þessi hugmynd eiginlega að velferðarkerfið eigi sérstaklega að hlaupa undir bagga með hátekjumönnum? Jú hún kemur frá háskólamenntuðum og í flestum tilfellum vel launuðum starfsmönnum velferðarkerfisins, stéttarfélaga og stjórnmálaflokka. Þetta lið er að hertaka velferðarkerfið og ætlar að laga það að sínum þörfum.
Fyrsta orrustan sem þessi hópur hafði algeran sigur í var innleiðing fæðingarorlofs með tekjutengingu árið 2000. Því hærri laun sem menn hafa því hærri styrkja njóta þeir frá Tryggingastofnun ríkisins á meðan fæðingarorlofi stendur. Upphaflega var ekkert þak á þessum greiðslum sem þýddi að hátekjumenn gátu haft milljónir króna á mánuði í bætur. Þetta kerfi var lofað sem mikið framfaraspor og naut stuðnings allra stjórnmálaflokka og forustumanna stéttarfélaga. Allar áætlanir um kostnað af kerfinu reyndust tómt rugl og kostnaðaraukinn fór 180% fram úr því sem fjármálaráðuneytið hafði gert ráð fyrir. Til að mæta þessu áfalli og forða fæðingarorlofssjóði frá gjaldþroti var meðal annars brugðið á það ráð að hækka tryggingagjald en það er einn af þessum lítt sýnilegu sköttum og leggst á launagreiðslur.
Þótt fylgismenn kerfisins teldu það algera grunnforsendu að ekkert þak væri á greiðslunum var engu að síður sett þak á mánaðarlegar greiðslur úr sjóðnum við 480 þúsund krónur. Þetta þak hefur lítil áhrif haft á kostnaðinn en upphæð þess tryggir að þingmenn, efra lag ráðuneytisstarfsmanna og helstu sérfræðingar og forsvarsmenn stéttarfélaga missa einskis í „réttindum“ sínum til fjármuna annarra þegar farið er í fæðingarorlof.
Með fæðingarorlofinu ákváðu allir stjórnmálaflokkar og verkalýðshreyfingin að gera þá grundvallarbreytingu á velferðarkerfinu að það væri ekki aðeins fyrir þá sem höllum fæti standa heldur mætti jafnframt nota það til að veita fullfrísku fólki í góðum efnum hærri félagslegar bætur en nokkur sem raunverulega hefur þarfnast aðstoðar hefur nokkru sinni fengið.
Þessi breyting á afstöðu til velferðarkerfisins sem viðurkennd var með fæðingarorlofinu hefur þannig opnað fyrir áður óþekktar kröfur um félagslega aðstoð við fullfrískt fólk. Nýjustu kröfur um hærri atvinnuleysisbætur til efnamesta fólksins eru angi af þeim meiði.