Mánudagur 17. október 2005

290. tbl. 9. árg.

Álandsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina voru samþykktar ýmsar ályktanir, eins og jafnan er gert. Sumar þeirra vekja meiri athygli en aðrar, eins og við er að búast. Eitt af því sem vekur athygli, er sú niðurstaða fundarins að óhjákvæmilegt sé að ákvæði 26. greinar stjórnarskrárinnar um lagasynjunarvald forseta verði fellt úr gildi. Um það ákvæði er margt að segja, en hér verður látið nægja að minna á þá skoðun að stjórnarskrána beri að túlka svo að það sé ekki forsetinn persónulega, heldur ráðherrann, sem fari með synjunarvald forseta eins og önnur „völd“ sem stjórnarskráin segir að forseti fari með. Þessi skoðun kemur vitaskuld hvorki svonefndum fjölmiðlalögum né „synjun“ Ólafs Ragnars Grímssonar á þeim við. Þessi sjónarmið voru til dæmis rakin hér löngu áður en nokkurt fjölmiðlafrumvarp var lagt fram og þá auðvitað löngu áður en Ólafur Ragnar Grímsson tók sér það vald að synja lögunum staðfestingar.

Sömu sjónarmið hafa auðvitað komið frá öðrum og má geta þess að fyrir fimm árum vitnaði Vefþjóðviljinn til greinar sem Þór Vilhjálmsson fyrrverandi hæstaréttardómari og lagaprófessor hafði skrifað um sama efni árið 1994 – og það var í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur, ef einhver skyldi nú vilja bjóða enn upp á þann málflutning að sjónarmið manna um þessi mál kunni að helgast af lítilli trú þeirra á Ólafi Ragnari Grímssyni. Þegar Þór færði fram rök sín fyrir því að forsetinn hefði ekkert persónulegt synjunarvald, þá var ekki einu sinni Einar Karl Haraldsson búinn að fá þá hugmynd að Ólafur Ragnar byði sig fram til forseta. En eins og Einar Karl hefur sagt frá opinberlega, þá var hugmyndin með framboðinu ekki sú að Ólafur næði kjöri heldur væri framboðið „góð leið til að halda saman því fólki sem hafði áhuga á að sameina vinstri menn. Við litum svo á að Ólafur Ragnar hlyti að verða einn af burðarásunum í þeirri framtíðarsýn. Og sjálfur leit hann á það sem sitt hlutverk.“

Landsfundurinn ályktaði sem sagt að óhjákvæmilegt væri að afnema þetta synjunarvald forseta. Því var svo bætt við að eðlilegt væri að kanna möguleika á því að setja reglur um hugsanlegar þjóðaratkvæðagreiðslur um tiltekin mál. Þetta hljómar ágætlega og ekki útilokað að finna megi skynsamlega og hóflega útfærslu á þessari hugmynd þótt Vefþjóðviljinn hafi sínar efasemdir nú sem fyrr. Ef fólk ætti reglulega að greiða atkvæði um alls kyns mál, þá yrðu þeir, sem ekki hefðu tök á að leggjast yfir öll deilumál, að byggja skoðun sína á skyndiathugun á þeim sjónarmiðum sem hæst hefði borið í umræðunni síðustu daga og vikur fyrir kosningar. Og hverjir ætli hafi nú mestu tækifærin til að hafa áhrif á slíka umræðu? Það eru upphlaupastjórnmálamenn, áróðursmiðlar, krossferðablaðamenn og dálkahöfundar. Og hverjir eru aftur áköfustu talsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu um ólíklegustu mál?