Helgarsprokið 16. október 2005

289. tbl. 9. árg.
Mynstrið ruglast og maður er ekki lengur gott skáld.
– Þórarinn Eldjárn, 1986.

Árið 1986 var kosið til borgarstjórnar Reykjavíkur og leiðtogar vinstrimanna, einkum þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson reyndu allt til að knésetja meirihluta sjálfstæðismanna, sem borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson, fór fyrir. Réðust þau að sínum hætti mjög persónulega að borgarstjóranum og reyndu að láta kosningarnar snúast um það. Bar það þá til að nokkrir þjóðkunnir listamenn skrifuðu undir yfirlýsingu sem birt var í Morgunblaðinu þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við Davíð. Og það var eins og við manninn mælt. Vinstrimenn gengu af göflunum. Æði þeirra var slíkt að það var sérstaklega rætt í útvarpsþætti Hallgríms Thorsteinssonar nokkrum dögum eftir kosningarnar. Hallgrímur sagðist hafa heyrt „aldeilis hrikalegan munnsöfnuð“ notaðan um þetta listafólk og ræddi í þættinum við einn þeirra sem skrifað hafði undir umrædda yfirlýsingu, Þórarin Eldjárn rithöfund. Þórarinn sagði að margir hefðu haft samband við sig vegna yfirlýsingarinnar og væri það yfirleitt fólk í tengslum við Alþýðubandalagið og væri það sammerkt með öllu þessu fólki að það teldi sig hafa að minnsta kosti jafnmikinn ef ekki meiri ráðstöfunarrétt yfir atkvæði hans en hann sjálfur. Þórarinn sagði að hann og fleiri sem skrifað höfðu undir stuðning við Davíð Oddsson, hefðu orðið varir við það að yfir þeim væri einhvers konar eignarréttur og hefði hann meðal annars verið spurður að því hvað hann hefði fengið borgað fyrir stuðninginn. Orðrétt sagði Þórarinn Eldjárn:

Þetta fólk getur ekki hugsað sér, að maður taki afstöðu út af neinu öðru en að maður fái eitthvað fyrir. Og um leið er það gefið upp, hver er valútan sem það lætur í staðinn. Það er til dæmis hylli og það er skrifað vel um mann og það er sagt að maður sé gott skáld. Munstrið ruglast, og þá er maður það ekki lengur.

Þetta var fyrir 19 árum. Þess er sennilega ekki að vænta, þegar sjálfstæðismenn undir forystu Davíðs Oddssonar hafa haldið áhrifum vinstrimanna í landinu niðri mestallan tímann sem liðinn er síðan, að heiftin hafi minnkað eða að því verði tekið með tómri gleði þegar Vefþjóðviljinn eða aðrir láta þess getið að í dag muni ljúka einum merkasta og eftirminnilegasta stjórnmálaferli tuttugustu aldar og fram á þá tuttugustu og fyrstu. En ætli það sé nú mikil ástæða til að velta þeim viðbrögðum mikið fyrir sér?Allt frá því sjálfstæðismenn undir forystu Davíðs veltu vinstri meirihlutanum úr sessi í borgarstjórn Reykjavíkur og fram á þennan dag, hefur þeirra verið að vænta í hvert sinn sem opinberlega hefur verið talað vel um þennan stjórnmálamann sem vinstri mönnum er meira en lítið í nöp við.

Vinstristjórnin í Reykjavík féll árið 1982 og sjálfstæðismenn tóku við. Það urðu veruleg umskipti á stjórn höfuðborgarinnar við það. Undir forystu Davíðs höfðu sjálfstæðismenn gefið ýmis skýr loforð í kosningabaráttunni og þar á meðal það að birta í lok kjörtímabilsins lista yfir þau öll og skýra þá frá efndum þeirra. Önnur loforð snerust meðal annars um lækkun skatta, fækkun borgarfulltrúa og niðurlagningu nefnda, og þegar kjörtímabilinu lauk höfðu þau öll verið efnd. Væri raunar ástæða fyrir þá sjálfstæðismenn sem í dag keppa að því ná kjöri til borgarstjórnar og hnekkja núverandi vinstrimeirihluta úr sessi, að velta því alvarlega fyrir sér hvort skýr loforð um lækkun skatta, einfaldari stjórnsýslu og minna skrifræði séu ekki enn það sem borgarbúar vilja fá.

Sjálfstæðismeirihlutinn í borgarstjórn lækkaði skatta, eins og hann hafði lofað. En hann hafðist fleira að. Lóðaskorti var til dæmis útrýmt og varð hans ekki aftur vart fyrr en vinstrimenn voru aftur komnir til valda. Og verður sennilega ekki útrýmt aftur fyrr en þeir eru aftur farnir frá völdum. Margt fleira mætti telja af því sem borgarstjórnarmeirihluti sjálfstæðismanna tók sér fyrir hendur, en eitt látið nægja að sinni. Hafist var handa um það, sem síðar átti eftir að setja svip á íslensk stjórnmál; einkavæðingu. Bæjarútgerð Reykjavíkur var seld og það er skondin tilviljun en kannski á sinn hátt táknræn, að forstjóri hennar var þá Brynjólfur Bjarnason, sami maður og sat í stóli forstjóra Landsímans þegar það fyrirtæki var selt í stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar.

Davíð Oddsson var borgarstjóri Reykvíkinga í níu ár, frá árinu 1982 og fram til ársins 1991 er hann varð forsætisráðherra. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem þá var til, tók við vægast sagt slæmu búi af vinstristjórn Steingríms Hermannssonar, og nú munu sennilega fæstir gera sér grein fyrir því í fljótu bragði hvernig ástandið var þá, eða hve miklar breytingar hafa orðið þau ár sem síðan eru liðin. En breytingarnar eru ótrúlegar. Í grein í nýju tímariti, Þjóðmálum, skrifar Páll Vilhjálmsson blaðamaður og ritari Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi athyglisverða grein um Davíð Oddsson, og segir þar meðal annars:

Forsætisráðherradómur Davíðs Oddssonar var rökrétt afleiðing af tímamótunum sem fólust í þjóðarsáttinni. Það þurfti að hreinsa til í margþvældu kerfi millifærslna og opinberra afskipta sem þróuðust í áratugi í skjóli samráðsstjórnmála. Enginn var betur til þess fallinn en skeleggi borgarstjórinn sem árið 1991 tók stökkið frá nýja fokhelda ráðhúsinu í gamla fangelsið sem hýsir forsætisráðuneytið.

Hin nýja ríkisstjórn fékk nóg að fást við. Eitt af því sem hún vildi gera var að setja „löggjöf gegn einokun og hringamyndun“, eins og sagði í stjórnarsáttmála. Það er ekki nýtilkomið að Davíð Oddsson og ríkisstjórnir hans hafi áhuga á slíkri löggjöf. Í setningarræðu sinni á þeim landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem lýkur í dag, vitnaði Davíð meira að segja til ræðu sem hann flutti árið 1978 þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að barátta gegn einokunarhringum, sem hann kallaði svo, væri stefna sem öll lögmál segðu að sjálfstæðismenn ættu að berjast fyrir. Eins og lesendur Vefþjóðviljans vita, þá er þetta vefrit ekki áhugasamt um lög séu sett gegn hringamyndun. En fyrir því áhugaleysi verður blaðið vitanlega að hafa önnur rök en þau að stuðningsmenn slíkra laga stjórnist af því hverjir stýri þeim fyrirtækjum sem víðfemust eru hverju sinni.

„Það var með öðrum orðum engin tilviljun hvernig ástandið var hér á landi þegar síðasta vinstri stjórn gaf upp öndina fyrir tæpum fimmtán árum, ástandið var þvert á móti óhjákvæmileg afleiðing þess að stjórnarherrarnir höfðu ofurtrú á sjálfum sér og ríkisvaldinu en enga trú á almenningi og markaðsöflunum.“

Það er allt annað en auðvelt fyrir ungt fólk að ímynda sér hvernig umhorfs var hér á landi árið 1991 þegar Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn. Og það er raunar ekkert hlaupið að því heldur fyrir hina eldri að rifja upp hvers konar ófremdarástand ríkti hér í efnahagsmálum og hvers konar afturför hafði ríkt í tíð vinstri stjórnarinnar sem árið 1991 hrökklaðist frá völdum eftir þriggja ára samfellda efnahagsóstjórn. Vinstri stjórninni stýrði framsóknarmaðurinn Steingrímur Hermannsson sem taldi að hefðbundnar vestrænar hagstjórnaraðferðir ættu ekki við hér á landi og í fjármálaráðuneytinu sat Ólafur Ragnar Grímsson sem virtist hafa tvö aðalmarkmið í störfum sínum; annars vegar að blekkja landsmenn með fegraðri framsetningu á efnahagsástandinu og ríkisfjármálunum og hins vegar að hækka alla þá skatta sem hann kæmist yfir.

Í tíð þessarar vinstri stjórnar hækkuðu skattar á landsmenn sem sagt verulega en að auki var viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs og skuldir ríkisins hækkuðu gegndarlaust. Skýringin á þessu var að stórum hluta rangar áherslur í efnahags- og atvinnumálum, en vinstri menn trúðu því þá eins og nú að þeir væru betur til þess fallnir að ráðstafa fjármunum almennings en almenningur sjálfur. Í fyrirfram dauðadæmdri tilraun til að efla atvinnulífið dældu þeir peningum úr pólitískt handstýrðum lánasjóðum inn í fyrirtæki og atvinnugreinar sem þeir höfðu sérstakt dálæti á og koma orð eins og laxeldi, Framkvæmdasjóður og Álafoss upp í hugann þegar rifjuð er upp sóun vinstri stjórnarinnar á fé almennings. Staðreyndin er nefnilega sú að vitaskuld varð einhver að greiða fyrir sukkið og þótt vandinn væri að hluta til falinn með gríðarlegum erlendum lántökum lenti allt saman á endanum á skattgreiðendum.

Það var með öðrum orðum engin tilviljun hvernig ástandið var hér á landi þegar síðasta vinstri stjórn gaf upp öndina fyrir tæpum fimmtán árum, ástandið var þvert á móti óhjákvæmileg afleiðing þess að stjórnarherrarnir höfðu ofurtrú á sjálfum sér og ríkisvaldinu en enga trú á almenningi og markaðsöflunum. Í stað almennra efnahagsaðgerða sem hefðu þann tilgang að gera atvinnulífinu kleift að framleiða aukin verðmæti einkenndist efnahagsstefna síðustu vinstri stjórnar af sífelldum neyðarfundum og neyðarráðstöfunum í efnahagsmálum. Fréttamenn biðu reglulega á tröppum stjórnarráðsins eftir því að tilkynnt yrði um nýjustu efnahagsráðstafanirnar og þess á milli biðu atvinnurekendur inni á biðstofu forsætisráðherra og föluðust eftir sértækri úrlausn á málefnum sínum og síns fyrirtækis. Það var við þessar aðstæður sem Davíð Oddsson kom úr borgarmálunum og inn í landsmálin. Ekki er ofsögum sagt að með honum hafi komið þeir fersku vindar sem þurfti til að feykja burt fúaspýtum vinstri manna.

Davíð Oddsson flutti fyrstu stefnuræðu sína sem forsætisráðherra haustið 1991 og segja má að í henni leggi hann línurnar um það sem gerst hefur síðan. Þegar horft er til baka má segja að með ólíkindum sé hve miklu ríkisstjórnir hans hafa komið til leiðar af því sem hann lagði áherslu á í þessari ræðu. Þar kvað mjög við nýjan hugmyndafræðilegan tón og ólíkan þeim sem landsmenn höfðu mátt venjast frá stjórnarherrum vinstri stjórnarinnar og Davíð tengdi þær breytingar sem hann sá fyrir sér og taldi nauðsynlegar hér á landi við þær breytingar sem voru að verða í Ráðstjórnarríkjunum í Austur-Evrópu:

Á undanförnum misserum höfum við orðið vitni að pólitísku fjörbroti kenningakerfis sósíalismans. Þessi hugmyndafræði hefur ráðið örlögum hundruða milljóna manna um allan heim og haft gífurleg áhrif á stjórnmálaumræður, einnig hér á landi. Ríkisrekstur og miðstýring eru hvarvetna á undanhaldi og reynsla síðustu þriggja ára hér á landi ætti að sannfæra menn um að þau meginsjónarmið, sem orðið hafa ofan á annars staðar, eigi einnig við hér á landi. Hvarvetna í grannríkjum okkar hafa þeir flokkar, sem áður boðuðu ríkisafskipti og ríkisforsjá, horfið frá þeirri stefnu og færa sér nú í nyt ótvíræða yfirburði markaðsbúskapar. Þessir flokkar hafa viðurkennt að sósíalisminn, með kenningum sínum um hlutverk ríkisvaldsins, hefur orðið undir í hugmyndabaráttunni og reynst vera fátæktarstefna. Þessa fátæktarstefnu boða helstu forystumenn stjórnarandstöðunnar á Íslandi þó enn, þrátt fyrir að aðgerðir þeirra á síðustu árum hafi leitt til versnandi lífskjara.

Undir yfirborði stjórnmálanna takast á tveir meginstraumar sem ég vil lýsa með eftirgreindum hætti. Annars vegar eru þeir sem halda því fram að orsakir eymdar og volæðis sé að finna í ranglátu þjóðfélagskerfi sem mismuni og komi í veg fyrir að menn fái notið sín. Flest félagsleg og stjórnmálaleg vandamál megi leysa með því að innleiða róttækar lausnir á ríkisins vegum og smíða nýtt þjóðfélag. Stórkostlegasta nýsmíði af þessu tagi er nú hrunin til grunna í Ráðstjórnarríkjunum. Hér í þessum sal sitja ennþá menn sem bundnir voru þessum dauðu kenningum órjúfanlegum böndum, en vilja nú ekkert af fortíð sinni vita. Hins vegar eru hinir sem ekki eru eins ginnkeyptir fyrir einföldum lausnum. Þeir líta svo á að maðurinn sé ófullkominn og seint takist að leysa öll mannleg vandamál. Í stað þess að gera sér mynd af þúsund ára ríki treysta þeir því að í samskiptum borgaranna verði smám saman til samskiptareglur um það sem má og ekki má í mannlegum samskiptum og að þær lausnir, sem þannig finnast, séu haldbetri en gervilausnir kenningasmiðanna.

Í þjóðfélagi eins og okkar kemur oftrúin á mátt skipulagshyggju fram hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa tilhneigingu til að leysa deilur og önnur vandamál með lagasetningum og reglugerðum og með því að færa valdhöfum aukin völd. Sífellt fleiri svið mannlífsins eigi að lúta boðum og bönnum, en að sama skapi verði dregið úr því að þjóðfélagið þróist áfram á grundvelli sjálfsprottinna reglna og samskipta fólks í milli. Í stað þess að leita lausna eftir eðli tiltekins vandamáls gætir tilhneigingar til að leysa öll vandamál með lagaákvæðum og reglugerðafyrirmælum. Seint virðist mönnum koma í hug að þessi aðferð geti jafnvel aukið á vandann. Víða um lönd leita menn leiða til að grisja skóg laga og reglugerða. Umræðu hefur skort hér á landi um þessi efni þar sem ástandið er litlu betra en annars staðar.

Í ræðunni lagði Davíð einnig áherslu á að einfalda skattheimtu og lækka skatthlutföll og hefur þetta gengið eftir eins og menn þekkja. Tekjuskattar á fyrirtæki hafa lækkað úr 50% í 18%. Tekjuskattar ríkisins á launamenn voru 30% árið 1991 – sé tekið tillit til tilfærslna á verkefnum og skatttekjum frá ríki til sveitarfélaga – en verða 21,75% í lok þessa kjörtímabils og hafa því lækkað um 8,2%, sem hefði þótt óhugsandi þegar Ólafur Ragnar Grímsson, sem fékk viðurnefnið Skattmann í frægu áramótaskaupi, fór með fjármál ríkisins fyrir hönd vinstri manna. Þá hefur eignarskattur á einstaklinga og fyrirtæki verið felldur niður frá og með þessu ári, en hæst fór sá skattur í 2,95% þegar vinstri menn réðu síðast ferðinni í fjármálaráðuneytinu. Þá má nefna að erfingjar greiða nú 5% skatt af arfi, en, en áður greiddu þeir allt að 45% skatt.

Davíð fjallaði í þessari stefnuræðu sinni einnig um að ríkið mundi „hætta afskiptum af atvinnurekstri þar sem einstaklingum og fyrirtækjum er betur treystandi til að skila árangri“. Markmiðið væri að færa verkefni og rekstur frá opinberum aðilum og losa þannig íslenskt hagkerfi „úr viðjum pólitískrar ofstjórnar“. Ríkið myndi selja ríkisfyrirtæki og fela einkaaðilum verkefni og þjónustu að undangengnum útboðum. Sama gilti um fjárfestingarlánasjóði. Þá yrði lögð áhersla á að efla innlendan hlutafjármarkað, sem var í raun ekki til árið 1991 í svipaðri mynd og við þekkjum nú, auk þess sem rýmka ætti gjaldeyrisreglur til að innlend fyrirtæki hefðu ekki lakari aðgang að fjármagni en erlendir keppinautar og til að stuðla að lækkun innlendra vaxta.

Allt hefur þetta orðið að veruleika og gott betur. Og þótt það kunni að hljóma sérkennilega nú, þá var einkavæðing hefðbundinna fyrirtækja á borð við viðskiptabanka síður en svo óumdeild fyrir hálfum öðrum áratug og til að ná henni fram þurfti að berjast af hörku og sannfæringarkrafti. Andstaða var meira að segja svo mikil í Alþýðuflokknum, sem Sjálfstæðisflokkurinn átti í samstarfi við á árunum 1991 til 1995, að engin leið var að ná fram sölu ríkisbankanna. Jóhanna Sigurðardóttir, nú þingmaður Samfylkingarinnar, fór fyrir þeim hópi Alþýðuflokksmanna sem þvældist fyrir einkavæðingunni og Samfylkingin hefur síðan kosið að taka upp stefnu Jóhönnu og beita sér gegn sérhverri einkavæðingu sem ríkisstjórnin hefur unnið að og framkvæmt. Framan af gekk reyndar einnig erfiðlega að fá Framsóknarflokkinn, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið með frá árinu 1995, til að fallast á umtalsverða einkavæðingu á borð við einkavæðingu bankanna, en það tókst að lokum. Á tiltölulega fáum árum hefur ríkinu tekist að losa sig við nokkur risavaxin fyrirtæki, nú síðast Landssímann, auk fjölda smárra og meðalstórra fyrirtækja.

Þrátt fyrir þær miklu framfarir sem orðið hafa í efnahagsmálum landsmanna frá því fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum árið 1991 er það vitaskuld ekki svo að öll vandamál efnahagslífsins hafi verið leyst í eitt skipti fyrir öll. Nú um stundir glíma menn enn við efnahagsvanda, en hann er bara allt annars eðlis en sá vandi sem glímt var við fyrir fimmtán árum og hagkerfið sjálft er gerbreytt og miklu betur til þess fallið að takast á við þau vandamál sem óhjákvæmilega er alltaf við að eiga. Það er í raun fjarstæða að nota orðið efnahagsvandi yfir það sem við er að etja í efnahagsmálum nú fyrst það orð var notað fyrir fimmtán árum. Þá var allt bókstaflega í kaldakoli, en nú er miklu frekar um nokkuð sem kalla mætti velferðarvanda að etja. Uppgangurinn, meðal annars vegna þeirra hröðu breytinga sem hér hefur verið lýst, hefur valdið því að kaupmáttur almennings hefur vaxið hratt og aðgangur hans að fjármagni sömuleiðis. Atvinnulífið blómstrar með miklum hagvexti árum saman og fyrirtækin skila miklum hagnaði. Þetta er afar ólíkt því efnahagsumhverfi sem ríkti þegar Davíð Oddsson tók við stjórn landsmálanna, því að þá hafði verið viðvarandi hallarekstur, samdráttur kaupmáttar og annað það sem einkennir veikt efnahagslíf.

Þegar Davíð Oddsson lét af embætti forsætisráðherra, 15. september á síðasta ári, birti tímaritið Frjáls verslun samantekt þar sem ríkisstjórnir hans voru metnar eftir tuttugu atriðum, svo sem kaupmætti ráðstöfunartekna, hagvexti, stöðugleika, skuldum ríkissjóðs, skuldum heimilanna, lækkun skatta, frjálsu fjármagnsflæði, almennri atvinnu og lágum raunvöxtum. Niðurstaðan varð sú að af tuttugu atriðum fengu stjórnirnar fjórtán plúsa, tvo mínusa og um fjögur atriði sagði tímaritið að niðurstaðan væri hvorki né.

Ríkisstjórnir síðustu ára hafa hins vegar auðvitað ekki aðeins sinnt efnahafsmálum. Á ótal öðrum sviðum hefur orðið mikil breyting. Eitt af því er réttarstaða borgaranna. Vorið 2003 skrifaði Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor grein í Morgunblaðið og lýsti þeim breytingum sem orðið hefðu undir forystu Davíðs Oddssonar og sagði að undir forystu hans hefði orðið „eitt mesta framfaraskeið Íslandssögunnar að því er varðar bætta réttarstöðu þegnanna og gegnsæi ákvarðanatöku í opinberu lífi.“ Og prófessorinn taldi upp, og má vera að einhverjum þyki forvitnilegt í ljósi sífelldra upphrópana ónefnds stjórnmálamanns um að mikil og brýn nauðsyn sé að „setja almennar leikreglur“ í landinu:

Dómstólar eru borgurum öruggara skjól en áður“ „Þetta hefur, ásamt þróun í dómaframkvæmd, bætt mannréttindavernd á Íslandi og aukið á réttaröryggi borgaranna.“ „Lögin hafa valdið straumhvörfum í opinberri stjórnsýslu á Íslandi.“ „Lögin hafa aukið til muna gegnsæi í opinberri stjórnsýslu og um leið aukið réttaröryggi þegnanna í samskiptum við hið opinbera.“ „Með gildistöku laganna varð grundvallarbreyting, m.a. til hagsbóta fyrir íslenska neytendur.“ „Öll þessi löggjöf hefur stórum aukið gegnsæi í viðskiptum með verðbréf á Íslandi og í raun lagt grunninn að íslenskum verðbréfamarkaði. Hún leiðir til stórbættrar stöðu almennings og greiðir fyrir þátttöku hans í viðskiptum með verðbréf.“ „Reglur þessar þrengja til mun[a] svigrúm stjórnvalda til að draga taum einstakra fyrirtækja.“ „Margt fleira mætti nefna frá fyrrgreindu tímabili sem horft hefur til aukins réttaröryggis og traustari stöðu einstaklinga svo sem nýskipan lögreglumála, ný lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, ný lögræðislög og ný barnaverndarlög, margvíslegar breytingar á hegningarlögum o.s.frv. Listinn er í raun mjög langur og ekki unnt að gera honum fullnægjandi skil í þessari stuttu grein.

Hugsanlega getur einhver tekið að sér að fræða viðkomandi stjórnmálamann um það að á sama tíma og hún var upptekin við að skuldsetja borgarsjóð þá var í alþingishúsinu verið að setja almennar leikreglur á ótal sviðum. Já skuldir borgarinnar. Þegar Davíð Oddsson lét af starfi borgarstjóra voru þær að núvirði tveir milljarðar króna. Þær eru nú, á sama verðlagi, milli sjötíu og áttatíu milljarðar. Og hafa borgaryfirvöld vinstrimanna þó hækkað skatta og auk þess fengið stórauknar tekjur vegna uppgangs í þjóðfélaginu. Það er með algerum ólíkindum hversu borgaryfirvöldum hefur orðið lítið úr öllu þessu fé, hversu ósýnt þeim er að sjá um mál hins opinbera, og hversu áhugasamir sumir eru að koma þeim, sem mesta ábyrgð bera á fjárhagsstjórn Reykjavíkurborgar síðasta áratuginn, til valda í stjórnarráðinu.

En hvernig stjórnmálamaður hefur Davíð Oddsson verið að öðru leyti? Hver hafa hans meginsjónarmið verið? Þrátt fyrir sífelldan söng vinstrimanna um stjórnlyndi hans, þá er það staðreynd að hann hefur gert meira en aðrir stjórnmálamenn til að koma völdum úr höndum stjórnmálamanna og til borgaranna. Einkavæðing á einkavæðingu ofan, stjórnsýslureglur, upplýsingalög og ótal önnur slík atriði eru skýrlega til marks um það. Stjórnlyndir stjórnmálamenn myndu einfaldlega ekki hafa frumkvæði að eða taka vel í þær hugmyndir að losa undan valdi sínu öflug fyrirtæki eins og bankakerfið, símakerfið eða önnur slík, eða þá minnkað stórlega hlutdeild ríkisins í aflafé fólks með skattalækkunum. Og sennilega má segja að Davíð Oddsson hafi einfaldlega ekki verið stjórnlyndur stjórnmálamaður heldur viljað að fólk fengi sem mest að ráðstafa eigin lífi. Á hinn bóginn hefur hann viljað skýrar og öflugar reglur þar sem hann hefur talið reglur nauðsynlegar, og ekki myndi Vefþjóðviljinn alltaf vera þeirrar skoðunar að slíkar reglur væru nauðsynlegar, en það er annað mál sem blaðið hefur oft rökstutt. En Davíð hefur verið laus við þann plagsið ýmissa stjórnmálamanna að vilja smásmyglislegar reglur um hvaðeina. Menn geta haft hvaða skoðun sem er á stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar eða einstökum ákvörðunum hans. En það veit Vefþjóðviljinn að stjórnmálaferill hans er einn hinn merkasti og eftirminnilegasti margra síðustu áratuga og það munu flestir sanngjarnir menn viðurkenna. Og það verður alltaf þörf stjórnmálamanna sem ekki beygja sig fyrir dægurumræðunni. Og það verður alltaf þörf stjórnmálamanna sem bæði vilja og leggja út í að lækka skatta og einkavæða fyrirtæki og berjast gegn sífelldri smámunasemi hins opinbera. Hún eykst líka stöðugt Í viðtali við Morgunblaðið í árslok 2003 sagði Davíð Oddsson meðal annars að hann yrði ekkert hissa þó einhvern tíma yrðu settar reglur um skyldunotkun trefils í frosti. Sennilega yrði deilan þá einkum um það hvort miða ætti við fimm eða sjö stiga frost en ekki hvort yfirleitt ætti að gera trefilsnotkunina að skyldu:

Menn vilja t.d. að bremsur í bíl séu í lagi vegna þess að annars getur ökumaðurinn valdið öðrum stórkostlegum áverkum og skaða. En hvað hefur skyldunotkun öryggisbelta í aftursætum með náungann að gera? Ræð ég því ekki sjálfur hvort ég nota öryggisbelti í aftursæti eða ekki? Nei, kemur svarið, vegna þess að meiðist ég eða slasist mun það kosta ríkið mikil fjárútlát; ég gæti t.d. lent á spítala. Þarna erum við komin býsna nálægt úlpuhugsuninni: Það er ekki mitt mál hvort ég fái lungnabólgu af völdum ónógs skjólfatnaðar vegna þess að ég get valdið ríkinu útgjöldum og þá eru rök fyrir skyldunotkun úlpunnar orðin nægileg. Við eigum bara eftir að setja reglur um þetta. Ég hugsa að þær komi fljótlega.