Laugardagur 22. október 2005

295. tbl. 9. árg.

A lþingi er vettvangur fyrir – ja nánast hvað sem er. Þannig bíður nú svars á Alþingi áríðandi fyrirspurn frá Jóni Bjarnasyni þingmanni vinstri grænna til viðskiptaráðherra um símsvörun. Fyrirspurnin hljóðar svo: „Hafa verið settar eða kemur til álita að setja þjónustukvaðir á fyrirtæki eða þjónustuaðila með almannaskyldur eða ráðandi markaðshlutdeild þar sem kveðið yrði á um hámarksbiðtíma eftir svörun í þjónustusíma?“ Það er mikil gæfa Íslendinga að menn með jafn brýn erindi skuli ná kjöri á hið háa Alþingi, því að ekki væri gott ef þar sætu inni á milli menn sem hefðu fátt gagnlegt til mála að leggja og sóuðu tíma þingsins í einskisverða hluti. Og ekki væri gott ef jafn önnum kafnir menn lentu í því að þurfa að bíða á línunni hjá fyrirtæki með ráðandi markaðshlutdeild eða þjónustuaðila með almannaskyldur. Megi viðskiptaráðherra forða landsmönnum frá því.

Annað ekki síðra framlag þingmanna sama flokks, Ögmundar Jónassonar, Hlyns Hallssonar, Kolbrúnar Halldórsdóttur og Steingríms J. Sigfússonar, er nú til umræðu á Alþingi, en það er frumvarp um hækkun fjármagnstekjuskatts úr 10% í 18%. Í greinargerð með frumvarpinu má sjá að flutningsmenn gera ráð fyrir að með þessari hækkun sé unnt að auka skatttekjur ríkissjóðs vegna fjármagnstekna um 40%. Þetta hljómar auðvitað voða vel í eyrum þeirra sem álíta það jákvætt að ríkið auki tekjur sínar á kostnað skattgreiðenda, en jafnvel þeir ættu þó að gjalda varhug við þessu frumvarpi fjórmenninganna. Því fer nefnilega fjarri að hægt sé að hækka skatthlutföll eftir geðþótta vinstri sinnaðra alþingismanna og fá með því hærri skatttekjur fyrir ríkið. Fjármagnstekjuskattur og skattur af hagnaði fyrirtækja hefur skilað auknum tekjum á síðustu árum vegna þess að hann hefur farið lækkandi og verið hóflegur. Fái vinstri grænir að ráða og skatturinn verði í framhaldi af því óhóflegur munu fjármunir leita annað og hagnaður fyrirtækja hverfur þá jafn hratt og hann hefur myndast. Fjármagnseigendur og fyrirtæki greiða ekki skatta óháð því hvert skatthlutfallið er. Með hærra skatthlutfalli væru umtalsverðar líkur á því að fjármagnið leitaði annað, atvinnulífið yrði máttlausara og skatttekjurnar drægjust saman.

En það eru ekki öll þingmál jafn vitlaus og mál þingmanna vinstri grænna. Á Alþingi er til að mynda verið að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt frá Sigurði Kára Kristjánssyni og nokkrum öðrum þingmönnum. Frumvarpið var einnig lagt fram á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Verði það að lögum nú mun sá hvimleiði siður að birta og leggja fram álagningar- og skattskrár landsmanna leggjast af. Þessi ógeðfellda upplýsingagjöf ríkisins um einkamál almennings hefur tíðkast allt of lengi með tilheyrandi slúðri og óþægindum fyrir fjölda manna.