Föstudagur 21. október 2005

294. tbl. 9. árg.

Það prentaða lesefni sem fólki býðst hefur stóraukist á síðustu árum. Mest ber sennilega á þeirri breytingu að inn á fjölmörg heimili er nú farið að bera dagblöð, viðtakandanum að kostnaðarlausu og án tillits til þess hvort hann hefur óskað eftir slíkum útburði eða ekki. Samkvæmt könnunum lesa margir þessi blöð og þá benda kannanir ekki til þess að lestur Morgunblaðsins, vinsælasta áskriftarblaðsins, hafi minnkað að neinu ráði. En þó þessi þróun hafi orðið, þá er ekki þar með sagt að allar lestrarþarfir séu uppfylltar og margir eru þeir sem telja þörf á prentmiðli sem horfir á mál frá öðrum sjónarhorni en tíðkast í dagblöðunum, hvort sem átt er við hefðbundin áskriftarblöð eða hin nýju frídreifingarblöð. Fyrir þennan hóp, eða að minnsta kosti hluta hans, hefur nú verið efnt til útgáfu nýs tímarits. Nefnist það Þjóðmál og er í ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar rithöfundar, sem kunnur er af ýmsum ritstörfum sínum, bæði bókum og reglulegum blaðapistlum, sem raunar hafa einnig komið út á bók.

Þjóðmálum er ætlað að koma út fjórum sinnum á ári og í fyrsta heftinu lýsir Jakob erindi tímaritsins svo að hann ætli því að flytja „vel skrifaðar og ígrundaðar greinar þar sem ýmislegt í stjórnmálum og þjóðlífinu almennt er tekið til skoðunar án undirgefni við margvíslegan rétttrúnað sem tröllríður okkar litla samfélagi. Tímaritinu Þjóðmálum er ætlað að verða vettvangur fyrir frjálshuga fólk sem er orðið þreytt á yfirborðslegri og einhliða fjölmiðlun um stjórnmál og menningu. Ritstjórnarstefnu Þjóðmála er að öðru leyti best lýst með orðunum: frelsi og hæfilegt íhald.“ Í fyrsta heftinu kennir ýmissa grasa, bæði um stjórnmál og menningu og má gera ráð fyrir að margir geti fundið þar eitt og annað sem þeim þykir áhugavert og hafa saknað í öðrum fjölmiðlum. En þó ritstjórinn boði frelsi og hæfilegt íhald þá skrifa í tímarit hans ýmsir sem seint verða taldir frelsismegin við miðju í stjórnmálum. Þannig má sérstaklega nefna, að Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og ritari Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, skrifar grein um stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar, og hin athyglisverða bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2004, er í blaðinu dæmd af Þorbirni Broddasyni, en eins og menn vita er prófessor Þorbjörn fjarri því að vera pólitískur skoðanabróðir Ólafs Teits, en Þorbjörn er til dæmis fyrrverandi borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Dómur Þorbjörns um bókina er hins vegar að mati Vefþjóðviljans öfgalaus og sanngjarn, en Þorbjörn telur bók Ólafs Teits óvenjulega og skemmtilega, marga „úrskurði“ hans afbragðsgóða og bókina eiga „erindi við allt áhugafólk um bætta fjölmiðlun.“ Af öðru efni tímaritsins sem sætir tíðindum má nefna að Jóhannes Nordal ritar grein um sögu stjórnarráðs Íslands, en hann hefur vitanlega haft af því náin kynni um áratugaskeið og kynnst því úr návígi sem fáum bauðst.

Bóksala Andríkis býður nú til sölu ársáskrift að Þjóðmálum og eru fjögur hefti þar seld á kr. 3.500 og er heimsending innifalin. Fyrsta heftið er 100 blaðsíður að stærð og vitanlega kilja.

Fyrst minnst er á bóksölu Andríkis þá er kannski við hæfi að minna á þær bækur sem þar eru til sölu á vægu verði. Í Kommúnismanum er hryllingssaga þeirrar stjórnmálastefnu rakin, allt frá öndverðu og fram á okkar daga. Í Hinu sanna ástandi heimsins er farið yfir helstu spádóma um umhverfismál og sýnt hvernig þeir hafa eyðst hraðar en ósonlagið. Í Fjölmiðum 2004 eru birtir allir hinir umtöluðu fjölmiðlapistlar Ólafs Teits Guðnasonar á síðasta ári. Í Auðfræði er endurprentað fyrsta hagfræðiritið á íslensku. Frá mínum bæjardyrum séð birtir úrval dagblaðapistla Jakobs F. Ásgeirssonar. Hannes Hafstein er stytt útgáfa hinnar frægu ævisögu skáldsins og ráðherrans, eftir Kristján Albertsson. Í Moskvulínunni segir prófessor Arnór Hannibalsson áhrifamikla sögu samskipta íslenskra sósíalista við kommúnistastjórnina í Sovétríkjunum og fjallar sérstaklega um Halldór Laxness og Sovétríkin. Í Lögunum fjallar Fréderic Bastiat um hlutverk laganna í þjóðlífinu, hvort þeim sé eingöngu ætlað að hindra óréttlæti eða hvort þau eigi líka að deila út réttlæti. Í hita kalda stríðsins birtir úrval úr greinum og ritgerðum Björns Bjarnasonar en fáir hafa fjallað af meiri þekkingu um íslensk öryggismál en hann. Allar þessar bækur fást sendar heim á góðum kjörum í bóksölunni og ættu þær allar að geta höfðað til áhugafólks um íslensk þjóðmál og menningu.